2001-10-03 15:58:41# 127. lþ. 3.2 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið. Þær eru í samræmi við það sem áður var vitað um afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessa óvenjulega máls.

Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum. Í fyrsta lagi vil ég svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi orðalag frv. Ég sé ekki að neitt hafi breyst frá því sem var í bráðabirgðalögunum. Það má vera að þingmaðurinn hafi haft eldri útgáfu af bráðabirgðalögunum undir höndum en þau sem síðan voru undirrituð og gefin út. Þetta er sama frv., sömu lögin sem óskað er eftir að hér verði samþykkt.

Að því er varðar mismunandi iðgjald, eða 25--50 sent, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, þá er þar ekki um að ræða mismunandi tryggingavernd. Ég hygg að þetta stafi af því að flugleiðir eru mislangar, mislangur tími sem vélarnar eru á lofti hverju sinni.

Að því er varðar 15% hlutdeild frumvátryggjendanna þá var spurt: Fá þeir þessa þóknun án nokkurrar áhættu? Svarið við því er nei, vegna þess að þeir taka að sér að tryggja gagnvart fyrstu 50 milljón bandaríkjadollurum í hverju tilfelli fyrir sig, út af hverjum einstökum atburði. Sú áhætta leggst á viðkomandi félag, u.þ.b. 5 milljarðar fyrir hvern atburð og má ætla að a.m.k. í einhverjum tilfellum ætti það að duga gagnvart slíku tjóni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði um ákvæði 3. gr. og gagnkvæma endurtryggingu við önnur lönd. Það hefur ekki verið raunin að til slíkra samninga hafi verið gengið enda, eins og hann benti sjálfur á, eru allar líkur á því að þessi trygging og vernd sem í henni felst verði orðin óþörf, jafnvel innan nokkurra daga. Um það vitum við auðvitað ekki fyrir víst en það tengist því sem þingmaðurinn benti einnig á, að nú eru vátryggingarfélög á alþjóðavísu að hefja sölu á tryggingum af þessu tagi á nýjan leik. Mér er kunnugt um a.m.k. tvo aðila sem bjóða á ný tryggingar þannig að ég vonast til þess að íslensku tryggingafélögin muni ekki sæta þeim afarkostum sem þingmaðurinn taldi hættu á, ef aðeins einn aðili væri á ferðinni.

Ég býst við að hitt sé alveg ljóst, að tryggingaiðgjöldin á þessu sviði, eins og þingmaðurinn sagði, muni vafalaust hækka verulega frá því sem áður var þegar þarna var ekki talin raunveruleg áhætta á ferðinni. Það er þá nýr kostnaður sem flugfélögin verða fyrir. Hann er auðvitað bagalegur fyrir þau eins og staðan er í þessum rekstri en eigi að síður er eðlilegt að félögin inni hann af hendi og þar með mundu þessi bráðabirgðalög falla úr gildi. Það er þá alveg óháð þeirri spurningu, sem ekki hefur reyndar verið spurt af hálfu félaganna, hvort til greina kæmi einhver stuðningur af opinberri hálfu almennt séð við þær aðstæður sem nú eru.

Þá er eðlilegt að þessi lög sem hafa þó þjónað tilgangi sínum falli úr gildi, félögin taki við með venjulegum hætti og ríkið losni undan ábyrgð sinni. Síðan geta menn rætt málin í framhaldinu í ljósi þeirrar nýju stöðu sem þá verður uppi.