Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:36:50 (154)

2001-10-04 18:36:50# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefði líka verið harla undarlegt vegna þess að samningurinn við Sóltún, við Securitas og Aðalverktaka, er miklu dýrari fyrir ríkissjóð en samsvarandi samningar við aðra aðila, Grund, Dvalarheimili aldraðra sjómanna o.s.frv. Skýringin er sú að það þarf að fjármagna úr pyngju skattborgarans arðgreiðslur til eigenda þessarar stofnunar.

Hæstv. ráðherra segir að það sé ekki samhengi á milli skulda fyrirtækjanna og ríkissjóðs hins vegar. Hann bendir réttilega á að skuldir ríkissjóðs hafi verið færðar niður. Á sama tíma hafa hins vegar skuldir fyrirtækjanna rokið upp úr öllu valdi. Ég vil halda því fram að þar sé samhengi á milli. Skuldir fyrirtækjanna eru núna, samkvæmt áætlunum Þjóðhagsstofnunar, meira en 1.000 milljarðar kr. Brot af þessum skuldum hvílir væntanlega hjá Öldungi hf., hjá Securitas og Aðalverktökum, vegna Sóltúnsheimilisins.

Með þessu formi einkaframkvæmda verður á sú breyting að skuldsetning er núna færð í auknum mæli á fyrirtæki sem sinna opinberri þjónustu. Þegar upp er staðið verður það hins vegar ríkissjóður sem borgar hverja einustu krónu til þessa reksturs en bókhaldinu er núna háttað á annan veg. Þetta er blekkingaleikur og mikil sjálfsblekking ef hæstv. fjmrh. telur að þarna sé ekki samhengi á milli, annars vegar lækkandi skulda ríkissjóðs og hins vegar stóraukinna skulda fyrirtækja í landinu. Mér finnst áhyggjuefni ef hæstv. fjmrh. hefur ekki áhyggjur af þeirri skuldasprengingu sem hefur orðið í okkar þjóðfélagi.