Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:22:11 (125)

2001-10-04 16:22:11# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Inn í þá umræðu koma að sjálfsögðu þær skattalækkanir sem hafa verið boðaðar. Ég hef hlýtt á umræðuna í morgun og þótti með ólíkindum að heyra, sérstaklega frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, af því dómadagssvartnætti sem þar kom fram. Það var eins og allt væri að farast. Ég leit út um gluggann og þar var ekki stórhríð eða rigning eins og ég átti von á eftir að hafa hlýtt á ræðuna. Það var bara ágætisveður.

Munurinn á spá Þjóðhagsstofnunar, sem hv. þm. og fleiri hafa gert athugasemd við, er að sjálfsögðu sá að ríkisstjórnin vissi af fyrirhuguðum skattalækkunum og þeim áhrifum sem þær kynnu að hafa á spárnar. Óneitanlega hafa svo veigamiklar og stórfelldar skattalækkanir mikil áhrif.

Það liggur fyrir að fjárlagafrv. er alltaf spá. Það er spá um alls konar atriði fyrir næsta ár og það er markmið, trúi ég, hvers fjmrh. að ríkisreikningur, þegar upp er staðið, sé sem næst spánni. Það er metnaður hans þannig að ég reikna með því að fjmrn. vandi sig mjög þegar kemur að forsendum og gerð þessarar spár. Auðvitað geta komið upp óvænt atvik, t.d. öryrkjadómurinn og annað slíkt, sem raska þessari spá en burt séð frá slíku á spáin að standast. Það hlýtur að vera metnaður þeirra sem semja fjárlagafrv.

Herra forseti. Við erum að fjalla um fjárlagafrv. í ljósi þessara skattalækkana. Þær hafa þegar haft mikil áhrif. Verðbréfavísitalan, úrvalsvísitalan hækkaði í morgun, strax við opnun, um 6--7% og hefur haldist þannig í dag. Mörg fyrirtæki hafa hækkað töluvert meira. Landsbankinn hefur hækkað um 11% og það segir sig sjálft að slík skattalækkun á að þýða hækkun á gengi. Þegar hluthafar sjá að þeir halda eftir af hverjum 100 kr., sem fyrirtæki hefur í hagnað, 82 kr. í staðinn fyrir 70 þá hlýtur það að hafa í för með sér aukinn tekjustraum. Þar sem verðmat fyrirtækja fer alfarið eftir tekjustraumi sem hluthafinn sér þá á gengið að hækka að öðru jöfnu um 17% við þessa breytingu eina sér.

Þá gerist dálítið merkilegt, herra forseti. Ríkissjóður er að selja þrjú stór fyrirtæki. Landssímann, upp á 41 milljarð; Landsbankann, þar sem ríkissjóður á enn þá 14 milljarða, og Búnaðarbankann, þar sem ríkissjóður á enn þá 13 milljarða að verðmæti, og það var fyrir hækkunina í morgun. Ef þessi fyrirtæki sem eru samtals 68 milljarðar að verðmæti hækka um 17%, eins og þau ættu að gera og munu væntanlega gera að öðru óbreyttu, þá fær ríkissjóður 12 milljarða í tekjuauka á næsta ári, 12 milljarða. Allur pakkinn sem við erum að tala um kostar 7 milljarða að frádregnum 3,5 milljörðum sem gert er ráð fyrir að skattbreytingin skili í formi aukningar á veltu í þjóðfélaginu. Þannig erum við að tala um að ríkissjóður sé að fórna 3,5 milljörðum en fái 12 milljarða í staðinn. Það eru ekki léleg býtti.

Þá kemur að því að hugleiða: Hvað gerist ef við færum skattinn niður í 0%? Við skulum bara leyfa okkur að leika okkur að því. Þá gerðist það að gengið ætti að hækka um 43%. Þessi þrjú fyrirtæki hækka um 29 milljarða. Á móti verður ríkissjóður að fórna tekjuskatti upp á 6,8 milljarða á ári þannig að hann mundi græða 22 milljarða á því að fara með skattinn niður í 0%. Þetta er dálítið merkilegt. Auðvitað mætti ekki gera það enda geri ég ráð fyrir að Evrópusambandið mundi rísa upp á afturlappirnar. (Gripið fram í: Hvað mundi það selja þau oft?) Þetta dugar í þrjú og hálft ár.

