Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:23:56 (193)

2001-10-08 16:23:56# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, lagt fram af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni o.fl. Þetta frv. kemur nú fyrir þingið í þriðja skipti. Það er ekkert vafamál að umræðan um stjórn fiskveiða á eftir að taka drjúgan þátt þingsins í vetur. Það er bullandi ágreiningur í samfélaginu um það hvernig þessum málaflokki er stjórnað. Þar sem ég var einn af þeim sem tilnefndir voru í þessa endurskoðunarnefnd þá vil ég segja frá því að ég skilaði þar minnihlutaáliti. Hið sama gerðu fulltrúi Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson, og Kristinn H. Gunnarsson frá Framsfl.

Ég held að þessi mál verði kannski aldrei leyst með því að flokkarnir komi einhliða fram með skoðanir sínar á því hvernig þeir vilja breyta kerfinu. Átökin eru mikil eins og menn vita og meiri hluti nefndarinnar setur fram meirihlutaálit, eins og þingheimi er kunnugt, sem í grófum dráttum breytir engu um stöðu mála en færir málin í heild sinni kannski til verri vegar. Í því sambandi mætti nefna fækkun og stækkun fyrirtækja, aukna samþjöppun sem er þyrnir í okkar augum í sambandi við stjórn fiskveiða.

Það hefur komið fram á síðustu dögum að þær tillögur sem meiri hluti endurskoðunarnefndarinnar setti fram leiða til áframhaldandi óróa í samfélaginu. Það er klárt mál. Á allra síðustu vikum hefur fjöldi félaga smábátaeigenda ályktað til þingheims og til ríkisstjórnar og í raun lýst neyð sinni. Það er ákall um hjálp og það að mega vera til. Tíu félög smábátaeigenda víða að af landinu hafa í grundvallaratriðum ályktað á sama hátt, öll þessi félög. Þau biðja, eins og ég sagði áðan, nánast um leyfi til þess að fá að vera til.

Þessi tíu smábátafélög eru allt í kringum landið eins og ég sagði áðan, frá Austurlandi, Suðurlandi, Reykjavík, Hornafirði, Ströndum, Norðurlandi, Snæfellsnesi, Bakkafirði, Ísafirði og Grímsey. Smábátaeigendur í Grímsey skrifa til okkar hér og ríkisstjórnarinnar:

,,Við undirritaðir íbúar í Grímsey skorum hér með á stjórnvöld að afnema ákvæði laga um krókabáta sem koma eiga til framkvæmda 1. sept. nk. Með framkvæmd umræddra laga verður fótum kippt undan þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í smábátaútgerð á undanförnum missirum.``

Og síðan kemur niðurlagið sem segir sína sögu og um það eru allir sem áhyggjur hafa af þessum málum samhljóða:

,,Smábátafélag Grímseyjar krefst þess að sá lagaóskapnaður sem skákað hefur náttúruöflunum og stöðvað alla línuútgerð krókabáta, verði tafarlaust felldur úr gildi og lögfest verði veiðikerfi krókabáta sem í gildi var 31. ágúst sl.``

Virðulegi forseti. Það stendur upp á okkur að koma áfram með tillögur sem geta sætt þjóðina. Hins vegar er augljóst að núverandi stjórnarmeirihluti keyrir fram, eins og ég sagði áðan, nánast óbreytt kerfi. Það er borðleggjandi að um það verður aldrei sátt. Eins er borðleggjandi að það mun leiða af sér, bara á örfáum missirum, áframhaldandi byggðahrun víða um landið. Við megum því engan tíma missa í umfjöllun okkar um þessi mál.

Þar sem ég er bjartsýnismaður er ég enn að gera mér vonir um, þó að niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar hafi verið mikil vonbrigði, að með umræðu um þessi mál í þinginu, ekki síst miðað við þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í byggðamálum, geti stjórnarandstaðan komið málum þannig fyrir að einhver tillöguflutningur verði í þá átt að leiðrétta þá stöðu, a.m.k. tímabundið þó ég geri mér grein fyrir því að það verði kannski á grunni meirihlutavalds hv. þm. sem styðja þessa ríkisstjórn. Ég ber þá von enn í brjósti.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli í blindni að keyra fram kerfi sem gengur í berhögg við það sem fiskveiðistjórnarlögin byggðust á, þ.e. að vernda fiskstofna landsins. Það er verið að setja tegundir í kvóta sem við náum ekki einu sinni að veiða samkvæmt veiðiráðgjöf. (SvH: Keila, langa.) Keila, langa, segir hv. þm. Eitthvað er nú þetta mál komið á skjön og það hvernig staðið er að því.

