Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:08:47 (98)

2001-10-04 15:08:47# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera mismunandi forsendur fjárlaga að umræðuefni, það er víst nóg komið af þeirri umræðu hér í dag. En ég vil ræða það sem ég tel vera mikið áhyggjuefni í þessum fjárlögum og það er niðurskurðurinn á velferðarþjónustunni.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. félmrh. væri í húsinu eða væri hér inni og hlýddi á mál mitt því ég hef spurningar til hans. Hæstv. heilbrrh. þurfti að víkja úr húsi, þannig að spurningar til hans munu berast síðar og hann mun taka hér til máls seinna. En ég vildi gjarnan að hæstv. félmrh. hlýddi á mál mitt.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta athuga hvort félmrh. er í húsinu.)

Ég get svo sem hafið mál mitt á því að ræða um heilbrigðisþjónustuna á meðan hæstv. félmrh. er að koma hingað í salinn.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill upplýsa að hæstv. félmrh. er farinn úr húsinu, en það er verið að gera ráðstafanir til þess að hafa samband við hann og vita hvort hann geti komið.)

Herra forseti. Mér finnst það vera lágmark að fagráðherrar séu viðstaddir umræðuna. Við erum að ræða rammafjárlög þar sem við tökum fyrir hvert ráðuneyti sérstaklega og það er lágmark að ráðherrarnir séu viðstaddir til að svara fyrirspurnum ef einhverjar eru varðandi málaflokkinn.

Herra forseti. Hér hefur verið nokkuð rætt um skólagjöld og auknar álögur á námsfólk. Það sem er kannski enn meira áhyggjuefni eru álögur á sjúklinga. Ef við skoðum það sem segir um heilbrrn. í fjárlagafrv., þ.e. það sem snýr að sjúkrahúsunum, þá er alveg ljóst að bara á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi þar sem tæpir 20 milljarðar fara til rekstrar þess stóra sjúkrahúss, til þess rekstrar koma 2 milljarðar beint úr vasa sjúklinga sem eru sértekjur sjúkrahússins. Til viðbótar koma síðan, einnig úr vasa sjúklinga, 92 millj. sem er hækkun á greiðslum vegna röntgenþjónustu. En eins og menn kannski vita voru gjöld á sjúklinga vegna röntgenþjónustu hækkuð í sumar, þeim var breytt úr föstu gjaldi yfir í hlutafallsgjald, sem er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir sjúklinga.

Ég hefði líka viljað spyrja hæstv. heilbrrh. þegar hann kemur hér og heldur sína ræðu hvort kostnaður sé enginn lengur við sameiningu sjúkrahúsanna vegna þess að upphæðirnar sem áttu að fara í kostnað við sameininguna eru felldar niður, 150 milljónirnar sem gert var ráð fyrir til sameiningarinnar. Þá er einnig gert ráð fyrir að spítalinn hagræði um 181 millj. En ekki hefur nú tekist betur til um hagræðingu frá því í fyrra þar sem honum var gert að spara 400 millj. að það tókst aðeins að spara 100 millj. þar. Þannig að 300 millj. kr. halli er þar eftir frá síðasta ári sem kemur yfir á þetta ár. Þetta er verulegt áhyggjuefni og varla raunhæft að ætlast til að unnt sé að ná þessari hagræðingu.

Síðan ætlaði ég að spyrja hæstv. ráðherra út í biðlistana, en á fjórða þúsund manns biðu nú í september eftir aðgerðum og þar af eru 668 sem bíða eftir bæklunaraðgerðum. Það kom fram á ferð heilbr.- og trn. á heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi í síðustu viku að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri treysti sér til að fækka á þessum listum um 60 bæklunaraðgerðir fyrir aðeins 18 millj. kr., án þess að það hækkaði nokkurn kostnað, þeir treystu sér til þess að fækka á þessum listum. Sama á við um Landspítala -- háskólasjúkrahús. Þeir treysta sér til að fækka um 200 á þessum biðlistum fyrir 60 millj. kr. Ég get ekki séð að sérstakar fjárveitingar séu til þess að koma á þessum aðgerðum. En þetta er mikill sparnaður, því það er ákaflega dýrt að vera með sjúklinga á biðlistum, dýrt fyrir samfélagið og dýrt fyrir einstaklingana.

Mig langar aðeins að koma að málefnum geðsjúkra, en hæstv. forsrh. sýndi nokkurn skilning á stöðu þeirra í stefnuræðu sinni í vikunni. En því miður hefur verið afleitt ástand á geðdeildunum og sérstaklega vil ég nefna geðdeildina í Fossvogi. Erfitt hefur verið að manna deildirnar og rúmum hefur verið fækkað. Og ég ætla að vona að það eigi ekki eftir að henda aftur, en ég veit um slík tilvik frá sl. vetri að alvarlega sjúku fólki sem var í lífshættu var vísað frá geðdeildunum. Það má ekki henda. Ég ætla að vona að breyting verði þar á, a.m.k. lofa orð forsrh. góðu hvað varðar þennan málaflokk og ég vona að staðið verði við það.

