Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:12:50 (124)

2001-10-04 16:12:50# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um fjárlagafrv. fyrir 2002 og ég vil segja það í byrjun að þó að þetta sé fyrir margra hluta sakir hið merkilegasta plagg, þá er það merkilegasta í því í raun og veru það sem ekki er sagt vegna þess að undirtónninn í frv. er svo gríðarlegur að það kallar á hliðarráðstafanir, ef vel ætti að vera, það sem sett er fram í þessu plaggi, fjárlagafrv. Hér er gefinn tónninn um að langmesti hlutinn af þeim rúmum 18 milljörðum sem eru afgangur af þessum fjárlögum, langmesti hlutinn af þeim peningum er fenginn með sölu ríkiseigna. Eru menn virkilega svo blindir í þessu landi að þeir geri sér ekki grein fyrir því hér í þingsölum að það að framkalla kerfisbreytingar á einu samfélagi sem byggja á sölu Landssímans, sölu Landsbankans, sölu Búnaðarbankans, einkavæðingu af ýmsu tagi og e.t.v. einkavæðingu í orkugeira, muni ekki hafa gríðarlegar afleiðingar? Þetta vitum við öll.

Í fjárlagafrv. eru nánast engar tillögur um mótaðgerðir, mótvægi við því sem allir vita að framkallast af þessum ákvörðunum. Það eru gríðarlegar ákvarðanir sem hér er verið að taka. Miðað við einkavæðingu eða hlutafélagavæðingu ríkiseigna má gera ráð fyrir því að allar þessar stofnanir muni draga úr starfsemi úti á landi. Ég fullyrði það að alls staðar annars staðar í löndum sem við berum okkur saman við væri á grunni ákvarðanatöku af þessu tagi sett fram plagg og áætlun sem væri byggð á mótvægisaðgerðum við afleiðingar af því sem hér er verið að gera. Það er ekkert af því tagi hér inni, ekki neitt.

[16:15]

Ofan í kaupið liggur fyrir að áfram verður haldið með óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi. Möguleikar á stækkun fyrirtækjanna eru auknir. Við vitum að sú ákvörðun leiðir til stækkunar fyrirtækja og samþjöppunar og þar af leiðandi erfiðleika um landsbyggðina alla. Einu mótvægisaðgerðirnar sem ég sé í þessu frv. eru 139 millj. kr. til styrkingar á dreifikerfi í strjálbýli, sem er allt of lág fjárhæð. Fyrirtækið Rarik hefur bent á að það þyrfti að vera 400--700 millj. kr. á ári ef vel ætti að vera. Engar aðrar ráðstafanir eru gerðar. Þvert á móti eru út um allt í frv. tillögur og ákvarðanir sem gera það að verkum að þjónusta opinberra fyrirtækja úti á landi minnkar. Þess í stað ætti að gera hliðarráðstafanir, vilji menn á annað borð selja ríkiseignir og að draga saman þjónustu, sem ég er náttúrlega innilega á móti. Ég berst hatrammlega á móti því en það virðist vera staðreynd en þá eiga menn auðvitað að gera jafnframt áætlun um mótaðgerðir gagnvart þessu. Það bólar ekkert á þeim, ekki neitt.

Ég get bara drepið niður í minni heimabyggð. Þar er áætlaður sparnaður á Akureyri við að leggja niður morgunútsendingar frá 1. okt. Þar er fyrst og fremst um að ræða launakostnað tveggja manna, sem má ætla að sé um það bil 1,5 millj. kr. fram til áramóta.

Víða í hinum opinbera rekstri er verið að skerða þjónustu ríkisins úti á landi, ofan á það sem hér er gert ráð fyrir. Hvað halda menn að gerist í bankakerfinu? Hvað halda menn að gerist varðandi þjónustu Símans o.s.frv.? Auðvitað leiða breytingarnar til fækkunar starfa. Það er ekki hægt að sjá annað út úr þessu. Ég vara menn við að loka augunum fyrir afleiðingum gjörða sinna.

Breytingar af því tagi sem hér eru boðaðar, varðandi sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu, hafa átt sér stað víða um Evrópu. En á sama tíma og menn hafa séð fram á eða tekið ákvörðun um slíkar kerfisbreytingar þá hefur í öllum tilfellum, jafnvel í Mið-Evrópu, t.d. Bæjaralandi, verið gerðar áætlanir um að endurreisa atvinnulífið á öðrum grunni en verið hafði, t.d. í námagreftri --- ekki eftir á þegar skaðinn er skeður heldur áður. Slíkar áætlanir þarf að gera áður en starfemi sem hefur verið grundvöllur samfélags um árabil er einkavædd eða lögð niður. Það er forkastanlegt að menn skuli viðhafa slík vinnubrögð árið 2002 við stórar ákvarðanir af þessu tagi, að menn eigi bara að fá þetta framan í sig eins og sand. Nú er nóg komið. Í byggðum eins og í Hrísey eru teknar ákvarðanir, nánast frá degi til dags, um hvort leggja eigi niður störf í þessu litla byggðarlagi. Menn þurfa nánast að flýja byggð sína eins og undan stríðsrekstri. Það er þá kannski verr sett en fólk sem lendir í stríðsrekstri því að það fer með skuldir á herðunum til nýrra svæða. Þetta er ekki boðlegt. Þessi áform eru ekki boðleg nema við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera.

Af hverju er ekki farið út í markvissar mótvægisaðgerðir ef menn eru svo sannfærðir um að það þurfi að einkavæða öll þessi fyrirtæki? Ég er á móti því. En af hverju er ekkert gert? Af hverju er fólkinu ekki sagt það hreint út: Við ætlum að hætta öllu. Farið bara. Það jafngildir því mjög víða. Fólk er farið að finna smjörþefinn af þessu fyrst núna á seinustu tveimur árum, þar sem störf hafa verið lögð niður til að hagræða og spara eins og það er kallað víða um land. Þetta gerist í öllu bankakerfinu. Þetta gerist hjá póstinum. Víðar og víðar er dregið úr þjónustu. Við vitum nákvæmlega hvað þessi einkavæðing þýðir. Þessir 18,6 milljarðar --- sennilega eru 3 af þeim reyndar raunverulegur afgangur af rekstri ríkisins --- eru ákaflega dýru verði keyptir. Við skulum gera okkur grein fyrir því.

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að þeir sem leggja slíkar tillögur fram, hæstv. ríkisstjórn og hennar ráðherrar, upplýsi okkur um afleiðingarnar sem þeir telja að þessi ákvörðunartaka hafi og hvað þeir hafi hugsað sér að gera til mótvægis.

Það er líkt og þeir sem ráða ferðinni nú geri engan greinarmun á því að stjórna fyrirtæki og stjórna samfélagi. Þegar menn stjórna fyrirtæki þá geta þeir hagað sér eins og þeir vilja og menn verða að éta það sem úti frýs ef sjoppan gengur ekki. En ef við stjórnum samfélagi gilda allt önnur lögmál. Ég frábið mér að menn tali hér og hagi sér eins og stjórnendur fyrirtækis þegar það liggur á borðinu að hlutskipti okkar er að stjórna samfélagi. Stórar ákvarðanir eins og þessar kalla á svörin sem ég hef óskað eftir eftir. Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi þingheim um það til hvaða hliðarráðstafana menn muni grípa vegna þeirra breytinga sem hæstv. ráðherra telur nauðsynlegar og hvenær slíkar aðgerðir fari í gang. Eða eiga menn bara að láta það yfir sig ganga að allt sé selt undan þeim og fólk verði í stórum stíl nánast að flýja heimili sín um land allt?