Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 12:45:52 (73)

2001-10-04 12:45:52# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Jón Bjarnason (andsvar):

Að sjálfsögðu eru launin mikilvæg, herra forseti. Þau eru svo mikilvæg að meira að segja í tillögum fjmrh. að nýrri skattahækkun á einmitt að leggja aukinn skatt á laun. Á almenn laun í landinu á að leggja aukna skatta, á launagreiðsluna sem slíka og ekki lækkar það í sjálfu sér launakostnaðinn. Hv. þm. ætti því að kanna það hvernig þetta samsvarar því sem hann var að segja núna rétt áðan. Það er með endemum að taka stöðugt út eina og eina stétt. Hann ætti kannski að tala um hvað elli- og örorkulífeyrisþegar eru mikill baggi á efnahagskerfinu.

Herra forseti. Hv. þm. minntist ekki á neinar lækkanir. Ég get bent honum á nokkur atriði. Kannski getum við staðið saman um það. Það eru gæluverkefni. Það á að verja nokkur hundruð millj. kr., óvíst hversu miklu, til þess að halda hérna NATO-ráðstefnu í sumar. Þessi upphæð er nefnd til að byrja með en mikil óvissa er um hver verður endanlegur kostnaður. Eigum við ekki að sameinast um að skera það niður, nokkur hundruð millj. kr.? Það gæti farið til þess að greiða laun fyrir sjúkraliðana á sjúkrahúsunum. Hvað stendur ekki líka varðandi Schengen-samkomulagið, Schengen sem átti að flokka Íslendinga og erlenda gesti inn í landið? Það kostar milljarða króna. Og það studdi hann. (Gripið fram í.) Nei. (Gripið fram í: Það er ósatt.) Það er ósatt. Herra forseti. Ég tek það aftur. En flokkurinn sem hann styður og er að hæla sér hér af verkunum, hann hefði þó getað beitt sér innan hans fyrir því að þetta væri ekki. En þarna eru stórir póstar gjörsamlega (Gripið fram í.) meira en óþarfir. Þeir eru skaðlegir þjóðinni. Og það eru sjálfsagt fleiri póstar í fjárlögunum sem við getum vonandi orðið sammála um að skera niður en ekki að ganga á laun og kjör grunnstétta þjóðfélagsins.