2001-10-08 15:16:27# 127. lþ. 5.1 fundur 42#B stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðaraðgerðir í Afganistan# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ljóst að mikil samstaða hefur verið um það meðal þjóða heimsins að að sjálfsögðu þyrfti að gera allt sem mögulegt væri til að koma í veg fyrir að sambærilegir atburðir endurtækju sig og að sjálfsögðu þarf að draga þá fyrir lög og dóm sem þarna bera ábyrgð.

Hitt er alveg ljóst að í þessari samstöðu hefur ekki verið fólginn frekar en í yfirlýsingu utanrmn. fyrirvaralaus stuðningur við hvaðeina sem kynni að verða gert og án tillits til þess hvernig það yrði gert. Og ljóst er að margir þjóðarleiðtogar hafa jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við Bandaríkjamenn og viðleitni þeirra til að skapa samstöðu um aðgerðir gegn hryðjuverkum, vísað til þess að síðan ætti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að fjalla um slíka hluti. Það er a.m.k. alveg ljóst að ég er þeirrar skoðunar að hvert eitt skref sem tekið væri í þessum efnum ætti að varða með ákvörðunum í öryggisráðinu. Ég er því ósammála þeirri túlkun, hún gildir alla vega ekki fyrir mína hönd, að sú ályktun sem utanrmn. gerði á fundi sínum þrem, fjórum dögum eftir atburðina í Bandaríkjunum hafi sjálfkrafa falið í sér stuðning við hvaðeina sem gert er í framhaldinu og án tillits til hvernig að því er staðið.