Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:37:30 (66)

2001-10-04 11:37:30# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að loksins eru sjáanleg merki hér í þingsal um að það rennur blóð í æðum þessa hæstv. fjmrh. Ég mundi líka vera heldur órór ef ég sæti núna í stól hæstv. fjmrh. með það umhverfi sem hann hefur átt svo mikinn þátt í að skapa, umhverfi sem leiðir til þess að íslensk fyrirtæki stynja undan þeim mistökum sem hæstv. ráðherra og hans félagar í ríkisstjórninni eru ábyrgir fyrir.

Við verðum að horfast í augu við staðreyndir og horfast í augu við raunveruleikann. Það er ekki rétt, finnst mér, og ekki góð vinnubrögð hjá hæstv. fjmrh. að koma hingað og flytja þetta fjárlagafrv. sitt eins og það sé bara allt í lagi.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að nokkur tími er liðinn síðan hann skrifaði frv. og lagði það fram og ýmislegt hefur gerst. Við vitum auðvitað öll að það sem er að gerast í kringum okkur í heiminum núna er af þeim toga að allt hnígur að því að forsendur frv. veikist enn frekar, því miður. Þróunin í kringum okkur í efnahgslífi umheimsins er einfaldlega þannig vegna þeirra voðaverka sem urðu í Bandaríkjunum að allt er á miklu örari niðurleið en menn reiknuðu með fyrst eftir að það verk gerðist. Það er auðvitað það sem við þurfum líka að taka mið af. Það sem hæstv. fjmrh. hefði þá getað gert var að segja mönnum sannleikann, segja mönnum að því miður sé ástandið þannig að líklegt sé að jafnvel það sem hann taldi að væri rétt og málaði í rósrauðum litum muni ekki ganga eftir. Það er auðvitað hinn napri sannleikur.

En hæstv. fjmrh. hefur ekki einu sinni haft kjark til þess að segja það.