Fyrirkomulag ökuprófa

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:30:51 (181)

2001-10-08 15:30:51# 127. lþ. 5.1 fundur 44#B fyrirkomulag ökuprófa# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér virðist nokkuð ljóst af svörum hæstv. ráðherra að ekki sé búið að ígrunda hvaða breytingar eigi að fara í. Við höfum hins vegar fengið að heyra að hæstv. ráðherra telur að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru komi ekki til með að draga úr umferðaröryggi okkar og komi ekki til með að skerða eða rýra á nokkurn hátt framkvæmd ökuprófanna.

Þá skil ég ekki, herra forseti, hvað rekur á eftir hæstv. ríkisstjórn að vaða inn í Umferðarráð og gera breytingar af þessu tagi sem þó virðast ekki vera í samræmi við neina heildarbreytingu á stefnumörkun Umferðarráðs sem væri þó alveg hægt að ræða í stóru samhengi því að umferðaröryggismál og framkvæmd umferðaröryggismála eru risastór málaflokkur sem skiptir verulegu máli að haldið sé á með styrkri hendi og að ekki sé rasað um ráð fram með að krukka í einstök atriði þegar það er ekki verið að skoða stefnu málaflokksins í heild í því sambandi. Ég ítreka, herra forseti, að mér þykir undarlegt ef hér eru á ferðinni einn ein einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.