Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:40:43 (194)

2001-10-08 16:40:43# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur í störfum sínum í endurskoðunarnefndinni verið með tillögur sem hann hefur nú kynnt og eru út af fyrir sig ágætar, held ég, miðað við það sem hann er að ,,presentera``.

Ég velti fyrir mér þessari svokölluðu byggðatengingu á úthlutun kvóta. Hvað þýðir það? Þýðir það að þær byggðir sem hafa það verst fái lægsta verð? Svo hafa aðrar byggðir það aðeins skárra og fá þær þá eitthvað annað verð? Á þá að skipta þessu eftir því hvernig gengur í byggðum landsins? Ef það gengur t.d. illa á einhverju svæði á Suðurnesjum, fá þeir þá aðra úthlutun en t.d. á Akureyri þar sem gengur mjög vel? Eða fá þeir á Raufarhöfn miklu betri úthlutun en einhverjir aðrir? Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað þetta geti orðið flókið kerfi. Hvernig á að leysa þetta?

Það sem ég hef talið erfiðast við að eiga í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er brottkastið. Ég hélt að menn væru sífellt að leita leiða til þess að koma í veg fyrir það þannig að við nýttum þann afla sem dreginn er um borð í þessi skip hverju sinni.

Ég get ekki séð að úthlutun afla með þessu útboðskerfi leysi brottkastið. Menn eru að kaupa ákveðið magn af fiski og reyna að ná eins miklum verðmætum út úr honum og þeir geta því að þeir eru væntanlega að kaupa þetta á uppboði fyrir mikinn pening þannig að þeir henda því sem ekki er nógu verðmætt. Það er nákvæmlega eins og gerist í kvótakerfinu.

Hvernig ætlar hv. þm. í tillögum sínum þá að leysa brottkastið með þessum tillögum? Er eitthvað annað sem á að leysa það?