Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:10:08 (122)

2001-10-04 16:10:08# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. raunar staðfesta það sem ég sagði að þetta væri raunverulega refsiaðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna flutningsins.

Ég lofaði því áðan, herra forseti, að lesa örlítið fyrir hv. þm. og hljóðar þetta svo í Morgunblaðinu þann 27. sept. sl., með leyfi forseta:

,,Afkoma ríkissjóðs hefur batnað mikið á undanförnum árum en á sama tíma hefur hið opinbera jafnframt verið að teygja sig æ dýpra ofan í vasa skattgreiðenda.

... hið opinbera hefur verið að taka til sín stöðugt stærri skerf af þjóðarkökunni. ...

Heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru 35,8% árið 1990, 36,2% árið 1995 en hafa vaxið hratt síðan og voru komnar í 42% í fyrra. Þetta er aukning um 17,3% á einum áratug og 3,7% hærra en meðaltalið fyrir OECD-ríkin. ...

Árið 1990 skilaði tekjuskattur á einstaklinga 20,5% af heildarskatttekjum hins opinbera en í fyrra var þetta hlutfall komið í 21,9% ...

... Persónuafslátturinn hefur ekki fylgt vísitölubreytingum, afslátturinn var 23.376 kr. 1991 en var 24.211 kr. að meðaltali í fyrra. Hefði persónuafslátturinn fylgt vísitölunni væri hann nú 29.913 kr.`` --- Sér eru nú hverjar skattalækkanirnar.