Fyrirkomulag ökuprófa

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:27:20 (178)

2001-10-08 15:27:20# 127. lþ. 5.1 fundur 44#B fyrirkomulag ökuprófa# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fsp. Það er vissulega satt og rétt að við þurfum að hafa varann á og gæta að okkur þegar við erum að fjalla um umferðaröryggismál og ökukennsla og ökupróf eru svo sannarlega hluti af þeim.

Ég tel að það geti verið heppilegt að fara þá leið að taka framkvæmd ökuprófa frá Umferðarráði og bjóða jafnvel út þá þjónustu en hins vegar yrði gerð prófanna væntanlega á sama stað og öllum þeim öryggiskröfum sem gerðar eru til þeirra prófa mun verða fullnægt. Það er ekki alveg frágengið hvernig þetta verður framkvæmt en vonir standa til þess að ekki verði breyting í starfsmannafjölda Umferðarráðs við þessar breytingar og að þeir sem þegar hafa þessa framkvæmd á sinni hendi, m.a. úti á landsbyggðinni, geti jafnvel tekið að sér þá þjónustu.

Ég vona því svo sannarlega að þetta komi ekki til með að hafa miklar breytingar í för með sér fyrir starfsfólk. Hins vegar legg ég áherslu á að ég tel að breytingar sem þessar geti haft jákvæð áhrif fyrir það unga fólk sem er að taka bílpróf og er að fara út á vegi landsins. Okkur veitir svo sannarlega ekki af að taka víða til hendinni varðandi umferðaröryggismálin þar sem slysin hafa því miður verið allt of mörg og alvarleg. Við þurfum að snúa þeirri þróun við.