Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:35:12 (65)

2001-10-04 11:35:12# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. heldur sig við falsanirnar og lögbrotin þó að orðið sviksemi sé dregið til baka. Ég tel að hann hafi orðið sér til fullkominnar minnkunnar í þessu máli. Ég sagði það í sjónvarpinu í gær og ég skal endurtaka það hér.

Hitt er annað mál að hér hefur ekkert lögbrot verið framið. Það er stuðst við --- það er höfð hliðsjón af þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar --- þjóðhagsáætluninni. Og það er gengið út frá sömu meginforsendum, vitanlega. Eins og merkur hagfræðingur greindi frá í sjónvarpinu í gær, þegar hann fór nokkrum fallegum orðum um hv. þm. og gamlan vopnabróður, er þetta byggt á sömu tölunum og sömu tölvumódelunum.

En svo vil ég líka taka það fram að það er nú ekki alltaf svo að þessar spár hafi staðist með vísindalegri nákvæmni. Auðvitað er það þannig með þessar spár, og jafnvel hugsanlega spár Íslandsbanka sem mér heyrist að hv. þm. vilji gera að forsendum fjárlaga, að það ríkir auðvitað viss ónákvæmni vegna þess að menn vita ekki alla hluti.

Ég ætla að nefna þingmanninum eitt dæmi. Fyrir tveimur árum var lagt fram frv. til fjárlaga fyrir árið 2000. Hvað sagði í forsendum þjóðhagsáætlunar um hagvöxt á því ári? 2,7%. Í fyrra var lagt fram frv. fyrir árið 2001. Þar var tala um hagvöxtinn á árinu 2000. Hver var hún þá orðin? 3,6%.

Í þessu frv. og þjóðhagsáætlun sem hér fylgir er enn á ný fjallað um hagvöxtinn á árinu 2000. Hvað segir þar? 5% hagvöxtur. Það er búið að endurskoða töluna aftur í tímann úr 2,7 upp í 3,6 og upp í 5%. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur náttúrlega að forsendur eru óvissar. Ég er ekki að gera lítið úr vinnu Þjóðhagsstofnunar. Ég er að segja: Þeir gera þetta eftir bestu getu en aðstaðan er þessi.

Tal þessa hv. þm. um þetta mál er því fleipur. Hann á að biðjast afsökunar á því og hann er maður að minni fyrir að halda þessu áfram.