Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 12:41:38 (71)

2001-10-04 12:41:38# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[12:41]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar var með eindæmum. Hann byrjaði að ráðast á kennara og sagði að kennarar væru undirrót alls hins illa í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir, stétt sem hafði beðið árum saman eftir því að fá kjör sín leiðrétt. Það var ekki hún sem óskaði eftir því að fara í verkfall mánuðum saman. Það var hreint eins og hv. þm. hefði fremur kosið að þetta verkfall stæði enn til þess að bjarga ríkisfjármálunum. Er það í raun skoðun hv. þm. að við hæfi sé að taka svona eina stétt fyrir?

Ekki var það betra þegar hann kom að sjúkrahúsunum og heilsugæslunni. Það voru kannski skilaboð inn í kjarasamningaviðræður sem standa nú yfir við sjúkraliða, að ef þeir fá einhverja viðbót þá setji þeir efnahagsmálin endanleg á hausinn, þ.e. ef þeir fái kauphækkun. Voru þetta skilaboðin sem hann vildi koma inn í þær viðræður þegar hann sagði að stighækkandi kostnaður í heilbrigðisþjónustunni væri einn stærsti efnahagsvandi þjóðarinnar?

Ætti hann kannski ekki að líta aðeins í eigin barm, herra forseti? Er það ekki einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu sem er mesta efnahagsógnin í ríkisbúskapnum, það að með einkavæðingunni er framseldur sjálftökuréttur á peningum úr ríkissjóði? Þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir.

Herra forseti. Er það virkilega svo að hv. þm. vilji taka svona einstakar stéttir, einstakar grunnstéttir samfélagsins, og kenna þeim um hina lélegu stjórn efnahagsmála sem flokksmenn hans hafa staðið fyrir?