Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:41:38 (105)

2001-10-04 15:41:38# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvernig hefur kaupmáttaraukningin skipst á milli heimila? Hvað með bilið á milli ríkra og fátækra í þessu samfélagi? Kaupmáttur fátækra hefur ekki aukist. Fátækir verða fátækari á Íslandi og ríkir verða ríkari. Það að búa til prósentutölu sem gefur til kynna aukinn kaupmátt segir ekki sannleikann.

Sannleikurinn er auðvitað sá að bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað vegna hvatningar frá þessari ríkisstjórn í þá veru. Og hver hefur hvatt til þess að fólk eyði og spenni? Ríkisstjórnin hefur hvatt til þess. Ríkisbankarnir hafa árum saman boðið lán í heilsíðuauglýsingum. Undanfarin tvö til þrjú ár hafa einstaklingum verið boðin alls kyns lán til að fjármagna neyslu sína, af því að góðærið sé svo gott og kaupmátturinn svo mikill. Auðvitað hefur fólk látið blekkjast. En það er vegna hvatningar frá ríkisstjórninni sem hefur klifað á þessu með góðærið.

Herra forseti. Einyrkjar í landinu framfleyta fjölskyldum. Þeir koma til með að eiga erfiðara með að gera það þegar tryggingagjaldið hækkar. Þess vegna bitnar hækkun tryggingagjaldsins á heimilum í landinu.

Ég ætla líka að minna hv. þm. á það, herra forseti, að skuldugir einstaklingar borga ekki eignarskatt.