Herra forseti. Ég vil endilega hafa frið til að halda ræðu mína. Ég vil ekki standa í viðræðum við hv. þm. þó að þeir séu æstir yfir þessum upplýsingum. Ég get vel skilið að menn eigi erfitt með að ímynda sér að það borgi sig að fara með skattinn niður í 0%. En það gæti gerst. Ég vil endilega að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar skoði þann möguleika að létta skattbyrði eins og hægt er, í samræmi við alþjóðasamninga. Ef við segjum að þeir færu niður í 5% tekjuskatt á fyrirtæki þá fengjum við hingað fullt af erlendum stórfyrirtækjum, sem væri aldeilis búbót.

Herra forseti. Er gott að hlutabréf hækki í verði? Sumir segja að það séu bara ljótir karlar sem eigi hlutabréf. Sumir hafa meira að segja þá lífssýn að almennt sé það ljótt fólk sem eigi hlutabréf og taki þátt í atvinnulífinu. En svo er ekki. Þegar hlutabréf hækka þá er auðveldara fyrir nýsköpun að fá fjármagn, áhættufjármagn, það auðveldar nýsköpun á Vestfjörðum, á Norðurlandi eystra og víðar um land, Norðurlandi vestra líka. Það er auðveldara að fá fjármagn til nýsköpunar þegar hlutafé er verðmætt og mikil eftirspurn eftir því. Þetta væri miklu betri leið, að lækka skatta á fyrirtæki, til að fá fjármagn til nýsköpunar heldur en það sem menn hafa trú á, að búa til einhverja opinbera nýsköpunarsjóði þar sem opinberir starfsmenn hittast einu sinni í mánuði og ákveða að veita fjármagn til nýsköpunar. Það er steindautt kerfi. Það er mikið skynsamlegra að leyfa markaðinum að vinna rétt.

Herra forseti. Svo er líka lagt til að hækka tryggingagjald. Sumir hafa gagnrýnt það. Hvað þýðir hækkun á tryggingagjaldið? Það er skattur á laun. Við búum við þau mótsagnakenndu einkenni núna að hér er mjög mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Á landinu starfa fleiri þúsund erlendir verkamenn og iðnaðarmenn og það vantar fólk. Þá er mjög skynsamlegt að gera vinnuna dýrari og þvinga fyrirtækin til þess að spara vinnu með hagræðingu og ná þannig fram meiri hagnaði. Þessi aðgerð er því ekki út úr korti eins og kann að virðast í fyrstu. Þegar menn tala um það að fyrirtæki úti á landi skili ekki hagnaði þá þykir mér leitt að heyra að menn hafi ekki meiri trú á landsbyggðinni en þetta. Auðvitað skila fyrirtæki úti á landi hagnaði eins og önnur fyrirtæki. Þau eiga a.m.k. að gera það, herra forseti. Ég vil að öll fyrirtæki á landinu skili hagnaði og borgi há laun.

Það er fleira í pípunum. Það á að lækka stimpilgjald. Því miður lækkar það ekki eins mikið og ég hefði viljað. Mér sýnist að það sé mjög almennur vilji til þess á meðal hv. þm. að fella niður stimpilgjaldið. Ég vil gjarnan að nefndin skoði hvort nú sé ekki lag til þess að taka á honum stóra sínum varðandi stimpilgjaldið. Fyrir þessu öllu er innstæða vegna þess að ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum afgangi, sem stafar af mikilli hækkun launa.

Svo á að lækka eignarskatta. Því miður eru þeir ekki lækkaðir alveg niður í 0%, en eignarskattar eru refsing fyrir sparnað og ráðdeildarsemi. Það fólk sem stundar sparnað og ráðdeildarsemi, eyðir ekki í jeppa og utanlandsferðir af tekjum sínum, safnar oft og tíðum eignum, þó að launin séu lág, herra forseti. Oft er þetta lágtekjufólk. Því er refsað með eignarsköttunum, eins og einn örorkulífeyrisþegi kvartaði undan fyrir einu eða tveimur árum. Hann hafði lagt fyrir af örorkulífeyri sínum og var kominn með eignir. Hann var allt í einu orðinn áskrifandi að eignarskatti til ríkisins vegna þess að hann hélt vel utan um krónurnar sínar þó ekki væru þær margar.

Herra forseti. Ríkisstjórn Sjálfstfl. hefur sl. tíu ár lækkað umtalsvert álögur á atvinnulífið. Við það hefur það blómstrað, borgað hærri laun og með hækkandi launum hafa því orðið mikil vandræði að mati vinstri manna. Barnabætur hafa lækkað --- það er mikil ógn að fólk skuli hafa svona háar tekur --- og tekjuskattar hafa hækkað mjög umtalsvert. Það er líka mjög vont að mati þeirra sem vilja helst alltaf hafa sömu lágu launin. Nú er lag að lækka skattana. Ég vil að menn skoði sérstaklega í nefndinni að lækka jafnvel tekjuskatt fyrirtækja niður í 0%.