Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:23:24 (87)

2001-10-04 14:23:24# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér er að venju lagt fram samkvæmt stjórnarskránni á fyrstu dögum þings og vinnslan með hefðbundnum hætti. Það sem er óvenjulegt við þetta frv. eru náttúrlega þær aðstæður sem það er lagt fram við og einnig mjög góður tekjuafgangur sem annað árið í röð er það verulegur að eftir því er tekið. Þessi gríðarlegi lánsfjárafgangur er einnig mjög athyglisverður sem lýsir fyrst og fremst mjög góðum rekstri ríkisins á undanförnum árum þar sem vextir hafa lækkað og afborganir veittra lána og sala ríkisfyrirtækja skilað miklum árangri.

Það hefur mikið verið dvalið við forsendurnar fyrir þessu fjárlagafrv. Stjórnarandstaðan hefur gert mikið úr því að það sé einhver munur, reyndar óverulegur munur, á tölum Þjóðhagsstofnunar annars vegar og ráðuneytisins hins vegar. Það virðist ekki geta komist inn í höfuðið á stjórnarandstöðunni að lögin skilyrða ekki að farið sé eftir tillögum Þjóðhagsstofnunar, enda væri það mjög úr takti við raunveruleikann að skylda ráðuneyti og ráðherra til að fara að tillögum einhverrar stofnunar úti í bæ, sem út af fyrir sig ber ekki ábyrgð á frv. sem slíku. Það er enginn annar en hæstv. fjmrh. sjálfur sem ber ábyrgð á þessu frv. gagnvart þinginu og er til svara.

Hið nákvæmlega sama gildir hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum um allt land. Sveitarfélögin nýta sínar eigin forsendur og eigin tölur úr bókhaldi sínu og færa hugmyndir um breytingar á komandi ári inn í áætlanir sínar. Þær áætlanir eru síðan lagðar fram og það er að sjálfsögðu meiri hluti sem ber ábyrgð á því og bæjarstjóri eftir atvikum. Þetta er því mjög í takt við það sem annars staðar gerist og ekki á nokkurn hátt óeðlilegt. Hið óeðlilega í málinu er röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar í málinu. Þessi röksemdafærsla er mjög einkennileg og hún í sjálfu sér sýnir ákveðinn veikleika. Það er ekki margt sem hægt er að finna bitastætt fyrir stjórnarandstöðuna að taka á, alla vega finna þeir það ekki. Það lýsir betur stjórnarandstöðunni en þeim tölum sem notaðar eru í frv. sjálfu.

Niðurskurður í frv. er upp á 1,4%, eftir því sem sagt er, sem er út af fyrir sig ekki mikið. Samkvæmt texta var gert ráð fyrir því að flatur niðurskurður á hvert ráðuneyti yrði um 2% en það virðist ekki hafa tekist. Augljóst er að það þarf að fara vel yfir það í fjárln. Hlutur Ríkisspítala og heilbrigðiskerfisins er náttúrlega stór í því dæmi. Ég held að fjárln. sjálf þurfi að fara yfir rekstur þessara stofnana og reyna að átta sig á því hvað valdi endalausum framúrkeyrslum stofnana eins og Ríkisspítalanna, sem eru meiri en menn gerðu ráð fyrir. Á síðasta fjárhagsári var gert ráð fyrir því að búið væri að ná utan um þann kostnað sem félli til vegna sameiningar spítalanna og einnig að þar með ætti rekstur þessara spítala og spítalans sem slíks að hafa náð jafnvægi. En það er ekki neitt sem bendir til þess samkvæmt nýjustu fréttum og munu spítalarnir fara fram úr fjárlögum upp á hundruð milljóna króna. Auðvitað þarf að koma til breytt rekstrarfyrirkomulag að einhverju leyti, bæði með því að auka frjálsræði deilda og hugsanlega með einhverjum öðrum aðgerðum sem menn ná sáttum um.

Samhliða þessu verður að skoða ýmislegt annað sem þarf leiðréttingar við. Það er ljóst að hvað varðar Íbúðalánasjóð þarf breytingar á framlögum sem varða greiðsluerfiðleikalán og ýmislegt annað er kannski ekki alveg í samræmi við raunveruleikann, en ég lít svo á að það séu leiðréttingar sem auðvelt verði að laga.

Þessu frv. fylgja og leiðréttingar eða breytingar á öðrum frv. annarra ráðuneyta, eins og menntmrn. þar sem um er að ræða skráningargjöld fyrir nemendur í framhaldsskóla og Háskóla Íslands. Af hálfu háskólamanna hefur verið litið á það sem árás á nemendur en að sjálfsögðu er ekki um neitt slíkt að ræða. Þessi gjöld hafa ekki hækkað árum saman og það er um óverulega hækkun að ræða sé miðað við útlagðan kostnað af skráningu nemenda. Gert er ráð fyrir að nemendur borgi við innritun þau gjöld er tengjast skráningu þeirra. Ég vildi því aðeins minnast á þetta hér vegna þess að mér finnst að nemendur í háskólanum hafi misskilið málið og haldi að þarna séu á ferðinni skólagjöld í takt við það sem gerist annars staðar, en því fer fjarri.

[14:30]

Eins og margoft hefur verið minnst á, herra forseti, eru þessi fjárlög lögð fram í mjög ótryggu heimsástandi og hryðjuverkin 11. september sl. hafa haft svo gríðarleg áhrif á heimviðskiptin að ekki er séð fyrir endann á því enn þá. Við vitum um ýmsar stærðir samt sem áður eins og að farþegafjöldi í millilandaflugi hefur minnkað um 20--40%, sem er ekki lítið. Það gæti haft sambærileg áhrif á ferðamennsku ef slíkt hefur varanleg áhrif og næði yfir mjög langan tíma. En ég vona svo sannarlega að það verði ekki. Sem betur fer hefur verið gripið inn í efnahagsástandið með eftirminnilegum hætti. Ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta hefur gripið inn í efnahagsástandið í Bandaríkjunum til að lyfta upp markaðnum, þannig að hlutabréf á mörkuðum í Bandaríkjunum hækkuðu mjög verulega í gær.

Það sama gerðist í morgun eftir að ríkisstjórn Íslands ákvað skattalækkanir sínar og var í fréttum að hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands hafa hækkað allt upp undir 20% á þeim fyrirtækjum sem hafa fengið mesta hækkun, en að meðaltali um 7--8% eftir því sem ég frétti um hádegisbilið. Það er því greinilega hægt með ýmsum aðgerðum að koma atvinnulífinu til hjálpar og koma hjólunum á eðlilega ferð aftur.

En auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að samt sem áður er ástandið fram undan óljóst og þær aðgerðir sem á að grípa til til að koma þessum hryðjuverkaöflum á kné geta reynst erfiðar og langvinnar, þannig að einhver óvissa verður fram undan. En eigi að síður var það mjög mikilvægt sem ríkisstjórnin gerði og mikið fagnaðarefni að þær aðgerðir hafi virkað þannig að markaðurinn tók við sér og það er mikil trú á efnahagslífinu samfara því.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða miklu meira um þetta í bili. Vinna fjárln. er eftir. Það er mikið sem liggur fyrir, það er líka mikið sem er fram undan í heimsbúskapnum og í fjármálum okkar sjálfra hér á Íslandi sem getur haft áhrif á þessi fjárlög á næstu vikum og mánuðum, þannig að mörgu verður að hyggja við afgreiðslu fjárlaga í vetur.