2001-10-03 15:53:41# 127. lþ. 3.2 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra hv. þm. til hæstv. ríkisstjórnar fyrir hversu hratt hún brást við. Ég tel þetta algjörlega nauðsynlega lagasetningu sem við erum að staðfesta hér. Hér er um að ræða gífurlegar upphæðir. 49 flugvélar þurfti að tryggja. Þetta er hálfur milljarður dollara á hverja vél, eða 50 milljarðar kr. á hverja vél. Samtals er heildartryggingarupphæðin 2.750 milljarðar kr. og væru Íslendingar sennilega 10 ár að vinna fyrir þeirri upphæð ef þeir gerðu ekkert annað. En líkurnar á að til þess komi eru náttúrlega mjög litlar.

Það sem mig langar til að spyrja um er hvort gerður hafi verið gagnkvæmur endurtryggingarsamningur við önnur ríki skv. 3. gr. Hafi það ekki verið gert hvet ég til þess að það verði gert nú þegar og eigi síðar. Hér er um mjög mikla áhættu að ræða og alveg ástæðulaust að Íslendingar beri hana einir. Ef svo ólíklega vildi til, sem afskaplega litlar líkur eru á, að tjón yrði þá er hægt að minnka áhættuna mikið með því t.d. að gera gagnkvæman endurtryggingarsamning við Norðurlandaríkin, Þýskaland eða eitthvert annað ríki sem væri tilbúið til þess. Þetta er verkefni sem þarf að leysa, helst fyrir hádegi á morgun.

Hingað til hefur það verið metið svo í endurtryggingarsamningum að ein breiðþota farist á 15--20 ára fresti af völdum hryðjuverka og stríðsástands. Á þessu ári hafa farist sex. Tvær fórust á Sri Lanka á jörðu niðri og síðan þessar fjórar sem fórust á flugi í Bandaríkjunum. Þannig eru allar forsendur fyrir tryggingaiðgjaldinu brostnar. Iðgjaldið var nánast hverfandi en nú eru menn farnir að reikna með miklu hærra iðgjaldi. Ég hef heyrt tölu um 300 kr. á hvern farmiða í öllum heiminum. Við erum því að tala um umtalsverða upphæð sem mun hækka fargjöld með flugfélögum.

Ég vil vekja athygli á niðurlagi 2. gr. þar sem segir, með leyfi herra forseta:

,,Trygging ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. skal hafa að geyma áskilnað um rétt ríkissjóðs til þess að segja tryggingu upp á gildistíma hennar ef áhættustig í flugsamgöngum vex eða vátryggjendur hefja að bjóða viðbótar ábyrgðartryggingar.``

Nú er það að gerast, skilst mér, að einn aðili býður slíkar tryggingar og talað er um að þessi ábyrgð ríkissjóðs falli niður á föstudaginn vegna þess að einn aðili býður þessa tryggingu. Mér skilst að ámóta ákvæði sé ekki í ábyrgð Norðurlandaþjóðanna heldur veittu þau ábyrgð í 30 daga. Nú þurfa íslensk tryggingafélög að sæta því að semja við þennan eina aðila sem býður tryggingar. Hann krefst þess að gerður sé samningur til 12 mánaða og eðlilega með mjög háu iðgjaldi þar sem hann er fyrstur. Ég vil skora á hæstv. fjmrh. að skoða þetta ákvæði og hvort nauðsynlegt sé að breyta því þannig að íslensk tryggingafélög og þar með íslenskir flugrekendur, séu ekki ofurseldir fyrsta aðilanum sem býður tryggingar.

Það gerðist þegar þessari tryggingu var sagt upp, að nokkur ríki, þar á meðal Eistland, veittu ekki ábyrgð. Air Estonia var því kyrrsett og þess vegna var farið í gang með að tryggja slík félög með fyrsta forgangi en með mjög háu iðgjaldi. Þær aðstæður blasa nú við íslenskum flugrekendum að einn aðili er að bjóða tryggingar og þar með tekur gildi þetta ákvæði 2. mgr. 2. gr. Nú er farið að bjóða viðbótar ábyrgðartryggingar og þá fellur tryggingarábyrgð íslenska ríkisins niður, þó að ekki sé liðinn mánuður. Ég vildi gjarnan að menn skoðuðu þetta nákvæmlega í meðförum þingsins á þessu frv., hvort ástæða sé til að breyta þessu ákvæði þannig að það gildi í 30 daga og það verði skoðað hvernig önnur ríki hafa leyst þessa ábyrgð.