Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:58:25 (202)

2001-10-08 16:58:25# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrir skömmu lauk svokölluð endurskoðunarnefnd hæstv. sjútvrh. störfum. Það hefur vakið athygli mína hvað það var sem menn hafa helst eytt tíma sínum í að ræða. Það virðist vera sem helst sé uppi á teningnum að ræða það eitt hvort eigi að skattleggja sjávarútveginn eða þjóðnýta aflaheimildir.

Mér dettur í hug hvort það geti verið að menn séu búnir að gleyma því til hvers við lögðum af stað í þessa ferð. Var það ekki öruggt mál þegar við hófum stjórn fiskveiða að það var meining allra að reyna með því að hámarka þann arð sem þjóðfélagið hefði af fiskveiðunum? Ég held að svo hafi verið. En í þessari umræðu, hvort við eigum að skattleggja eða þjóðnýta, þá virðist vera eins og menn hafi alveg gleymt þessu.

Nú vita það allir, herra forseti, og ég ætla ekki að gera ágreining í sjálfu sér við flutningsmenn frv., að ég hef lengi og alla ævi verið þeirrar skoðunar að ef ein þjóð ætlar að tryggja það endanlega að hún hafi aldrei arð af atvinnugreinum sínum, þá þjóðnýti hún hana. Það eru nú þó nokkuð mörg hundruð þúsund dæmi sem hafa komið fram í Evrópu og um allan heiminn á síðustu tveim mannsöldrum sem sanna það.

[17:00]

Ég hef líka verið þeirrar skoðunar að það sé lítt til bóta og alltaf til skaða að skattleggja atvinnureksturinn. Mér er alveg sama um það þó meiri hluti þessarar nefndar hafi komist að því að nú eigi að fara að skattleggja sjávarútveginn. Ég get ekki séð að þær tillögur séu hótinu betri en þær aðrar sem hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum. Og það liggur alveg fyrir að þrátt fyrir að hæstv. sjútvrh. ætli nú að gera þær tillögur að sínum, þá mun ég aldrei styðja þær, og berjast mjög harkalega gegn þeim hugmyndum.

Í þessu sambandi langar mig, herra forseti, til að spyrja menn hvort ekki sé ástæða til þess að rifja aðeins upp og fara yfir það hvað það er efnislega sem við erum að fást við. Við hófum stjórn fiskveiða fyrir rúmum 20 árum. Förum nú aðeins í gegnum þetta og rifjum það upp, ef ég mætti reyna að meta það frá mínum sjónarhóli hvar við stöndum.

Frá mínum sjónarhóli séð hefur þessi aflamarksleið, aflakvótaleiðin, gengið í veiðum uppsjávarfiskanna, síldinni og loðnunni og kolmunnanum, og ég get ekki betur séð en hún hafi gengið upp. Ég get ekki betur séð en að nýting framleiðslutækjanna sé ágæt og mér sýnist þessi heimild til að selja veiðiréttinn hafa nýst mönnum, að nýtingin á framleiðslutækjunum, bæði í landi og á sjó, sé góð. Það er mikil arðsemi, ég tel mig alveg geta dæmt um það, það er mikil arðsemi í dag af þessum veiðum, bæði veiðum og vinnslu. Ég verð ekki var við neinar deilur um þessar veiðar. Ég er sannfærður um að arðurinn af þessum veiðum gengur hratt út í þjóðfélagið. Þegar svo er, þá ríkir líka sátt, herra forseti.

Ef ég fer yfir dæmið gagnvart skelveiðunum og krabbadýrunum sýnist mér í grófum dráttum að þetta gangi nokkurn veginn. Ég veit að vísu að það er þó nokkur sóun í rækjunni. Það er töluverðu af smárækju hent. Ég veit vel um þau sjónarmið og ég get svo sem alveg tekið undir að líklega mundi olíureikningur fiskiskipanna vernda rækjuna jafn vel og þetta stjórnkerfi. Eigi að síður sýnist mér þetta nokkurn veginn ganga. Þetta er nokkurn veginn alveg skaðlaust.

