Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:36:35 (130)

2001-10-04 16:36:35# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef það er eitthvað eitt sem hægt er að segja að einkenni þessi fjárlög og umgjörð þeirra þá er það orðið ,,óvissa``. Það vakti strax athygli mína þegar ég sá litinn, þennan kuldabláa lit á bókinni, að innihaldið mundi líklega verða eitthvað í samræmi við það. Sólskinsliturinn guli er gufaður upp, horfinn út í veður og vind og kuldablár, klakablár litur kominn á kápuna hjá hæstv. fjmrh. Og innihaldið, herra forseti, er í raun og veru algjörlega í samræmi við það.

Óvissan er fólgin í öllum þeim aðstæðum og þeim breytingum sem við höfum verið að sjá ganga yfir og er engan veginn séð fyrir endann á. Þó ekkert annað kæmi til en þær miklu sviptingar í gengi krónunnar, sem við höfum horft á frá því snemma á þessu ári og standa yfir enn, þar sem Seðlabankinn berst um á hæl og hnakka að reyna að halda genginu uppi með handafli og kaupum, inngripum dag eftir dag, verðbólguþróunin og óvissa tengd því, þá dugar það til að sjá að auðvitað eru forsendurnar mjög óljósar og það er að mínu mati misráðið að reyna að ræða þetta öðruvísi en þannig. Það er ekkert að því, hvorki fyrir hæstv. fjmrh. né aðra, að viðurkenna að svona er staðan.

Þegar það svo bætist við að stóratburðir úti í heimi hafa skekið efnahagslífið og berast hingað til okkar og eru þegar farnir að hafa áhrif, algjörlega ófyrirséð hversu mikil og langvinn þau verða á næstu missirum, t.d. á eina höfuðgrein okkar atvinnulífs, ferðaþjónustuna, þá er það einfaldlega fólgið í öllum aðstæðum að óvissan er mikil og það er eðlilegast að ræða þetta á þessum grunni.

Það er, herra forseti, að koma æ betur í ljós að góðærisveislunni, sem ég hef kallað svo, er lokið. Og það sem verra er, það verður ljósara með hverju árinu sem líður eða hverjum mánuðinum sem líður að nú er að koma að skuldadögunum og að þetta góðæri var að verulegu leyti eyðsla umfram efni. Skuldasöfnun þjóðarbúsins á þessu tímabili er geigvænleg. Menn geta síðan komið hér og sagt að þetta sé því að kenna að kaupmáttur hafi aukist of hratt. En það er ekki bara það, að sjálfsögðu ekki, vegna þess að umgjörðin sem efnahagslífinu var að þessu leyti búin bauð upp á þetta. Menn verða að horfa til allra þátta í þessu sambandi, til gengisskráningarinnar og til þeirrar keyrslu sem stjórnvöld höfðu forustu fyrir um, þensluna sem varð til á þessu landshorni og þessarar sífelldu góðærissíbylju sem auðvitað hvöttu til eyðslu, lántöku, útlánastefnu bankanna o.s.frv. Niðurstaðan blasir því við okkur: Þessi eyðsla var að verulegu leyti umfram efni, ávísun á vaxandi skuldir þjóðarbúsins í heild út á við og þyngri greiðslubyrði af þeim skuldum á komandi árum.

Það er sérstaklega alvarlegt, herra forseti, hvernig vaxtakostnaðurinn af vaxandi erlendum skuldum þjóðarbúsins hleðst núna upp. Það veldur því að þó að vöruskiptajöfnuðurinn lagist með minni innflutningi þá tommar það nánast ekkert gagnvart viðskiptahallanum því vaxtakostnaðurinn kemur þar upp á móti. Svokallaður jöfnuður þáttatekna verður núna neikvæður um milljarðatugi, svo nemur milljarðatugum meir milli ára. Hallinn á þessum lið, jöfnuði þáttatekna, sem að uppistöðu til er vaxtakostnaðurinn af erlendum skuldum þjóðarbúsins umfram erlendar eignir, var af stærðargráðunni 10--12 milljarðar mestallan síðasta áratug. Hann stökk upp í 20 milljarða á síðasta ári. Hann stefnir í rúma 30 milljarða á þessu ári og stefnir í hátt í 40 milljarða á árinu 2002. Þetta eru staðreyndir málsins. Svo koma menn hér og belgja sig yfir því hvað efnahagsstjórnin sé góð og allt sé í fína lagi.

Ég veit að vísu að einstöku menn, eins og hv. þm. Pétur Blöndal, hafa verið að vara við þessu á undanförnum árum. En menn bjuggu sér til deyfilyf gagnvart þessu ástandi og þar á meðal hv. þm. Var hann ekki að tala hér um að þetta væri góðkynja viðskiptahalli og hann væri allt annars eðlis en áður vegna þess að minni ríkisábyrgð væri á honum? En þarf ekki að borga hann samt? Mun þjóðarbúið ekki þurfa að standa við skuldbindingar sínar út á við?

