2001-10-08 15:14:02# 127. lþ. 5.1 fundur 42#B stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðaraðgerðir í Afganistan# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. sömuleiðis vegna þeirra alvarlegu atburða sem orðið hafa í alþjóðamálum, þ.e. með árásum Bandaríkjamanna og Breta á Afganistan.

Ég vil fyrst segja að það eru mikil vonbrigði að svona skuli komið, að hafin sé árás á þetta stríðshrjáða land og þessa hröktu og soltnu þjóð eða þjóðir sem Afganistan byggja. Það er nú að gerast að til viðbótar hinu skelfilega manntjóni sem varð í Bandaríkjunum 11. september sl. eru nú án nokkurs vafa óbreyttir borgarar teknir að falla í Afganistan.

Það vekur athygli að þessar árásir eru hafnar án nokkurrar lokaaðvörunar og eru einhliða aðgerðir og einhliða ákvarðanir Bandaríkjamanna og Breta, framkvæmdar án undangenginnar umfjöllunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég vil lýsa vonbrigðum með að ríkisstjórn Íslands skuli þegar hafa lýst stuðningi við þessar árásir og ég spyr hæstv. forsrh.: Hvaða nauðsyn bar til þess að gera það og það svona skjótt? Ég vil einnig spyrja af hverju það sé gert í nafni ríkisstjórnar Íslands án undangengins samráðs við utanrmn. Alþingis? Það er að vísu svo að utanrmn. kemur saman í fyrramálið til reglulegs fundar og þar mun þetta mál verða á dagskrá. En það hefði að mínu mati verið eðlilegt að til fundar hefði verið boðað og samráð haft um þetta mál við utanrmn. Alþingis áður en ríkisstjórnin úttalaði sig í þessum efnum.