Hins vegar þegar við komum að þorskaflanum, botnfiskveiðunum, sem við hófum að stjórna 1984, nokkrum árum seinna en loðnuveiðunum, þá get ég ekki merkt annað, fari ég í gegnum það frá a til ö, en allt hafi gengið aftur á bak. Ég get ekki með nokkru móti séð nokkurn árangur. Ekki nokkurn. Við höfum farið aftur á bak. (Gripið fram í.) Alls staðar. Við veiðum mun minna af öllum tegundum. Hefur sóknin minnkað? Nei, nei. Sóknin hefur mjög mikið vaxið. Við erum með þrisvar sinnum meira afl í togurunum núna en fyrir 15 árum. Allt er þetta eins. Arðsemin er að minnka stórkostlega. Það munar mörgum tugum milljarða í tekjum þjóðfélagsins í ár og fyrra og hittiðfyrra miðað við það sem ætti að vera í eðlilegu ári. Mjög mikið.

Við vitum líka að sóunin í þessu kerfi er skelfileg. Það vita allir. Fiskistofa veit það. Ráðuneytin vita það. Hafró hlýtur að vita það. (Gripið fram í: Allir sjómenn.) Allir sjómenn vita það. (Gripið fram í: Veit ráðherrann það?)

Hins vegar er hið sorglega í þessu dæmi að stjórn LÍÚ hefur tekið afstöðu sem er út af fyrir sig alveg skýr og einbeitt --- þeir hafa tekið afstöðu sem er bara ein: Afneitun. Þeir hafa afneitað öllu. Þeir neita að viðurkenna að nokkrir gallar séu á kerfinu. Alltaf. Alls staðar. Það er mjög skýrt hjá þeim. Ég persónulega er sannfærður um að þeir mundu t.d. neita því og afneita því að jörðin snerist ef þeir héldu að það passaði þeim. Svo harðir eru þeir í afstöðu sinni. Það er mjög gott að vera einarður en það getur nú komið mönnum í koll. (Gripið fram í: Þú lýgur því.)

Þetta held ég að sé hin hörmulega staða okkar í dag. Við erum einhvern veginn búin að týna fókusnum á vandamálinu. Vandamálið er það að aflakvótakerfið, sem ég held að reynist okkur vel í uppsjávarfiskunum þar sem við erum að veiða einsleitar tegundir með sams konar veiðarfærum, reynist bara þokkalega í skel og rækju o.s.frv., það hefur alls ekki reynst nothæft við bolfiskveiðarnar. Það er kerfið sjálft sem er ónothæft. Ónothæft kerfi getur ekki batnað við það að skattleggja það. Það er nú bara enn þá vitlausara. Verður ónothæft kerfi nothæft við það að þjóðnýta það? Nei, það er ég alveg sannfærður um að verði ekki. Því hörmulegra er það að mönnum gengur svo illa að viðurkenna fyrsta skrefið. Við verðum bara að byrja á að viðurkenna fyrsta skrefið og viðurkenna að okkur hafi mistekist. Er einhver smán að því? Nei, það er engin smán að því. Við verðum að byrja á byrjuninni og viðurkenna að okkur hafi mistekist. Þannig getum við reynt að fikra okkur áfram. Þessir hlutir eru ekki einhver einföld mynd, eins og þetta sé eitthvað í einni vídd og bara skipti máli það sem við ímyndum okkur að við veiðum. Það hlýtur að skipta máli hvenær við veiðum það, hvar við veiðum það og hvernig við veiðum það. Og við höfum mjög mikla reynslu og við höfum mjög mikla þekkingu. Við höfum gríðarlega þekkingu íslenskra skipstjórnarmanna sem hafa stundað Íslandsmið lengi. Við höfum gríðarlega þekkingu íslenskra vísindamanna sem hafa sannarlega verið að rannsaka mjög marga hluti. Við vitum það nákvæmlega, og það eru mjög margir sem vita það. Við höfum þekkingu á hitastigi. Við vitum hvernig þetta breytist, hvernig hitastigið breytist, hvernig fæðuframboðið breytist, og auðvitað liggur það fyrir þessari þjóð og stjórnvöldum þessa þjóðfélags að reyna að fikra sig áfram til þess að koma í veg fyrir sóunina. Þetta kerfi býður okkur upp á það að við veiðum ofan af stofninum. Við vitum það allir. Við vitum það allir að við erum á mjög hættulegri braut.

