Geðheilbrigðismál

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:22:06 (173)

2001-10-08 15:22:06# 127. lþ. 5.1 fundur 43#B geðheilbrigðismál# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég get ekki á þessum vettvangi núna við þessar aðstæður farið út í einstök atriði í þeim stóra og mikla málaflokki sem hv. þm. vék að. En þau ummæli sem ég viðhafði eru ekki ummæli mín eingöngu heldur ríkisstjórnarinnar allrar og hæstv. heilbrrh. sérstaklega sem hefur viljað gera þessu máli sérstök skil og var áfram um það að í stefnuræðu yrði lögð sérstök áhersla á þennan þátt málsins og í því sambandi eru menn auðvitað að hugsa til þeirra þátta sem fram koma í heilbrigðisáætlun til tíu ára sem samþykkt hefur verið á hv. Alþingi.

Ég tel að þessi málaflokkur sé miklu stærri í sniðum en við almennt gerum okkur grein fyrir vegna eðlis hans og með hvaða hætti þessi sjúkdómur getur dulist mörgum, því að það lýtur enn þeim lögmálum, kannski því miður, að menn fari í felur með sjúkdóma af þessu tagi. Fyrir því er rótgróin hefð þó að augu manna hafi opnast fyrir því að þetta séu sjúkdómar eins og aðrir, og reyndar umfangsmeiri en aðrir í mörgum tilfellum og þurfi að ræða opinskátt.

Ég var því að undirstrika þá ætlan ríkisstjórnarinnar á næsta ári og næstu árum að taka mjög örugglega og stíft á þessum mikla málaflokki. Til þess stóð vilji hæstv. heilbrrh. sem var áfram um það að þessum málaflokki yrðu gerð sérstök skil í stefnuræðunni.