Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:12:19 (81)

2001-10-04 14:12:19# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það var að vísu ekki alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að ég hefði tekið undir það sem hann sagði, að það hallaði á varðandi tekjur ríkissjóðs eftir því við hvað væri miðað. Ég tók ... (Fjmrh.: Það er þannig.) Já, ég tek ekki afstöðu til þess fyrr en ég hef fengið nákvæmar upplýsingar um það og get farið yfir útreikninga þar af leiðandi. Ég sagði að flest benti til þess að munurinn væri innan skekkjumarka og gerði raunverulega ekki upp á milli þess í hvora áttina það væri.

Það er hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að þessar spár, þessi vísindi eru því miður komin svo stutt á leið að ótrúlegar skekkjur virðast koma upp. Hæstv. fjmrh. nefndi einmitt dæmi um hvernig það hefði verið gagnvart árinu 2000 í ræðu sinni í morgun.

Ég hef einmitt sjálfur gert töluverðar athugasemdir við það í fyrri fjárlagaumræðum hversu óáreiðanlegar þessar spár eru. Það hefur því miður komið aftur og aftur í ljós að býsna erfitt er að byggja á þessu. Þess vegna veldur það ákveðnum ótrúverðugleika þegar verið er að rokka með þetta svona fram og til baka og að það skuli ekki liggja fyrir alveg kvitt og klárt hvernig að þessu er staðið. Það verður að segjast alveg eins og er að því miður er framlagningin á forsendum fjárlagafrv. þannig að þær eru ekki jafnljósar og þær hafa verið oft áður. Að vísu hafa fulltrúar úr fjmrn. komið á fund fjárln. og látið okkur hafa töflur sem skýra þetta nokkuð.

Ég verð að segja, herra forseti, að lokum að það væri brýnt ef hæstv. fjmrh. gæti gefið okkur loforð um að framvegis verði forsendurnar miklum mun skýrari þannig að ekki þurfi að koma til slíkra deilna eins og því miður var óhjákvæmilegt í tengslum við framlagningu þessa fjárlagafrv.