Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:32:48 (152)

2001-10-04 18:32:48# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ein lítil athugasemd eða spurning til hæstv. ráðherra. Í ræðu hans fyrr í dag vék hæstv. fjmrh. sérstaklega að auknu aðhaldi í rekstrarútgjöldum ríkisins. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta. Í ræðu sinni sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Að teknu tilliti til nýrra rekstrarverkefna, svo sem hjúkrunarheimilis við Sóltún og fleiri kostnaðarsamra þátta, lækka rekstrargjöldin að raungildi um 0,6% frá áætlaðri útkomu þessa árs.``

Getur hæstv. ráðherra skýrt fyrir okkur í hverju þetta felst og hvort hann telji samninginn sem gerður var við Aðalverktaka og Securitas, undir heitinu ,,Öldungur hf.``, verði til þess að lækka rekstrarútgjöld ríkisins til þessa málaflokks?

Annað áhersluatriði í ræðu hæstv. ráðherra í lokaorðum hans var að hann teldi að við nytum nú ,,fyrirhyggju`` undanfarinna ára. Í ræðu minni fyrr í dag vakti ég athygli á geigvænlegri skuldaaukningu íslenska þjóðarbúsins. Það kemur fram að skuldir íslensku þjóðarinnar, fyrirtækjanna, heimilanna, sveitarfélaganna og ríkissjóðs, nema 259% af vergri landsframleiðslu og hafa ekki verið hærri um langan aldur. Er það dæmi um fyrirhyggju undanfarinna ára?