Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:15:37 (83)

2001-10-04 14:15:37# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór hér áðan með rangt mál. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni um fjárlögin að það væri ákaflega brýnt að ekki kæmi til frekari hækkunar á rekstrarútgjöldum ríkisins. Ég fór með þá herhvöt að nú þyrftum við helst, ef Alþingi ætlaði virkilega að styðja íslenskt efnahagslíf, að lækka fremur rekstrarkostnað ríkisins en að hækka hann. Ég hef aldrei nokkurn tímann komið með þá herhvöt áður. En hv. þm. minntist þess að ég hefði oft sagt þetta áður. Það eru mikil og mjög alvarleg minnisglöp. Hann getur flett upp í fjárlögunum undanfarin ár, aftur á bak og áfram. Þetta hef ég aldrei sagt fyrr en núna og ég minnist þess ekki heldur að nokkur annar þingmaður hafi sagt þetta. Þannig að minni hans er mjög götótt.

Ég fór með þessa herhvöt núna vegna þess að hjá þjóðfélagi þar sem hagvöxtur er jafnlítill og hjá okkur Íslendingum þá er gríðarleg þörf á að halda niðri rekstrarkostnaði hjá hinu opinbera. Og aldrei meira en núna. Okkur liggur lífið við að ná hagvextinum upp. Þess vegna tók ég svona sterkt til orða, miklu sterkar en ég hef nokkurn tíma gert áður. Ég ætla að vona að þingmaðurinn átti sig á því að þetta var einstakt, enda ekki verið tilefnið til slíks á undanförnum árum.