Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:12:00 (164)

2001-10-08 15:12:00# 127. lþ. 5.1 fundur 41#B Loftárásir á Afganistan og aðstoð við uppbyggingu# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skýr svör. Ég skil svör hans þannig að þegar þessi átök verða um garð gengin muni íslensk stjórnvöld aðstoða við uppbyggingu í Afganistan einhvern veginn frekar en nú þegar hefur verið samþykkt.

Mig langar jafnframt að varpa annarri fyrirspurn til hæstv. forsrh. Fram hefur komið að Íslendingar hafa ásamt öðrum bandalagsþjóðum í Atlantshafsbandalaginu tekið þátt í þeirri ákvörðun að bregðast sameiginlega við þessum hryðjuverkum með sérstakri samþykkt sem gerð var í Atlantshafsráðinu. Nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh. hvort þær aðgerðir sem hófust í nótt hafi verið bornar undir ráðið og bornar sérstaklega undir íslensku ríkisstjórnina og jafnframt hvort hann viti til þess að fyrirhugað sé að ráðast í frekari aðgerðir og hvort einhverjar slíkar hafi verið bornar undir íslensk stjórnvöld.