Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:58:25 (97)

2001-10-04 14:58:25# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur kynnt fjárlagafrv. fyrir árið 2002 og forsendur fjárlagagerðarinnar. Það er óvenjuerfitt fyrir okkur þingmenn og þjóðina alla að átta sig á forsendum fjárlagagerðarinnar þar sem þeim upplýsingum sem við fáum, bæði frá hæstv. ráðherra og ríkisstjórn, Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands ber ekki saman. Sérfræðingum okkar ber ekki saman um hver grunnurinn er, hvernig ástandið í þjóðarbúinu er og hverjar forsendurnar kunna að vera.

Hér stendur því margt á brauðfótum varðandi fjárlagagerðina. Sumt liggur hjá okkur sjálfum, þ.e. í afgreiðslu og framsetningu fjárlaga og þjóðhagsspá okkar upp á síðkastið, þar sem við höfum ýmist verið mjög bjartsýn og spilað allt upp, að mörgu leyti hvatt til meiri framkvæmda og bjartsýni en efni stóðu til á þeim tíma. Inn á milli höfum við svo dottið niður í svartsýnisspár. Það er erfitt að finna meðalveginn og vera raunsær þegar þær leiðbeiningar sem við fáum eru svo misvísandi sem raun ber vitni. Þannig hefur þetta verið um nokkurn tíma. Við höfum í raun ekki vitað almennilega hvernig hagkerfi okkar stendur og hvað við megum leyfa okkur.

[15:00]

En hér kemur líka fleira til. Mikið óöryggi hefur verið úti í hinum stóra heimi vegna hinna voveiflegu atburða sem okkur eru öllum kunnugt um og heimurinn er að bregðast við. Við munum gera það líka. Ég vil í þeim töluðu orðum vara við því að við látum hrífast með inn í einhverjar aðgerðir sem við teljum að við verðum að standa að í varúðarskyni, eitthvað sem muni kosta okkur mikla fjármuni, einhverjar aðgerðir sem munu, auk þess að vera dýrar, kosta það að við munum skerða hér persónufrelsi. Við þurfum að vera sjálfstæð í hugsun þegar kemur að því að bregðast við þeim miklu hryðjuverkum sem allur heimurinn er að bregðast við núna. Hryðjuverk hafa verið stunduð um langa tíð og munu verða það áfram. Ég vil að við sýnum varkárni og sjálfstæði varðandi þessi mál.

En snúum okkur aftur að fjárlagafrv. Hagkerfi okkar er lítið og þar af leiðandi veikt. Við látum oft eins og við séum milljónaþjóð og höfum efni á öllu því sem okkur langar til að veita okkur og högum okkur oft á tíðum eins og peningarnir spretti af trjánum og gleymum því oft að við lifum á grunnatvinnuvegum, sem verða þá að hafa forsendur til að geta starfað eðlilega og skilað arði í þjóðarbúið eins og sjávarútvegi, ferðaþjónustu og fleiri greinum. Okkar litla hagkerfi er því ákaflega viðkvæmt fyrir öllum sveiflum. Við erum viðkvæm fyrir því að safna miklum skuldum sem við höfum verið að gera. Og því ber að fagna ef hægt er að greiða niður skuldir ríkisins.

En aðrar skuldir hafa einnig verið að hrannast upp sem ríkið er ekki að greiða niður og það er áhyggjuefni. Þó að það komi ekki inn á ríkissjóð, þá berum við sem þjóð eftir sem áður alltaf öll sameiginlega þessar skuldir, þ.e. skuldasöfnun fyrirtækja erlendis og skuldasöfnun heimilanna. Vil ég þá vitna í orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem talaði hér fyrr í dag og fór yfir þau mál.

Við erum frjáls og fullvalda þjóð en með svo lítið hagkerfi að stundum erum við viðkvæm í því tilliti að halda sjálfstæði okkar og því verðum við að standa saman að því að greiða niður skuldirnar. En það er ekki sama hvernig það er gert. Það er gott að standa að aðhaldi í ríkisrekstri og það er gott að geta lækkað skatta en við verðum þá að hafa efni á því.

Því er haldið fram, og hæstv. fjmrh. nefndi það í ræðu sinni, að innstæður væru fyrir þeim skattalækkunum sem boðaðar eru í frv. Ég er ekki jafnsannfærð og hann um að við höfum efni á þeim núna, ekki miðað við fjárþörf margra þeirra opinberu fyrirtækja sem við viljum og höfum sameinast um að hafa og viljum að þjóni okkur almennilega. Við verðum að muna til hvers við greiðum skatta. Við greiðum skatta til þess að hér sé grunnþjónusta, heilbrigðisþjónusta og löggæsla. Það sé góð samfélagsþjónusta. Þetta er sú þjónusta sem við viljum hafa til staðar og til þess þurfum við fjármagn.

Það er spurning hvort forsenda hafi verið fyrir jafnmikilli gengisfellingu krónunnar og raun varð á um daginn, en þar kemur aftur til þetta sama að í litlu hagkerfi þarf ósköp lítið til til þess að mál fari úr böndunum og gengisfelling krónunnar er þar með.

En það er fleira sem gerir okkur erfiðara um vik við að meta fjárlagafrv. en þessi langi undanfari. Það eru þær breytingar sem ríkisstjórnin boðar á hækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts ásamt fleiri breytingum. Ekki hefur gefist neinn tími til að meta það hvaða áhrif þetta hefur og í raun trúi ég því að hæstv. ríkisstjórn sjái það ekki fyrir sér heldur hvernig þetta muni virka, ekki bara í krónum talið, hvað þetta gefur í krónum og tekjum til ríkissjóðs, heldur hvernig þetta muni svo virka út í samfélagið því það er alveg öruggt að þetta hefur ekki sömu áhrif hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem fyrirtæki hafa mörg hver staðið sterkara heldur en fyrirtæki almennt úti á landi. Hækkun tryggingagjaldsins mun því að öllum líkindum koma þyngra niður úti um land en á höfuðborgarsvæðinu og lækkun tekjuskattsins sömuleiðis skila sér betur til fyrirtækja hér heldur en víða úti um land. Ef við förum frá fyrirtæki til fyrirtækis þá er þetta ekkert einhlítt, en því miður er grunnurinn þessi.

Það ber að fagna því að afnema eigi skatt af húsaleigubótum, en þessi flati niðurskurður samkvæmt 2%-aðhaldsreglunni kemur til með að verða mörgum fyrirtækjum í opinberum rekstri mjög erfiður. Á sama tíma er þeim gert að afla meiri sértekna og það er þegar orðið þeim mörgum erfitt að gera það. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu í seinni ræðu.