[15:15]

Aftur á móti er stórvandi á Landspítalanum, þ.e. útskriftarvandinn. Það eru á annað hundrað manns inni á sjúkrahúsunum sem ekki ættu að vera þar, heldur á hjúkrunarheimilum og það er ekki tekið á þeim þætti. Sóltúnið kemur til notkunar núna í vetur. Þangað fara rúmlega 90 manns og síðan í Sunnuhlíð 15 manns. En það bíða enn á þriðja hundrað manns í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými. Ef menn ætla spítalanum að spara þá verða þeir að gera honum kleift að útskrifa þessa hjúkrunarsjúklinga yfir á hjúkrunarheimilin.

Er von á hæstv. félmrh., forseti?

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að félmrh. hefur fengið boð um að nærveru hans sé óskað.)

Vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurðist hér fyrir um lífeyrisþegana og hvort hæstv. ráðherra teldi að hækkanir sem þeir ættu rétt á samkvæmt lögum væru að skila sér til þeirra, langar mig að geta þess að lífeyrisþeginn, hvort sem það er öryrki eða aldraður, sem fær strípaðar bætur, fær rúmar 80 þús. kr. á mánuði og hann greiðir heil mánaðarlaun í skatt til baka á ári. Þess vegna þarf að svara spurningu hér: Hverju mun þessi skattapakki ríkisstjórnarinnar skila þessum hópi? Hverju mun skattapakki ríkisstjórnarinnar skila lífeyrisþegum og öryrkjum sem greiða jafngildi heils mánaðar í skatt á ári?

Það væri líka fróðlegt að fara aðeins ofan í þessa 7% hækkun. Ég veit ekki betur en að laun hafi hækkað um 8,5% en lífeyrisgreiðslurnar eiga aðeins að hækka um 7%. Þess má líka geta að verðlag á árinu hefur hækkað tvöfalt miðað við bótagreiðslur. Það væri líka fróðlegt að vita hvort ríkisstjórnin ætlar að koma til móts við kröfur aldraðra sem hafa farið fram á að þeir greiði fjármagnstekjuskatt af lífeyrisgreiðslum en ekki tekjuskatt, því að auðvitað er þetta sparnaður lífeyrisþega sem er þarna að koma til greiðslu úr lífeyrissjóðunum og þeir hafa barist fyrir því að þurfa ekki að borga venjulegan tekjuskatt heldur 10% fjármagnstekjuskatt af lífeyrisgreiðslum sínum. Um þetta væri fróðlegt að fá upplýsingar frá ríkisstjórninni áður en umræðunni lýkur.

Ég var hér með ýmsar spurningar til hæstv. félmrh. Hann er ekki kominn hingað til að svara en ég vonast til þess að hann láti sjá sig. Tími minn er senn á þrotum. Ég verð þó að segja að málaflokkur fatlaðra í fjárlagafrv. er algjör hneisa. Þær fjárveitingar sem á að setja í þann málaflokk bjóða ekki upp á annað en óbreytt ástand.

Þegar talað var um að færa ætti málefni fatlaðra til sveitarfélaganna var því lofað að biðlistum yrði eytt, að fjárveitingar kæmu til þess að þeim yrði eytt á næstu þremur árum. En nú kemur ekki neitt. Þegar málaflokkurinn er áfram hjá ríkinu á fólk bara að bíða áfram. Þetta er ekki boðlegt og ég trúi ekki öðru en hæstv. félmrh. eigi eftir að taka aðeins til í sínum ranni því að hér ríkir algjört ófremdarástand.

Það eru 200 fatlaðir sem bíða eftir búsetu. Ekkert kemur fram til að bæta ástandið. Foreldrum fatlaðra barna í Reykjavík hefur verið lofað úrbótum í skammtímavistun. Það á að svíkja ef farið verður að frv. Þar er líka langur listi. Þetta eru foreldrar sem eru með mikið fötluð börn heima og eru að sligast. Eins og við vitum þá miðst velferðarkerfi okkar við það að fólk geti haft börnin sín heima hjá sér sem lengst. Við skulum ekki gleyma því að þjónusta við fötluð börn er líka þjónusta við fjölskyldur þeirra. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég verð að ljúka máli mínu. Mér þykir afleitt í umræðu um þennan málaflokk að ráðherrarnir skuli ekki vera viðstaddir til að svara spurningum. Ég tel að margt sé órætt, sérstaklega í félagsmálageiranum í þessu fjárlagafrv.