Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 11:40:06 (67)

2001-10-04 11:40:06# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Eins og fjárlagafrv. ber með sér hafa orðið mikil umskipti í efnahagslífi þjóðarinnar. Þetta kemur fram með myndrænum hætti í þjóðhagsáætlun sem birt var á sama tíma og fjárlagafrv. Þar er talað um haustliti hagsveiflunnar. Þetta eru orð að sönnu.

Á þessu ári er talið að hagvöxtur verði verulega minni en hann hefur verið á undanförnum árum. Á fyrri hluta ársins var hagvöxtur góður og því felur þessi spá í sér að á seinni hlutanum verður hagvaxtarleysi eða jafnvel samdráttur. Veðrabrigðin virðast því falla að árstíðunum að þessu sinni. Einnig horfir þunglega fyrir næsta ár þótt skoðanir um þau efni séu skiptari. Þannig gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir nokkrum samdrætti en fjmrn. er bjartsýnna og reiknar með 1% hagvexti. Þegar grannt er skoðað er þetta e.t.v. ekki svo ýkja mikill munur. Umskiptin virðast óumflýjanleg frá hröðum hagvaxtartakti í hagvaxtarleysi um hríð eða a.m.k. lítinn vöxt.

Þótt ekki sé mikill munur á þessum spám er auðvitað nauðsynlegt að fjárln. fari rækilega yfir horfurnar til að tryggja að fjárlögin verði byggð á sem raunhæfustum forsendum. Það liggur í hlutarins eðli að eftir því sem gert er ráð fyrir að efnahagslífð verði öflugra á næsta ári þeim mun rýmri verður staða ríkisins og ríkissjóðs að öðru óbreyttu. Munurinn á umræddum spám virðist fyrst og fremst felast í tvennu. Annars vegar gefur fjmrn. sér meiri þjóðarútgjöld, þ.e. meiri einkaneyslu og fjárfestingu, en Þjóðhagstofnun, og hins vegar er ráðuneytið bjartsýnna varðandi framleiðslu og útflutning sjávarafurða. Þetta tvennt gefur náttúrlega rýmri stöðu ríkissjóðs.

Óvissa er að sjálfsögðu í öllum spám af þessu tagi. En hún er til beggja átta. Það gefur augaleið að fjárln. verður að skoða gaumgæfilega áætlanir um þróun efnahagslífsins á næsta ári. Þetta segir sig sjálft því að skynsamleg beiting ríkisfjármála í hagstjórnarskyni ræðst auðvitað af mati á horfum. Þannig er ástæða til meiri aðgerða til að örva efnahagslífið eftir því sem búist er við að lægðin verði dýpri og svo öfugt.

Við þær aðstæður og horfur sem blasa við í þjóðarbúskapnum er mikilvægt að fylgja stefnu í ríkisfjármálum sem leggur sitt af mörkum til að koma á jafnvægi og stöðugleika. Það er greinilegt að heimili og fyrirtæki hafa hafist handa við að taka til í fjármálum sínum og mæta þannig erfiðari skilyrðum í efnahagslífinu. Þannig er talið að sparnaður heimila aukist á þessu ári og því næsta og að fjárfesting fyrirtækja minnki. Ríkissjóður þarf einnig með sanngjörnum hætti að taka þátt í niðursveiflunni, vera góð fyrirmynd og deila því verkefni með heimilum og fyrirtækjum þar eð þjóðarbúið í heild hefur minna til skiptanna en áður.

Ríkissjóður þarf einnig að taka til í eigin ranni. Í því sambandi er brýnast að fyllsta aðhalds verði gætt í útgjöldum og að það svigrúm sem þannig myndast verði nýtt til að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að glíma við niðursveifluna í efnahagslífinu. Á sama tíma þarf að gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín.

Í gær kynnti ríkisstjórnin margvíslegar breytingar á skattkerfinu og er þess að vænta að þær fyrirætlanir verði til þess að efla atvinnulífið í landinu, tryggja atvinnu almennings og létta skattlagningu af húsaleigubótum, svo nokkuð sé nefnt. Ég vek hins vegar athygli á því að menn mega ekki gleyma sér í verkefnum sem eru fyrst og fremst skemmtileg, þ.e. svo sem að lækka skatta, og ýta frá sér erfiðari verkefnum sem snúast um útgjaldaaðhald. Það er skammgóður vermir að lækka skatta ef ekki er raunveruleg innstæða fyrir þeirri skattalækkun að öllu athuguðu. Ég mun leggja mikla áherslu á þetta í störfum mínum í fjárln.

Fjárlagafrv. hefur verið lagt fram hér með 18,6 milljarða kr. afgangi. Þetta er álitlegur afgangur í ljósi efnahagslegra aðstæðna. Þó þarf að hafa í huga að meginhluti þessa afgangs stafar af eignasölu sem nemur samkvæmt frv. 15,5 milljörðum kr. Að frátöldum tekjum af sölu ríkiseigna er því afgangurinn rúmlega 3 milljarðar kr. Því er brýnna en ella að sýna gætni og útsjónarsemi við ákvörðun útgjalda ríkisins.

[11:45]

Að mörgu er að hyggja. Útgjöld ríkisins hafa haft tilhneigingu til að aukast töluvert umfram fjárlög. Til marks um þetta er áætlað í fjárlagafrv. að útgjöldin á þessu ári verði nær 13 milljörðum kr. meiri en í fjárlögum. Þetta er umhugsunarefni þótt ýmsar skýringar megi að sjálfsögðu draga fram. Áætlanagerðina þarf að efla og eftirlit með útgjöldum frá einum tíma til annars.

Í þessum efnum er brýnt að ríkið geri sömu kröfur til sín og fyrirtæki og heimili þurfa að gera og að sjálfsögðu þarf að huga bæði að stóru og smáu. Ég mun beita mér fyrir því að fjárln. geri sig meira gildandi að því er varðar eftirfylgni og eftirlit með útgjöldum ríkisins. Á því sviði tel ég m.a. að fjárln. eigi að auka aðhald að opinberum framkvæmdum, einnig að veita aðhald að opinberum innkaupum og að fé ríkisins á þessum sviðum nýtist sem best. Jafnframt þarf nefndin að beita sér fyrir því að stofnanir haldi sig innan fjárlaga.

Virðulegi forseti. Þegar horft er til þeirra atriða sem ég hef rakið hér á undan er ljóst að niðurstaða fjárlagafrv. og stefna í ríkisfjármálum á næsta ári getur haft afgerandi þýðingu fyrir þróun efnahagslífsins. Til grundvallar frv. þurfa að liggja raunsæjar forsendur um þjóðhagshorfur og raunsæ áætlanagerð um þróun tekna og gjalda. Þetta er einkar mikilvægt á þessu stigi hagsveiflunnar. Jöfnum höndum verður að leggja áherslu á ráðdeild og útsjónarsemi annars vegar og skattalækkanir hins vegar. Eins og gefur að skilja eru þessi atriði tengd og reyndar er það svo að útgjaldahliðin ræður skattheimtunni þegar öllu er á botninn hvolft.