2001-10-08 15:18:26# 127. lþ. 5.1 fundur 42#B stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðaraðgerðir í Afganistan# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég var að vona að hæstv. forsrh. gæti hafið sig upp úr útúrsnúningum þegar svona alvarlegir atburðir eru á dagskrá. Það er alveg ljóst að ég var ekki að ætlast til þess að utanrmn. Alþingis segði Bandaríkjastjórn fyrir verkum.

En hitt er annað mál að þegar talað er í nafni lýðveldisins Íslands eins og ríkisstjórnin gerir fyrir sitt leyti, auðvitað ekki Alþingis öðruvísi en um það sé haft samráð við Alþingi, þá á að fara að landslögum, venjum og hefðum í þeim efnum. Það stendur skýrum orðum í þingsköpum Alþingis að hafa beri samráð við utanrmn. Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir á sviði utanríkismála. Og ef það er ekki meiri háttar ákvörðun á sviði utanríkismála að lýsa stuðningi við hernaðaraðgerð af þessu tagi þá vandast nú málið, herra forseti. Það var það sem ég var að vitna til að eðlilegt hefði verið að rætt hefði verið við utanrmn.

Ég er feginn því að forsrh. gerir ekki tilraun til að tala fyrir mína hönd. Það fer best á því, held ég, að ég reyni að gera það sjálfur. En ég vil biðja hæstv. forsrh. að hafa það í huga að ég hef rétt til minna skoðana á utanríkismálum rétt eins og hann hefur til sinna.