Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:14:18 (82)

2001-10-04 14:14:18# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að gera allt sem hægt er til þess að allar upplýsingar liggi skýrt og greinilega fyrir og séu gagnsæjar og öllum aðgengilegar. Út á það gengur nútímastjórnsýsla og starfshættir í Stjórnarráðinu, Alþingi og víðar. Í grunninn er prinsippið að menn eigi að hafa sömu upplýsingarnar til að vinna út frá, þ.e. móta stefnu sína eða taka afstöðu til hlutanna. Við reynum að gera okkar í því efni og ég veit að ekki stendur á þingnefndinni að gera það heldur.

[14:15]

Hins vegar er það svo og það mun hv. þm. væntanlega sjá þegar þetta verður betur rakið í þingnefndinni að ef eitthvað er tapar ríkissjóður 300--400 millj. á því að fara eftir eigin áætlunum en ekki Þjóðhagsstofnunar. Eftir stendur sú ásökun sem hefur ekki verið dregin til baka að ég hafi gert mig sekan um falsanir á tekjutölum ríkissjóðs og þar að auki lögbrot. Ég segi nú: Er þetta ekki of mikið af því góða? Mér sýnist a.m.k. einn þingmaður í salnum sammála því.