Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 13:30:00 (75)

2001-10-04 13:30:00# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[13:30]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Hér hafa farið fram umræður í morgun og nokkuð snörp orðaskipti. Í tilefni af því er ástæða til að nefna hvað varðar efnahagsforsendur sem hér var verið að deila um og vitna ég í Dagblaðið frá því í gær, með leyfi forseta, þar sem fram kemur í viðtali við þjóðhagsstofustjóra að Þjóðhagsstofnun hafi ekki verið látin vita af því að vinna stofnunarinnar yrði ekki lögð til grundvallar fjárlögum. Það kemur líka fram í Dagblaðinu í dag að ýmsir eru farnir að eiga við verðbólguspár, m.a. Þjóðhagsstofnun, Seðlabankinn, Landsbankinn -- gjaldeyrismál, Kaupþing og Íslandsbanki og síðast en ekki síst fjmrn. núna. Og auðvitað er spá ráðuneytisins þeim að skapi því að þeir laga þetta í hendurnar á sér eins og það er.

Í umræðu um fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að fagráðherrar séu viðstaddir. Herra forseti. Þetta er í fimmta skipti sem ég geri athugasemd við það að fagráðherrar eru ekki viðstaddir umræðuna, 1. umr. fjárlaga. Ég hef sagt það áður að ég tel það að lágmarki vera skyldu fagráðherra að vera viðstaddir meðan frummælendur, talsmenn flokkanna flytja sína fyrstu ræðu. (ÁRJ: Við alla umræðuna.)

Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir að vera hér viðstaddur sem fagráðherra og þeim sem voru hér í morgun, en ég verð að segja, herra forseti, að það vantaði illa á að farið væri að tilmælum forseta eða forsætisnefndar um að ráðherrar séu viðstaddir umræðuna. Það sýnir lítilsvirðingu hæstv. ríkisstjórnar fyrir Alþingi.

Hægt er að benda á, virðulegur forseti, að meira að segja þegar stefnuræða forsrh. var á dagskrá fyrir tveimur kvöldum, þá var ráðherrabekkurinn auður eftir klukkutíma og meira að segja frummælandinn, hæstv. forsrh., farinn úr salnum klukkutíma eftir að hann lauk máli sínu. Ég tel að þetta sýni best hvaða álit hæstv. ríkisstjórn hefur á starfsemi þingsins. Þeir líta á hv. Alþingi sem afgreiðslustofnun og ekkert annað og þar eru mál knúin fram í krafti meiri hluta. Við þetta hef ég gert athugasemd og orð sem ég hef látið falla í þessa veru hafa verið á svipaðan máta undanfarin ár.

Ég þarf að gera athugasemd við annað, virðulegur forseti. Það er að aðeins talsmenn flokkanna megi fara í andsvör í fyrstu umferð. Það getur verið þannig, eins og gerðist hérna rétt áðan, að talsmaður Samfylkingarinnar varð að bregða sér frá og það þýddi að enginn mátti fara í andsvar af okkar hálfu við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson.

Virðulegur forseti. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess að stofnanir ríkisvaldsins séu samstilltar í þeim áætlunum og áformum sem eru lagðar fyrir þingið. --- Ég tel sjálfsagt að geta þess að hæstv. menntmrh. hefur verið manna þaulsætnastur við umræður um fjárlög og kann ég honum bestu þakkir fyrir og get þess um leið og hann kemur í salinn núna.

Ég vil halda áfram með það sem ég byrjaði á, virðulegur forseti, að við hljótum að gera kröfu til þess að stofnanir ríkisvaldsins séu samstilltar í áætlunum og áformum sem eru lagðar fyrir þingið. Munurinn á þessu núna frá því sem verið hefur er að spá Þjóðhagsstofnunar og óskaspá fjmrn. greinir verulega á og það eru skiptar skoðanir, eins og hér hefur komið fram, um raunhæfnisspár þess síðarnefnda. En eins og ég fór yfir hér áðan og hæstv. fjmrh. hefur ugglaust heyrt er það orðið ljóst að þeir eru orðnir margir í þjóðfélaginu sem spá fyrir um þjóðarhaginn og auðvitað er það svo að spá fjmrn. er hæstv. fjmrh. mest að skapi. Það fer ekkert á milli mála.