[16:30]

Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn setja í kvóta tegundir sem næst ekki einu sinni að veiða? Það er alveg fáránleg hugmynd og fáránleg framsetning. Það sem er enn þá fáránlegra í því sambandi er að þeim sem rita okkur þessar yfirlýsingar, þessum tíu félögum smábátaeigenda, er haldið utan við að eignast þennan kvóta. Þetta er alveg furðulegur ráðahagur.

Nefndin um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða margklofnaði eins og kunnugt er. Þó er ástandið nú ekki verra en svo að í raun er svolítill samhljómur hjá þeim sem skiluðu minnihlutaálitum.

Fyrningarleið og fyrningarleið, það er ekki sama hvernig fyrningin er útfærð og það er ekki sama hvernig kerfi sem byggir á fyrningarleið er útfært. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þess vegna skila menn áliti hver fyrir sig í minni hlutanum, enda er að mörgu leyti miklu eðlilegra að þannig sé staðið að málum úr því sem komið var. Menn undirstrikuðu því áherslur sinna flokka.

Ég lít svo á að hægt sé að hefja samninga um breytingar sem þjóðin gæti sæst á ef vilji væri fyrir hendi enn á ný. Mér sýnist og maður heyrir það í umræðunni og verður þess áskynja á fundum að margir stjórnarliða eru miklu nær t.d. okkar tillögum, eins og við setjum þær fram, en þeim tillögum sem meiri hlutinn setur fram núna.

Ég hef stórar áhyggjur af þróuninni og samþjöppuninni vegna þess að skjótt skipast veður í lofti í heimi okkar. Og varðandi t.d. framsalsmöguleika, þá líst manni nú bara ekkert á að opnað sé fyrir það að við missum hreinlega úr höndunum á okkur áunninn rétt þjóðarinnar til úthafsveiða.

Hvernig verður landslagið ef við lítum á næstu fimm til tíu ár? Getur ekki landslagið orðið þannig að með frekari samþjöppun komi fram krafan í bankakerfinu hér um að opnað verði fyrir erlendar fjárfestingar í útgerðinni? Og þá skipast nú skjótt veður í lofti ef við höfum nánast ekkert nema markaðinn sem ræður því hvernig þetta fer á milli fyrirtækja og manna.

Við verðum að taka á þessu máli, gera grundvallarbreytingar. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram fyrningarleið sem byggir á hægfara en taktfastri þróun í þá átt að fyrna aflaheimildirnar á 20 árum. En við setjum ströng skilyrði og þess vegna höfum við sett fram okkar eigin nefndarálit, eða ég hef sett fram mitt eigið nefndarálit, í nefndinni um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða vegna þess að byggðatenging er mjög mikilvæg fyrir okkur og það að vald sé fært til sveitarfélaganna til þess að hafa um það að segja hvernig veiðiheimildum er ráðstafað.

Það er líka mjög mikilvægt að þau fyrirtæki sem starfa í greininni í dag fái góða aðlögun til þess að fóta sig á breyttum aðstæðum. Það tel ég mjög mikilvægt fyrir allra hluta sakir. Þess vegna hafa fyrirtækin sem eru starfandi í greininni eftir okkar hugmyndum forkaupsrétt að stórum hluta veiðiheimildanna, eða einum þriðja. Síðan er lagt til að einn þriðji af því sem fyrnt er verði settur á markað.

Til þess að gera aðlögunina að þessu nýja kerfi enn þá auðveldari fyrir þá sem eru í þessu útgerðarmunstri í dag, er gert ráð fyrir því að fyrirtækin eigi kost á því að hafa umráðarétt yfir sofandi kvóta fyrstu sex árin þannig að þeir fái endurleigurétt á 3% af þeim 5% sem fyrnd eru fyrstu sex árin.

