Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:35:16 (89)

2001-10-04 14:35:16# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef orð ráðuneytismanna fyrir því að þessi kostnaður sé meiri en sem nemur þessum 25 þús. kr. Hækkun gjalda verði því til þess að mæta þeim umframkostnaði. Ég veit að á síðasta fundi fjárln. var beðið um útskrift á þessu nákvæmlega, en hér er verið að gera ráð fyrir heildardæminu, ekki kostnaði einstakra deilda eða einstakra skóla. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvernig þetta skiptist á milli skóla eða milli deilda innan háskólans, ég veit það ekki. En ég er að segja það sem var sagt í nefndum á vegum embættismanna um hvað liggi á bak við, eins og gert er yfirleitt alls staðar í þessu kerfi og ég hef ekki haft ástæðu til að rengja það.

Ég geri ráð fyrir því að ástæða þess að lögin gera ráð fyrir fastri krónutölu sé einfaldlega sú að ekki náðist samkomulag um annað. Auðvitað ætti þetta að fylgja verðlagsþróun, þannig að ekki yrðu 30% eða 40% hækkanir á margra ára fresti sem valda miklum ágreiningi og leiðindum.

Það eru samt allir eða flestir sammála um það hygg ég að innritunargjöld í íslenska framhalds- og háskóla eru afskaplega hófleg og lág ef við miðum við skóla erlendis og öllum sanngjörnum mönnum finnst náttúrlega eðlilegt að þar sem þetta eru í rauninni málamyndagjöld þá hækki þau í takt við verðlag.