Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:21:37 (99)

2001-10-04 15:21:37# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í þessari umræðu hafa þingmenn gjarnan hafið máls á því að forsendur frv. séu veikar og umdeilanlegar. Ætla ég ekki að fjölyrða um þau mál heldur einungis minna á að orð hæstv. fjmrh. og fleiri ráðherra úr ríkisstjórninni í garð Þjóðhagsstofnunar upp á síðkastið sýna nú glögglega að Þjóðhagsstofnun hefur átt undir högg að sækja hvað varðar afstöðu ríkisstjórnarinnar til hennar. Mér sýnist orðið algerlega einsýnt að tillaga Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að losa Þjóðhagsstofnun undan hæl þessarar ríkisstjórnar sé mjög tímabær. Það er algerlega tímabært að Alþingi eignist sjálfstæða stofnun á borð við Þjóðhagsstofnun sem almennir þingmenn geti leitað til þannig að þeir hafi aðstæður og möguleika á því að nýta krafta og kunnáttu þess fólks sem starfar á Þjóðhagsstofnun því að greinilegt er að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert við það fólk að gera, kunnáttu þess eða sérfræðiþekkingu.

Fjárlagafrv. er að mörgu leyti flókin lesning og það er ekki einfalt fyrir þingmenn að takast á við að gera grein fyrir öllu því sem athugasemda er þörf við á svo skömmum tíma sem hér er til umráða og svo skömmum tíma eftir að frv. hefur verið lagt fram. En margt hefur komið í ljós í umræðunni og það sem er alvarlegast að mati þeirrar sem hér stendur er að nú liggur á borðinu og er skráð svart á hvítu í þá pappíra sem við höfum hér til meðferðar að góðærið var framkallað og búið til með skuldasöfnun og þá fyrst og fremst skuldasöfnun heimilanna.

Það er geigvænleg staðreynd að skuldir heimilanna skuli nú standa í yfir þúsund milljörðum króna. Skuldir heimilanna eru hærri nú en nokkru sinni áður. Í kaflanum um stefnu og horfur í frv., þessu fylgiriti hér með fjárlögunum, er viðurkenning ríkisstjórnarinnar á þessu, að hún hafi nánast logið góðærinu upp á heimilin í landinu því þar segir, með leyfi forseta:

,,Mikill hagvöxtur ár eftir ár, meðal annars í kjölfar stóraukins kaupmáttar heimilanna, aukið frelsi á fjármagnsmarkaði og ör vöxtur nýrra atvinnugreina á sama tíma og verðbólga var tiltölulega lítil, varð án efa til þess að skapa miklar væntingar sem aftur kyntu undir fjárfestingar- og neysluáformum`` --- eins og það er orðað, herra forseti --- ,,bæði heimila og fyrirtækja, sem ekki var í öllum tilvikum efnahagsleg innstæða fyrir og var í mörgum tilvikum beinlínis fjármögnuð með lánum. Þetta leiddi óhjákvæmilega til þess að viðskiptahallinn jókst umtalsvert.``

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur með þessum orðum lýst því yfir að það sé heimilunum að kenna hversu mikið viðskiptahallinn jókst. En hvar sitja heimilin nú eftir neysluhvatningar ríkisstjórnarinnar undanfarin ár? Heimilin sitja í óviðráðanlegri skuldasúpu og það er skelfilegt til þess að vita að einu úrræði ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrv. skuli vera þau að lækka skatta á fyrirtæki sem skila umtalsverðum arði.

Úr því að ég nefni skattalækkanirnar, herra forseti, þá er ekki úr vegi að vekja athygli fólks á því að með hækkun tryggingagjaldsins sem kemur á móti skattalækununum, er verið að fjármagna skattalækkanirnar með álögum á atvinnurekendur og einyrkja. Ég vil gera einyrkjana sérstaklega að umtalsefni, herra forseti, því ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og stærri fyrirtæki á markaðnum hafa beinlínis hvatt til þess að fólk hætti að vera launþegar og gerist verktakar. Þetta er umræða sem hefur verið í gangi undanfarin ár, herra forseti, og það er sannarlega þess virði að henni sé gefinn gaumur núna því fjöldi manns sem starfar sjálfstætt í sínum atvinnugreinum hefur látið undan ákveðnum þrýstingi sem hefur verið í kerfinu á að hætta að líta á sig sem launþega og eru nú orðnir í mjög ríkum mæli einyrkjar, sjálfstætt starfandi í sínum greinum. Þetta á t.d. við um listamenn. Þetta á við um vísindamenn, ýmsa iðnaðarmenn og ótal fleiri. Þetta fólk á nú að þurfa að bera núll komma sjötíu og eitthvað prósent hækkun á tryggingagjaldinu, sem á eftir að verða þessu fólki verulega þungur baggi í einföldum atvinnurekstri sínum og á eftir að verða heimilum þeirra þungur baggi. Heimilin í landinu eiga því enn og aftur, herra forseti, að blæða.