En miðað við önnur frv. sem hér er verið að vinna við verð ég að segja að það fjárlagafrv. sem nú er til umræðu minnir mig á bíl sem er handmálaður. Bíll sem er handmálaður getur litið mjög þokkalega út í fjarlægð, sem sagt fjarskafallegur. Og það sló mig strax í upphafi að þetta fjárlagafrv. væri fjarskafallegt en við nánari skoðun sýnist mér að þetta sé ekki nærri því eins traust plagg og þau frumvörp sem við höfum verið að vinna með á undanförnum árum. Ég get ekki að því gert að þetta lítur svona út fyrir mér en það mun að sjálfsögðu koma í ljós, hv. þm. Sverrir Hermannsson, við yfirferð yfir þetta frv. hvort ég fer með rétt eða rangt mál. Það er vita vonlaust að menn geti á einum og hálfum degi farið yfir frv. svo að það teljist sterk yfirferð, ekki síst þegar heilan pakka vantar, sem reyndar barst á borð þingmanna núna í hádeginu. Það vantar heilan pakka til þess að menn geti áttað sig á forsendunum. Það kom fram í fréttum í gær að stóra hluti vantar inn í frv. Það eru um það bil 3 milljarðar sem þessi skattapakki hefur áhrif á fjárlagafrv. vegna ársins 2002. (Gripið fram í.) 2002 stendur hér, hæstv. fjmrh., og, með leyfi forseta, er alveg sjálfsagt að lesa það upp. Á síðustu blaðsíðu er umsögn fjmrn., fjárlagaskrifstofu, vegna ársins 2002, niðurstöðutalan: Nettóáhrif skattalækkana 2002 mínus 3 milljarðar. Það getur vel verið að þetta eigi að vera eitthvað annað, en þetta stendur hér. (Fjmrh.: Komið inn í frv.)

Upphafsorð frv., með leyfi forseta, eru þessi:

,,Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 endurspeglar að mörgu leyti breytta stöðu efnahagsmála. Eftir kröftuga efnahagsuppsveiflu síðustu ár hefur hagkerfið færst nær jafnvægi á nýjan leik.``

Herra forseti. Hvert er það jafnvægi? Er það jafnvægi þegar okkur er kynnt árangurslaust fjárnám á fjórða hundrað talsins hjá fyrirtækjum og einstaklingum? Er það jafnvægi? Hvað er árangurslaust fjárnám? spyr einhver. Árangurslaust fjárnám er þegar kröfuhafar leggja ekki í að láta fara fram nauðungaruppboð vegna þess að þá þurfa þeir að reiða fram 150 þús. kr. og ef þeir gera slíka kröfu eru þeir fjármunir tapaðir, ef ekki eru eignir til staðar fyrir þeim upphæðum.

Þeir sem fylgjast með vita að ástandið hefur verið að versna. Ekki þarf annað en að líta á síður dagblaðanna til að sjá að nauðungaruppboð eru auglýst í hundraðavís.

Bara í Dagblaðinu í dag eru 50 auglýsingar um nauðungaruppboð og ég tel að ástæða sé fyrir því og spyr hæstv. fjmrh. hvort hann ætli að gera eða hafi gert ráðstafanir til þess að fara yfir það sem heitir kennitölubreytingar hjá fyrirtækjum. Svo virðist sem menn geti hafið rekstur hver á fætur öðrum ... (Forseti hringir). Virðulegur forseti. Ég má til með að gera athugasemd. Ég tel að það séu ekki komnar tíu mínútur til ræðu.

(Forseti (HBl): Það þýðir nú ekki að deila við dómarann, hv. þm.)

Ég er hræddur um að það sé einhver vitleysa í þessu, en ég mun halda áfram máli mínu þegar fram líða stundir og ég á þá tíu mínútur eftir til að fylgja þessu eftir, en kennitölubreytingarnar bið ég hæstv. fjmrh. að athuga.