Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 12:43:44 (72)

2001-10-04 12:43:44# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Annaðhvort þarf hv. þm. Jón Bjarnason í heyrnarmælingu eða að hann hafi tamið sér að heyra bara það sem hann vill heyra.

Ég réðst ekkert á kennara hér. Ég benti bara á að á meðan þeir voru í sínu erfiða og vonda verkfalli var stjórnarandstaðan með kröfur í hverri viku um að hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. bæri að fara að þeirra kaupkröfum. (Gripið fram í: Það er rangt.) Síðan koma þessir sömu herrar (SJS: Tala við þá.) og gera hneykslast á því að ríkisútgjöld hafi hækkað á Íslandi. Ég var ekkert að ráðast á kennara. Það er eðlilegt að hver stétt berjist fyrir launum sínum. En það tekur hver mið af öðrum. Ef menn segja að þeir vilji taka undir kaupkröfur, hvort heldur almennings eða hvað stéttin heitir, hvort sem það eru bakarar eða smiðir, þá skulu menn átta sig á því að í kjölfarið fylgir kauphækkun.

Íslendingar hafa hækkað laun sín meira en allar samkeppnisþjóðirnar. Það er bara staðreynd sem menn verða að horfast í augu við. Við það veikjum við gengi krónunnar. Með því veikjum við samkeppnisstöðu Íslands.

Hafa allir, herra forseti, gleymt þeim dásamlega tíma í Íslandssögunni er laun á Íslandi hækkuðu um 10.000%, en kaupmátturinn, hvað varð um hann? Nei, hann bærðist ekki. Hann stóð á núllinu. Eru nú allir búnir að gleyma því?

Það er rétt fyrir menn að rifja þetta upp. Okkur ber í grundvallaratriðum að fara varlega í efnahagsmálum og við förum ekki varlega í efnahagsmálum nema við gætum fyrst og fremst að laununum. Launin eru langstærsti þáttur teknanna þannig að ef þau er ekki í takt við það sem er að gerast í samkeppnislöndunum þá verður engin önnur stærð í takt við það.