Það er dálítið merkilegt þegar sjálfstæðismenn koma hér og sperra sig yfir því hvað allt hafi nú verið fullkomið hjá þeim en eru svo ekki menn til að ræða þessar staðreyndir málsins heldur búa sér til billegar skýringar á því að þetta sé allt í lagi. Góðkynja viðskiptahalli hvað? Hann er nákvæmlega sama eðlis og hann hefur alltaf verið hvað það varðar að íslenska þjóðarbúið, fyrirtæki okkar allra, verður að virða þessar greiðsluskuldbindingar sínar út á við. Sáralítið af þeim mun geta fallið á aðra aðila vegna þess að þetta er í gegnum banka og fjármálastofnanir sem við getum ekkert annað en látið standa við skuldbindingar sínar. Það liggur bara þannig. Og minnst af þessu mundi hverfa jafnvel þó að einhver fyrirtæki stæðu ekki við skuldbindingar sínar.

Uppsafnaður viðskiptahalli, herra forseti, á árunum 1998 til og með árinu 2002, ef marka má spár, verður 254 milljarðar kr., ef ég hef lagt rétt saman upp úr þjóðhagsáætluninni. 254 milljarðar kr. eru ekkert smáræði. Vaxtakostnaðurinn af þeim viðskiptahalla sem þarna safnast upp er ekkert smáræði og það er hann sem við erum að horfast hér í augu við. Hreinar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist gríðarlega. Að vísu þarf að hafa gengisbreytingarnar þar í huga, ef við reiknum þær í erlenda mynt þá er aukningin minni. En frá árunum 1997, 1998, þegar þær voru um 50% af landsframleiðslu og upp í það að verða núna í lok þessa árs, ef svo heldur fram sem horfir, um 110% af landsframleiðslu, komnar vel yfir landsframleiðslu hvers árs. Það eru hreinar skuldir þjóðarbúsins út á við.

Það var nú gömul þumalputtaregla, hvort heldur sem var í rekstri heimilis eða fyrirtækis, að þá væri nú farið að syrta í álinn ef skuldirnar væru komnar upp fyrir ársveltuna, var það ekki? Einhverjir hafa heyrt slíka viðmiðun. Það er nákvæmlega það sem nú hefur gerst hjá íslenska þjóðarbúinu að hrein skuldastaða okkar, hreinar skuldir okkar erlendis, sem sagt brúttóskuldir að frádregnum eignum erlendis eru orðnar meiri en landsframleiðslan.

Örfá orð, herra forseti, um skattapólitíkina, sem ég kem kannski betur að í seinni ræðu. Þar er fyrst og fremst um einn jákvæðan þátt að ræða og það er afnám skatta á húsaleigubætur. Að öðru leyti eru þessar breytingar verulega umdeilanlegar og að mínu mati sumpart alveg misráðnar. Ég tel það hneykslanlega skattapólitík að hækka frítekjumark hátekjuskatts, hlífa einstaklingum með 280 þús. kr. tekjur á mánuði alveg sérstaklega, færa þau mörk upp í 330 þúsund, en hrófla ekki við hinum almennu skattleysismörkum sem valda því að m.a.s. bótaþegar í almannatryggingakerfinu eru farnir að greiða umtalsverða skatta af hámarksbótum á mánuði hverjum.

Eða þá láglaunafólkið. Tökum konur í láglaunastörfum sem eru með 90--100 þús. kr. á mánuði að meðaltali í heilum starfsgreinum samkvæmt nýjasta Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar. Þær borga 12--15 þús. kr. á mánuði í skatta af þeim launum. Konur á landsbyggðinni í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum eru með 98.700 kr. að meðaltali í laun á mánuði. Þær ná ekki 100 þús. kr., fullvinnandi manneskjur í þessum starfsgreinum á landsbyggðinni. En þær mega borga 12.000 kr. í skatta eða þar um bil af þeim launum. Það finnst þeim í lagi, höfðingjunum sem hér ráða áherslum. Og Framsfl. lætur sig hafa þetta með þeim. En það er forgangsverkefni hjá þessum flokkum að lyfta frítekjumarki hátekjufólks og menn eru búnir að finna sér upp nýja réttlætingu, nýtt hugtak, nýtt nafn, millitekjuskattur, að þetta álag á hátekjur sé millitekjuskattur af því að hann byrjar að telja við 280 þús. en núna 330 þús. á mánuði hjá einstaklingi og hátt á sjöunda hundrað þús. hjá hjónum þegar búið verður að færa þessi mörk upp. Vorkennir Sjálfstfl. og Framsfl. svona mikið hjónunum með vel á sjöunda hundrað þús. kr. á mánuði að hann telji meiri ástæðu til að létta skattana á þeim heldur en lágtekjufólki, öldruðum og öryrkjum með kannski 80--90 þús. kr. á mánuði? Það er það sem blasir við okkur. Hver eru byrjunarlaun sjúkraliða sem nú eru í verkfalli? Þau eru innan við 90 þús. kr. á mánuði en þær mega borga skatta af þeirri smán, það er allt í lagi að mati þessara manna.

Herra forseti. Ég mun í seinni ræðu minni koma aðeins inn á skattapólitíkina sem snýr að atvinnulífinu. Hún er að mínu mati einnig mjög illa ígrunduð vegna þess að þar eru valdar áherslur í skattamálum sem ég held að séu varasamar, að lækka mjög mikið skatta á hagnað fyrirtækja sem þó búa við þetta góða afkomu, að þau eru að græða og færa það að hluta til yfir í launatengda skatta, þ.e. tryggingagjald. Þetta óttast ég, herra forseti, að verði til ófarnaðar.