Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:13:31 (140)

2001-10-04 17:13:31# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég mun í stuttu máli fara aðeins aftur í þær fyrirhuguðu skattbreytingar sem voru boðaðar hér í þinginu í morgun og síðan varpa fram nokkrum spurningum varðandi einstök atriði í fjárlögunum.

Um þær breytingar sem boðaðar voru í skattamálum í morgun af hæstv. fjmrh. og hafa verið kynntar hér frekar og lagðar fyrir þingið í lagafrumvarpsformi er ýmislegt að segja.

Það ber í sjálfu sér að fagna því að skattur á húsaleigubætur skuli vera felldur niður. Hann var óréttlátur og ber að fagna því að hann sé felldur niður. Sömuleiðis get ég alveg tekið undir að ýmislegt varðandi stimpilgjöld var orðið mjög óréttlátt. Það sést ekki af þeirri fréttatilkynningu sem gefin var út né af orðum hæstv. ráðherra með hvaða hætti lækkun á stimpilgjöldum eigi að koma til framkvæmda en t.d. lántökur erlendis --- en mörg fyrirtæki og jafnvel einstaklingar taka lán erlendis --- voru að því er ég best veit undanþegnar stimpilgjöldum til ríkisins en aftur á móti þurfti að greiða stimpilgjöld af lánum sem tekin voru í innlendum fjármálastofnunum. Ég hygg, herra forseti, að víða hafi verið komin upp misvísun og óréttlæti varðandi stimpilgjöldin sem ástæða var til að skoða og vonandi taka þær skattbreytingar sem hér eru boðaðar að einhverju leyti á því og gera þær réttlátari bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Hitt er svo furðulegt að farið skuli í það að lækka skatta á einstaklingum og fyrirtækjum, lækka tekjuskatt á þeim, í þeirri óvissu sem nú er um efnahagsástandið og tekjugrunn ríkisins.

[17:15]

En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að gera að umtalsefni, herra forseti, er það að boðað er að tryggingagjald hækki um 0,77%. Tryggingagjaldið hefur þótt afar ósanngjarnt í mörgum tilvikum. Tryggingagjaldið leggst fyrst og fremst á launakostnað, greidd laun og það leggst á þann hluta lífeyrissjóðsiðgjalda sem atvinnurekandinn innir af hendi. Og að ætla að hækka tryggingagjald á laun þýðir að verið er að refsa þeim fyrirtækjum, þeirri atvinnustarfsemi sem lætur meginhluta tekna sinna af rekstri ganga til launa en lætur minna ganga til að leggja peninga inn á banka eða kaupa hlutabréf eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal var að tala um. Í sjálfu sér er ekkert annað en gott að segja um hlutabréfaeign ef hún er eðlileg, en þetta er ósanngjarnt.

Einnig ber að líta á að atvinnugreinarnar eru þannig samsettar hér á landi að framleiðslugreinarnar, landbúnaður og sjávarútvegur, eiga í raunverulegum rekstrarörðugleikum þannig að þar er ekki mikill tekjuskattur á ferðinni sem er verið að létta af þessum atvinnugreinum en það er heilmikill launakostnaður. Sama er líka að segja um atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu, meginþáttur í þeim rekstri er líka laun.

Tekin hefur verið saman skýrsla á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga af Haraldi Líndal þar sem könnuð var sametning á tekjuskatti og tryggingagjaldi á fyrirtæki árið 2000. Þar kemur í ljós að um 90% af öllum tekjuskatti á fyrirtæki fellur til á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það eru einungis um 10% af upphæðum sem fyrirtæki utan Stór-Reykjavíkursvæðisins eru tekjuskattsskyld eða greiða tekjuskatt.

Að sjálfsögðu ber að harma að fyrirtæki víða um land séu ekki með það góða afkomu, það góðan rekstrargrunn að þau geti skilað tekjuskatti. En þetta er bara staðreynd sem verður að horfast í augu við og þýðir enga óskhyggju þegar verið er að vinna úr því.

Hins vegar þegar litið er á fjölda fyrirtækja sem greiða tryggingagjald á árinu 2000, þá eru 44% utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Við sjáum að þungi atvinnurekstrarins sem greiðir einmitt ekki tekjuskatt er utan höfuðborgarsvæðisins og byggist náttúrlega, þegar verið er að tala um hvort það er á höfuðborgarsvæðinu eða utan höfuðborgarsvæðisins, fyrst og fremst á atvinnugreinum sem eru staðsettar þar.

Í umræðunni um þörfina fyrir að jafna stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hefur einmitt verið talað um að það ætti helst að gera í gegnum skattkerfið. En eins og núna er, þá er um beina tvísköttun að ræða á atvinnustarfsemi úti á landi þar sem allir flutningar verða að koma frá einum stað, frá suðvesturhorninu, og flutningarnir til þessara fyrirtækja eru síðan skattlagðir til ríkisins og á það leggst síðan líka virðisaukaskattur þannig að það er margföld skattlagning á ýmsum aðföngum til rekstrar fyrirtækja úti á landi. Auk þess eru þetta fyrirtæki sem eiga ekki sama aðgang að lánsfjármagni. Það kemur líka fram í þeirri skýrslu sem ég var að vitna til. Auk þess eru þau að jafnaði með fjármagn sem þau fá að láni á verri kjörum en gerist hér. Það er því á margan hátt sem mismunun kemur fram í rekstrarskilyrðum fyrirtækja eftir því hvar þau eru og svo líka í hvaða greinum þau eru. Eigi nú að fara að auka skattbyrðina í gegnum tryggingagjaldið þá mun það virka sem beinn aukaskattur eða aukin skattlagning, aukinn þungi á sköttum á frumvinnsluatvinnugreinarnar, þjónustugreinarnar og þær atvinnugreinar sem eru úti um land. Þetta er bara svona.

Mér er jafnvel nær að halda að sú hækkun sem þarna er fyrirhuguð gæti fljótlega unnið upp þá lækkun á tekjuskatti sem ætlunin er að ná með þessu. Það er einmitt ekki svo, herra forseti, að hljóðið sé þannig núna að vandræði séu hjá fyrirtækjum með allan tekjuskattinn og tekjurnar. Þó svo að hæstv. fjmrh. hafi reyndar ýjað að því í sjónvarpsviðtali í gær að með því að lækka tekjuskattinn, þá mundu fyrirtæki síður fara að hagræða eða láta bókhaldið koma þannig út að þau slyppu við tekjuskatt, þetta væri svona hvatning til þess að menn væru ekki að hagræða í bókhaldi, hann komist einhvern veginn þannig að orði, þá held ég að það sé einmitt svo að það sé meiri hætta á að fyrirtæki eigi erfitt með að standa skil á launum og halda rekstri sínum á næstu mánuðum og muni þar takast á við eitthvað annað en að spekúlera í tekjuskatti. En þessi skattur, tryggingagjaldið, mun koma hart niður.

Herra forseti. Ég hefði viljað spyrja félmrh. hvað sé að gerast varðandi félagslega eignaríbúðakerfið sem mörg sveitarfélög standa í miklum vandræðum með. Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. er farinn.

Enn fremur hefði ég vilja spyrja hæstv. menntmrh. hvað sé að gerast með framhaldsskólana. Hvers vegna er t.d. valið að lækka eða leggja niður framlag til framhaldsdeilda framhaldsskólanna úti á landi? Og svo má áfram telja, herra forseti. Það eru mörg svona atriði einmitt víða um land sem ég sé í fjárlagafrv. að eru slæm.