Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:23:57 (141)

2001-10-04 17:23:57# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég mun mjög stytta mál mitt, enda nóg troðið eins og Jón Hreggviðsson sagði undir hanganum. En ég á skapnaðarerindi, herra forseti, við talsmann Sjálfstfl., hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, vegna þessara umræðna sem urðu í dag og þeirra orða sem hann viðhafði og ég þarf að svara. Hvað segir hæstv. forseti um það?

(Forseti (ÍGP): Forseti sér í tölvunni að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er ekki húsi en forseti mun láta kanna hvort hann er hér skammt undan.)

Einmitt. Ég hefði viljað fara örfáum orðum á meðan um einkavæðingartilburði hæstv. ríkisstjórnar. Ég var einkavæðingarsinni en vegna framkvæmdar á þeim málum hef ég hlotið að snúa við blaðinu varðandi þessi fyrirtæki, sérstaklega bankana. Ég tel að einkavæðing þeirra nú sé ranglega tímasett. Það sem er rangt tímasett er gersamlega óbrúkhæft í pólitík. Þess vegna hlýt ég að vísa því til hæstv. ríkisstjórnar að hugsa sig tvisvar um áður en á þetta ráð verður brugðið með bankana.

Það sýnir sig að tíminn er líka rangur varðandi Landssímann og þessi aðferð, sem notuð hefur verið nú, virðist ætla að mistakast með hættu á tapi við söluna.

Ég vil enn fremur benda á, minna á og rifja upp að á sinni tíð voru norskir bankar einkavæddir. Það kom þó ekki í veg fyrir að þegar þá ber upp á sker vegna tapa, útlánatapa, þá varð norska ríkið að koma til skjalanna og kaupa þessi fyrirtæki svo ekki riðlaðist allt þeirra fjármálakerfi. Ég óttast að til þessa kunni að draga hér á Íslandi. Ég óttst það mjög. Bankarnir dældu inn erlendu fé, aðallega vegna vaxtamunar þar og hér, og síðan kom á þær fjárhæðir þessi forógnarmikla gengisfelling þannig að það þarf enginn að segja mér að þarna kunni ekki að taka í hnúkana.

Það má auðvitað segja að bankarnir hafi verið undanfarin missiri á útlánafylleríi og þá er alltaf hætt við að timburmenn geri vart við sig á eftir. Ég nefni sem dæmi þó að það sé hálfbágt að þurfa að vera að nefna nöfn að Landsbanki Íslands lánaði þekktum athafnamanni, Jóni Ólafssyni, yfir 800 millj. kr. til að kaupa lóðir fyrir suður í Arnarnesi til þess að braska með. Þetta var auðvitað gert að undirlagi Framsfl., enda berst fulltrúi Framsfl. í bæjarstjórn Garðabæjar um á hæl og hnakka að reyna að koma af stað byggingum til að losa um þessi ósköp. Það er dreifða salan sem ég er óskaplega óánægður með að ekki hefur gengið eftir, margendurteknar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um bankana sér í lagi, að það hlyti að fara fram dreifð sala á þeim. Hann skundaði síðan til Hóla og hélt þar messu og hann kunni þá að nefna þá sem aðallega áttu hlut að máli í hinum fræga Orca-hópi.

En nú er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mættur og ég minni á það sem hann sagði með réttu að laun opinberra starfsmanna hefðu hækkað langt umfram greiðslugetu ríkisins. (EOK: Og laun annarra.) Og laun annarra. Það lá í orðum hans að ég hefði verið einn af þeim sem hefðu valdið hér upphlaupi vikum saman vegna kjarabaráttu kennarastéttarinnar. Það er rangt. Það gerði ég ekki eins og ganga má úr skugga um í þingtíðindunum. Ég tók engan þátt í upphlaupum hér á hinu háa Alþingi vegna deilu kennarastéttarinnar, aldrei. Það gerði ég vegna þess að ég taldi alla þá umræðu stórspilla stöðunni. Hið eina sem ég sagði í eitt einasta skipti var að ég sæi ekki betur en nauðsyn bæri til að bæta kjör kennarastéttarinnar sem hefðu dregist von úr viti aftur úr og kannski ollu keðjuverkunum í launamálum þjóðarinnar. Þetta var um það að segja.

Hv. þm. hefur setið á hlustinni þegar við vorum að ræða stefnuræðu forsrh. því þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér hafa laun hækkað langt umfram það sem þjóðarbúið þoldi og húrrandi launaskrið vegna ofþenslu á vinnumarkaði.``

Þetta sagði ég núna á þriðjudaginn í umræðum um stefnuræðu forsrh. Ég veit það ekki en ég geri fyllilega ráð fyrir því að hv. þm. Einar Oddur, málsvari Sjálfstfl. í fjármálum og varaformaður fjárln. sérstaklega, að það hafi verið borið undir hann strax eftir kosningar 1999 að hækka skyldi laun þingmanna og ráðherra um ein 30%. Einhvern tíma hefði honum þótt, þegar hann var í fyrirsvari fyrir Vinnuveitendasambandið að þetta væri ógæfulegt fordæmi svo ekki sé meira sagt.

Við höfum lifað um efni fram, Íslendingar. Á því er ekki nokkur vafi. Og við höfðum verið táldregnir, allur almenningur af verðbréfahéðnum sem hafa teflt upp verðbréfabraskinu á yfirspenntum fjármálamarkaði og svo þykjast þeir auðvitað lausir allra mála þegar almenning, sem hefur hlýtt á fortölur þeirra og áróður, ber upp á sker. Og hálfömurlegt er til þess að vita að það muni teljast til hagvaxtar, byggingarbraskið á höfuðborgarsvæðinu, vegna flótta landsbyggðarmanna til suðvesturhornsins.

Ég óttast, herra forseti, að forusta hæstv. ríkisstjórnar kunni bara að stjórna í góðæri. Og það er ekki von á góðu þegar formaður stjórnarinnar dáleiðir sjálfan sig endalaust með blekkingum eins og við höfum fyrir augum.