Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:45:00 (107)

2001-10-04 15:45:00# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega hundalógík. Það er enginn að tala um að ríkisstjórnin eigi að stjórna beinum útgjöldum heimilanna eða stjórna því hvort einstaklingar kaupa sér bíl eða sófasett. Það er útúrsnúningur, herra forseti, og ekkert annað.

Hv. þm. segir að lækkun tekjuskattsins sé t.d. eitt sem ríkisstjórnin sé að gera fyrir heimilin í landinu en það er eitthvað sem kom fram í gegnum kjarasamninga en ekki að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að það eru verk ríkisstjórnarinnar að hækka innritunargjöld í skóla. Það eru verk ríkisstjórnarinnar að hækka þjónustugjöld á sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Það eru verk ríkisstjórnarinnar sem kalla á aukna verðbólgu. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar sem bitna á heimilunum í landinu og hafa orðið þess valdandi að skuldir heimilanna eru núna hærri en nokkru sinni áður. Og, herra forseti, já, ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar.