2001-10-03 15:44:11# 127. lþ. 3.2 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem hingað upp til þess að mæla örfá orð í tilefni af því frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að við munum styðja frv. eins og hefur áður komið fram af minni hálfu sem formanns þess flokks í viðræðum við ríkisstjórnina og eftir föngum hraða ferð þess í gegnum Alþingi. Þetta frv. er til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem sett voru 23. september.

[15:45]

Eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskrá og lögum lýðveldisins er það talin frekar slæm lenska að grípa til bráðabirgðalaga. Þau eru ákaflega ill nauðsyn. Og ég held að þeirri skoðun deili með mér flestallir sem í þessum sölum sitja. Það var hins vegar tímaþröng sem rak til þess að nauðsynlegt var að setja þessi lög. Það var haft samband við stjórnarandstöðuna á sunnudeginum 23. sept. til að kanna hug hennar til þessara laga. Þá hafði að vísu, herra forseti, verið kunnugt frá föstudeginum 21. sept. að líklega væri ekki hægt að komast hjá því að setja einhvers konar lög. Mögulega hefði verið unnt að kalla saman þing á mánudegi. Það þurfti að ljúka þeirri óvissu sem skapast hafði fyrir lok mánudags, þannig að mögulega hefði verið hægt að kalla þingið saman til þess að setja slík lög með hraði. Það hefði hins vegar ekki falið í sér rétt skilaboð á þeim tíma þegar ljóst var að þeir sem tryggðu íslenska flugflotann voru farnir að ókyrrast. Það var nauðsynlegt að eyða óvissunni og á þeim grundvelli tók a.m.k. ég fyrir hönd flokks míns ákvörðun um að styðja þessa aðferð.

Ég vil, herra forseti, aðeins varpa nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh.

Í bráðabirgðalögunum sem forseti lýðveldisins staðfesti á Bessastöðum 23. sept. er talað um að tryggingin sem hér um ræðir sé veitt íslenskum flugrekendum sem stunda flug til og frá Íslandi og utan lands. Ef maður hins vegar les frv. þá er ekki um neina slíka takmörkun að ræða, heldur er flugflotanum öllum veitt sú vernd. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé með vilja gert að víkka þannig þá ábyrgð sem ríkissjóður tekur á sig. Eða má e.t.v. líta svo á að 3. mgr. 1. gr. feli í sér þessa takmörkun?

Í öðru lagi, herra forseti, þá kemur fram hjá hæstv. fjmrh. að gerður hefur verið tryggingasamningur við norræna samsteypu sem tryggingafélagið Sjóvá-Almennar starfar sem fulltrúi fyrir gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Hæstv. ráðherra greindi frá því að heimilt væri samkvæmt þessum lögum að taka gjald fyrir trygginguna og hann upplýsti jafnframt hve mikið það gjald væri, 25--50 sent, allt eftir þeirri vernd sem í boði er. Mér var ekki kunnugt um, herra forseti, að í boði væri mismunandi verð og vildi spyrja hæstv. ráðherra: Hver er munurinn á þeirri vernd sem er að baki fyrri upphæðinni og hinni síðari? Er ekki nauðsynlegt að veita sams konar vernd gagnvart íslenska flugflotanum, sama um hvers konar loftfar er um að ræða, fyrst það miðar við hvern einstakan farþega?

Jafnframt, herra forseti, tek ég eftir því að sá aðili sem mætir íslensku ríkisstjórninni fyrir hönd hinnar norrænu samsteypu tekur að launum 15% fyrir. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hver er heildarupphæðin sem búist er við að komi fyrir þessa tryggingavernd af hálfu íslensku flugfélaganna. Ég skil það svo að það séu þeir sem greiða ríkissjóði gjaldið. Er um það að ræða að hið íslenska tryggingafélag Sjóvá-Almennar, sem mér finnst fá þarna furðu mikið í sinni hlut, þ.e. 15% einvörðungu fyrir kostnað, af því hér stendur í umsögn fjárlagaskrifstofu að þessum 15% verði varið til að mæta kostnaði tryggingafélagsins. Er það þá svo að tryggingafélagið fái 15% einungis fyrir kostnað en taki enga áhættu?

Í þriðja lagi, herra forseti, þá vildi ég segja að ég met það við hæstv. ríkisstjórn að hún skyldi með þessum hætti hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Þetta mál er þannig vaxið að það er nauðsynlegt, eins og fram kom í umræðu hér fyrr í dag um munnlega skýrslu utanrrh., að ná sem mestri samstöðu meðal landsmanna og hefja þetta mál yfir flokkadrætti. Því miður kemur það betur og betur í ljós að afleiðingar þessa voðaverks á hag okkar, sem búum víðs fjarri vettvangi atburðarins, verða miklu meiri en menn uggðu. Það er alveg ljóst að þessir atburðir geta kallað tímabundna lægð yfir hagkerfi heimsins, jafnvel ástand sem stappar nærri efnahagskreppu. Það er ljóst að hér á Íslandi mun áhrifanna gæta töluvert harkalegar í hagkerfinu en við væntum í kjölfar atburðarins, a.m.k. fyrstu dagana á eftir. Það hefur t.d. komið fram varðandi flugið þar sem hundruð manna sæta nú atvinnumissi vegna afleiðinga þessa atburðar.

Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að ég er sammála ríkisstjórninni um að nauðsynlegt sé, eftir því sem föng eru, að hefja þetta mál yfir hefðbundna flokkadrætti á hinum pólitíska vettvangi. Þess vegna ítreka ég þakkir mínar til ríkisstjórnarinnar og segi jafnframt að efnislega munum við styðja þetta frv. en áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að gera athugasemdir og jafnvel breytingartillögur við einstaka liði þess.