Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:19:15 (85)

2001-10-04 14:19:15# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að minni hv. þm. er aðeins að skýrast. Það er nefnilega nauðsynlegt að minna á það við fjárlagaumræðuna að útgjöld ríkisins verða til vegna þess sem er samþykkt á Alþingi. Hér á Alþingi stöndum við allan þingtímann og leggjum fram tillögur, flestar frá stjórnarandstöðunni, um að auka þetta, efla annað, fækka, stækka, breikka og betrumbæta. Það er þetta sem veldur útgjöldum ríkisins.

Það væri mjög gott ef hv. þm. færi nú í gegnum það sér og öðrum til gamans og fróðleiks að athuga hvað það er sem stjórnarandstaðan leggur til svona hér um bil á hverju ári af nýjum útgjöldum. Það er hollt að minnast þess núna þegar allir vilja taka undir hið rétta, að nauðsynlegt sé að halda útgjöldum ríkisins niðri. Þetta er alvörumál, mikið alvörumál. Við þurfum að lækka ríkisútgjöldin. Við þurfum helst að fækka ríkisstarfsmönnum. Það er mjög nauðsynlegt.

Ég minnist þess frá efnahagsumræðunni árið 1967 að þá var hinn ágæti rithöfundur, Ásgeir heitinn Jakobsson, í deilum við þáverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Ég man eftir því að hann skrifaði og sagði: ,,Þegar hart er í ári hjá bóndanum þá fjölgar hann ekki þjónustustúlkunum í stássstofunni.`` Best að menn minnist þessa á þessu ári.