Sumir hafa sagt að þetta sé flókið kerfi. En þetta er kerfi sem taktfast leiðir okkur til baka. Sérstaklega er nauðsynlegt í mínum huga að draga fram að byggðirnar og fólk í sjávarbyggðum landsins eigi einhvern tilverurétt og það sé ekki bara undir fyrirtækjum eða einstaklingum sem eiga peninga komið hvernig hlutirnir þróast þar.

Í umræðunni um sjávarútvegsmál hefur mikið verið rætt um það að til þess að gera svona breytingar þurfi að taka af einhverjum. Þeir sem verja núverandi kerfi draga þetta mjög sterkt fram: ,,Ef þið eruð með hugmyndir um fyrningarleið og breytingar á þessum nótum þarf að taka af einhverjum.`` En þessir sömu menn átta sig ekki á því að eins og kerfið er uppbyggt nú þá er veiðileyfi á það að taka af byggðunum með krafti peningavaldsins. Við erum að tala um að þetta sé jafngilt og það eigi raunar frekar að standa að því með stjórnvaldsaðgerðum og lýðræðislega að færa veiðiheimildir til baka til umráða fyrir þá sem hafa um áratuga og kannski árhundruða skeið nýtt þessa auðlind. Það er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Kristján Pálsson kom inn á markaðinn og gjaldið fyrir veiðiheimildir. Í mínum huga og flokksmanna minna er ekki aðalatriði að fá sem mesta peninga út úr greininni. Það er ekki okkar aðalmarkmið. Við setjum það ekki á oddinn. Aðalmarkmið okkar er það að við getum þróað greinina yfir í það veiðiform sem við viljum sjá, leggja aukna áherslu á vistvænar veiðar og leggja aukna áherslu á byggðatengingu.

Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig markaðurinn mundi virka ef boðið væri upp eins og t.d. í tillögum Samfylkingarinnar, miklu hraðar en ég hef talað fyrir. En það er augljóst að sá markaður sem er í gangi núna gefur ekki rétta mynd af verði á veiðiheimildum. Þetta er svo lítið að það kemur ekkert í ljós fyrr en meira magn er til ráðstöfunar hvert raunverulegt verð veiðiheimilda er.

Við vitum það öll sem höfum verið að vinna í þessum málum að hver 5% í veiðiheimildum --- geta þau ekki farið í 5--8 milljarða ef allt er reiknað upp í stert miðað við það sem menn eru að borga, háar upphæðir fyrir kílóið, eins og ástandið er í dag? En það ástand er engan veginn til þess að taka mið af því eins og ég sagði áðan er svo lítið magn á markaðnum í dag.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara örstutt koma með þetta innlegg í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég á þá ósk heitasta að við getum í umræðunni í vetur þokað málum áleiðis í þá átt sem við viljum sjá greinina þróast. Það er augljóst í mínum huga að keyrum við áfram og verði lagasmíð á grunni tillagna meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar þá verður hér bullandi ófriður næstu ár, bullandi ófriður um allt þetta mál. Það getur ekki farið öðruvísi. Við verðum að bera gæfu til þess að leiða stjórnarmeirihlutann inn á einhvers konar plástralausnir þó við gerum okkur grein fyrir því að þeir hafa gjörsamlega bitið sig í það að við eigum að viðhalda núverandi kerfi. En einhverjar lausnir verða að koma við bráðavanda, t.d. eins og hjá smábátaútgerðinni. Það er alveg augljóst. Smábátarnir í hrönnum --- það er farið að binda þá --- eru búnir með sín 4 tonn. Ég mun fyrir mína parta reyna að leiða það fram og koma því til leiðar að breytingar sé hægt að gera í þá átt að tryggja stöðu þeirra.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Hér er um að ræða mál sem er búið að koma fyrir þingið tvisvar áður. Það var í umræðunni hér í fyrra og ég úttalaði mig um það þá, en taldi mikilvægt að koma inn með þessa sjónvinkla frá okkar hálfu.