Við hljótum þess vegna að eiga núna að staldra við og athuga hvort við getum ekki --- í stað þess að vera að halda opinberar alþjóðaráðstefnur sem gera okkur að hálfgerðum kjánum með yfirlýsingu um það að við séum með besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi o.s.frv., sem er ákaflega hrátt og leiðinlegt --- viðurkennt að við þykjumst hafa náð ákveðnum árangri í ákveðnum tegundum. Annað hafi mistekist hjá okkur. Bara segja það. Ég get ekki séð að það ylli okkur skaða þótt við gerðum það. Við höfum svo óskaplega mörg dæmi um erfiðleika sem við lendum í þegar við erum að fást við botnfisktegundirnar þar sem við erum að veiða margar tegundir saman á margvísleg veiðarfæri og þetta rekur sig hvað á annars horn.

Því miður hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs sem ég held að sé versta ráðið og hefur komið okkur mjög illa, það er að segja: Sjá hvað við erum ábyrgir. Sjá hvað við erum ábyrgir, við förum eftir tillögum vísindamannanna. Og vísindamennirnir búa yfir bestu fáanlegu þekkingu o.s.frv. Við kunnum alla þessa rullu.

Nú liggur það fyrir að bæði gagnvart líffræðinni í hafinu er skekkjan óskapleg --- það getur munað mörg hundruð prósentum --- og líka gagnvart þeirri stærðfræði og tölfræði sem við erum að nota, það getur munað öðru eins. Við erum þannig ekkert nálægt því að hafa nokkra hugmynd um stofnstærðirnar sem við erum að fást við.

Ég ætla að taka eitt ömurlegt dæmi af því að hæstv. sjútvrh. er að hlusta á mig. Þegar hann var nýtekinn við þessu virðulega ráðherraembætti fór ég með honum vestur á firði og við vorum á fundi á Patreksfirði. Þar komu útgerðarmenn allra dragnótarbótanna og skýrðu hinum hæstvirta ráðherra frá því nákvæmlega hvernig þeir hentu öllum kolanum. Það var búið að færa kvótann niður í 5.000 tonn að ósk ... (Gripið fram í: Það var búið að færa hann niður í 3.000 tonn.) 3.000 --- já, þess frekar --- að ósk og kröfu vísindamannanna og drengirnir sögðu bara satt og rétt frá því, þeir gátu ekki annað en hent þessu.

Nú hefur krafa vísindamannanna áfram verið sú að halda kvótanum svona langt niðri. En allir vita að það er ekkert að gera nema að henda kolanum. Samt höldum við þessu áfram. Enn þá er kolakvótinn mjög langt niðri. Og hvað gera menn? Þeir vita allir að honum er hent alls staðar. (KLM: Nú hendum við ýsunni.) Ég ætla nú ekki að fara í gegnum allar tegundirnar. Ég er bara að nefna dæmi um vandamálið. Við tókum þann kost að fara eftir vísindamönnunum af því að þeir kröfðust þess og svo sögðum við: Sjáið skýrslurnar, við lögðum til svona lítið og skýrslurnar sýna svona lítið, sjá hvað við erum ábyrgir. Þetta er sá kostur sem við höfum tekið.

En það voru þó til tveir skárri kostir. Annar var að hlusta ekki á þessa fóbíu og veiða. Við höfum veitt þetta 12--14 þús. tonn af kola í gegnum árin vegna þess að við vitum að með þessu úthaldi veiðum við það hvort sem er í meðalári. Hinn kosturinn var að taka fóbíuna alvarlega og ætla ekki að veiða nema svona lítið en þá hefðum við þurft að að banna ákveðin veiðarfæri, loka ákveðnum togslóðum o.s.frv. Við gerðum það ekki. Við ákváðum að fara sýndarmennskuleiðina sem er í öllum tilfellum sú versta. Við erum að því í dag.

