Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:21:41 (192)

2001-10-08 16:21:41# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað fórum við yfir það hvað fyrirtæki gætu greitt og hvað væri líklegt að þau mundu greiða. Maður gerir auðvitað ráð fyrir því að ábyrgir stjórnendur fyrirtækja bjóði í veiðiheimildir með það í huga að fyrirtækin gefi af sér arð. Með því að skoða fyrirtæki eins og Samherja á Akureyri, á árunum 1996--1997, komust menn t.d. að þeirri niðurstöðu að það fyrirtæki hefði ekki getað borgað nema í hæsta lagi 12 kr. fyrir þorskígildið. Mér finnst líklegt að veiðiheimildir verði býsna misjafnar á þessum markaði en þær hljóta þó að taka mið af möguleikum fyrirtækjanna. Lengra geta menn kannski ekki farið en að skoða rekstur fyrirtækjanna til þess að átta sig á því hvert verðið gæti hugsanlega orðið.

Hv. þm. sagði að þetta væri illa hugsað frv. Ég ætla samt að vona að hann hafi lesið það vel. Við lögðum mikla vinnu í það. Ég held að okkur hafi tekist að sigla fyrir flestar víkur í því. Ég mundi treysta mér fullkomlega til að standa ábyrgur fyrir því að þetta mundi ganga upp sem við erum að leggja til hér. Ég er sannfærður um það. Þetta yrði miklu, miklu betra fyrirkomulag en menn búa við í dag.

Hv. þm. sagði að menn hafi verið að fjárfesta í traustinu. Það var það sem ég var að segja hér áðan. Trausti á hvað, bullandi óánægju allra landsmanna meira og minna gegn þessu kerfi? Á hvað var treyst? Var treyst á hv. þm. Kristján Pálsson? Líklega. Ég held nefnilega að þeir sem hafa treyst á óbreytt kerfi, hafi treyst fáum, talið að þeir hefðu völdin og hefðu þau áfram.

Ég held að menn ættu að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hvort fara eigi með fulltrúalýðræðið eins og farið hefur verið með það í þessu máli.