Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:32:10 (100)

2001-10-04 15:32:10# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kom fram að ekki væri búið að flytja frv. vegna niðurlagningar Náttúruverndarráðs. Það er rétt. En það er stefnt að því að leggja ráðið niður og verður væntanlega flutt frv. um það hér í þinginu. Þá falla niður þær 8 millj. kr. sem til ráðstöfunar voru til Náttúruverndarráðs. Á sínum tíma kom tillaga, m.a. frá forstjóra Náttúruverndar ríkisins, um að skoða bæri hvort leggja ætti ráðið niður vegna þess að lög hafa breyst mikið og frjáls félagasamtök eflst þannig að ráðið gegnir í dag ekki sama hlutverki og áður fyrr. Ég tel því mun skynsamlegra að leggja ráðið niður en að hafa það áfram starfandi í þeim farvegi sem það er nú.

Varðandi Vatnajökulsþjóðgarðinn þá færast þær 10 millj. kr. veittar voru til að undirbúa þjóðgarðinn Snæfellsjökul yfir á Náttúruvernd ríkisins, þannig að það er millifærsla í fjárlögunum hvað það varðar. Á bls. 451 í fjárlagafrv. er liður sem heitir Þjóðgarður, undirbúningur, upp á 2,8 millj. og meiningin er að það fjármagn nýtist í sambandi við Vatnajökulsþjóðgarð.

Að vísu verður að segjast eins og er, að það er stefna okkar að stofna þjóðgarðinn á næsta ári. Þjóðlendufrumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að óbyggðanefnd skeri úr um eignarhald, t.d. á jöklinum. Mér skilst að nú þegar hafi einhverjir bændur gert tilkall til hlutdeildar í jöklinum þannig að vera má að við þurfum að skoða það mál betur áður en við tökum einhverjar ákvarðanir.