Það er heldur ekki forsvaranlegt að auknar álögur skuli boðaðar í þessu frv. á stúdenta og námsmenn, bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi, því menn skulu ekki horfa fram hjá því að í frv. koma líka fram vísbendingar um að álögur verði auknar á nemendur í framhaldsskólum.

Síðan eru það málefni sjúklinga því það er alveg ljóst að hér stefnir í auknar álögur á fólk sem þarf að leita sér lækninga og leita sér aðstoðar heilbrigðiskerfisins. Og það er þetta fólk, venjulegt fólk, almenningur í landinu sem hefur ekkert sér til sakar unnið annað en að reyna að brauðfæða sig og fjölskyldu sína, sem á að fjármagna skattalækkanir á stóru gróðafyrirtækin. Hv. 1. þm. Suðurl. sagði áðan í ræðustóli að ekkert ljótt væri við það að græða. (DrH: Og stend við það.) Herra forseti. Við verðum að skoða þessa hluti í breiðu samhengi og athuga hvaðan við erum að taka peningana, hver sé að bera hinar raunverulegu byrðar í samfélaginu. Það er ekki eignafólkið, herra forseti. Það er almenningur.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu þá er erfitt að komast yfir allt sem mann langar að nefna á þeim skamma tíma sem hér er til ráðstöfunar. En ég get ekki látið hjá líða að koma örfáum orðum að umhverfismálunum. Það væri nú betra ef hæstv. umhvrh. væri hér í salnum, en eins og komið hefur fram í umræðunni þá eru ráðherrarnir kannski í önnum og hafa ekki allir tækifæri til að sitja hér. En það er nauðsynlegt að gera athugasemd við það strax í þessari umræðu, herra forseti, að ákveðnir þættir í umhverfismálunum eru þannig vaxnir að gera þarf athugasemdir við þá.

Í fyrsta lagi, herra forseti, vil ég nefna að ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að leggja niður Náttúruverndarráð. Þetta er undarlegt, herra forseti. Til eru lög í landinu sem heita Lög um náttúruvernd. Þau kveða á um að í landinu skuli samkvæmt þessum lögum starfa Náttúruverndarráð. Enn hefur ekki verið lagt fram frv. um að Náttúruverndarráð verði lagt niður. Enn liggur engin slík samþykkt fyrir. Og það er undarlegt að þessar 8 millj. sem var þó búið að hysja fjárframlög til Náttúruverndarráðs upp í skuli nú bara eiga að falla niður og ákall náttúruverndargeirans, vísindamanna, náttúruverndarnefnda og annarra sem starfa innan þess geira, til samfélagsins er þar með hljóðnað. Það á ekki lengur að leggja fé af fjárlögum íslenska ríkisins í hlutverk þess.

Svo er það önnur athugasemd varðandi umhverfismálin. --- Nú kemur hæstv. umhvrh. í salinn og því er þess virði að spyrja hæstv. umhvrh. um rökstuðning varðandi niðurfellingu þessara 8 millj. kr. sem ætlaðar hafa verið til starfsemi Náttúruverndarráðs, en greinilegt er að leggja á ráðið niður.

Annað sem mig langar til að spyrja hæstv. umhvrh. um lýtur að Vatnajökulsþjóðgarði. Nú er það vitað og hæstv. umhvrh. kom að því í ræðu sinni þegar stefnuræða hæstv. forsrh. var til umræðu, þá gat hæstv. umhvrh. um það að Vatnajökulsþjóðgarður yrði stofnaður á næstunni. Eftir því sem ég best veit og þingsályktunartillagan á sínum tíma gerði ráð fyrir, þá á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á næsta ári. Ekki er sýnilegt í fjárlagafrv., herra forseti, að setja eigi nokkurt fé í þá stofnun. Það er harla undarlegt þar sem við vitum að 10 milljónir voru áætlaðar af fjárlögum þessa árs í að stofna Snæfellsnessþjóðgarð, sem gert var með myndarbrag í sumar er leið. En nú spyr maður: Hvað með Vatnajökulsþjóðgarð? Er verið að fresta þeim áformum eða á ekki að kosta neitt að stofna hann?

Það má kannski hrósa hæstv. umhvrh. fyrir það að verið er að rétta (Forseti hringir.) að ákveðnu marki hlut náttúruverndar sem snýr að náttúruverndaráætlunin, bæði hvað varðar Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Því ber að fagna sem vel er gert. Ef ég hefði lengri tíma væri hægt að fagna fleiru en líka hægt að gagnrýna fleira í fjárlagafrv.