Við verðum að hætta þessari afneitun vegna þess að það er áríðandi fyrir þjóðfélagið að auka tekjur sínar af sjávarútvegi. Þó að byggðir landsins séu núna kannski óskaplega illa farnar vegna þess að forsendur þeirra hafa verið eyðilagðar mun það bitna á öllu þjóðfélaginu áður en yfir lýkur ef við nýtum ekki Íslandsmið eins og menn. Þetta er ekki bundið við einstök sjávarpláss og einstaka landshluta.

Ég skora því á alla sem hlýða á mál mitt, herra forseti, að horfast í augu við þetta. Hætta þessari afneitun, horfast í augu við þetta og reyna að finna einhverja lausn. Ég er ekki að halda því fram að það sé til nein patentlausn. Hins vegar var verið að sýna mér áðan fiskidaga Færeyinganna. Þar er verið að gera tilraunir. Það eru fleiri að stjórna fiskveiðum sínum heldur en við Íslendingar og fleiri eiga líf sitt undir þeim, þannig að við verðum að feta okkur áfram.

Það kom hér fram, herra forseti, í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Árna Steinars Jóhannssonar, að þinginu hefðu borist áskoranir hvaðanæva að af landinu, frá öllum félögum smábátaeigenda, vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem því miður er komin upp. Ég vil taka það fram að ég hef alla tíð harmað það að sjútvrn. skyldi verða fyrir þeirri ógæfu að heyja þetta stríð við smábátana. Það er að mínu mati algerlega tilgangslaust. Lengi hefur legið fyrir að sú forsenda í lögum og þau atriði sem þar var bent á að mundu ekki standast stjórnarskrá væru alveg tilhæfulaus.

Deilan um ýsuna sem kom upp varðandi smábátana og hin mikla þörf fyrir það að vera ábyrgur eins og þessir menn, þessir hræsnarar, kalla sig, deilan um 3.000--5.000 tonn af ýsu á ári, er fjarstæða. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, eins og ég hef látið í ljós áður og ég hef víðar látið í ljós opinberlega, að það eigi að hætta við þau áform sem stjórnvöld hafa nú uppi um að kvótasetja smábátana. Við á þinginu gerðum sannarlega samkomulag. Allir þingflokkar stóðu saman að því árið 1996 að ná friði við þennan bátaflokk. Það er hægt að ná friði, og það verður að ná friði. Það er hægt að semja um þetta. Ég er þess fullviss, herra forseti, að það er hægt að ná þverpólitískri samstöðu um þetta.

Ég ber þá ósk í brjósti að hæstv. sjútvrh. beri gæfu til þess að hafa forustu um það að ná þessari sátt aftur. Það færi best á því fyrir alla aðila að forustan væri hans. En ef það er ekki og hann er ófáanlegur til þess að láta af þeirri kröfu sinni að deyða þennan útgerðarflokk, og þar með stóran hluta landsbyggðarinnar og mjög mörg sjávarþorp, þá verður ekki við það unað, heldur munu koma hér fram tillögur þingmanna, örugglega úr öllum stjórnmálaflokkum, sem munu knýja á um það. Þá verða hér átök. Hjá því verður ekki komist. Þá reynir á það hvort menn vilja fylgja samvisku sinni og hinni brýnu þörf sem landsbyggðinni er í í dag, og sem þjóðfélagið í heild verður í á morgun, að við reynum þá að lifa við einhverja smásátt, og gerum þetta kerfi, sem nógu vitlaust er nú fyrir, ekki enn þá vitlausara eins og við höfum gert, því miður, núna frá 1. sept. þegar allir byrjuðu endanlega að henda ýsunni.

Ég ætla að vona, herra forseti, að til þess komi ekki. En það geta ekki liðið margir dagar þar til úr því verður skorið hvort ríkisstjórnin og hæstv. sjútvrh. bera gæfu til þess að hverfa frá þeirri braut sem þeir mörkuðu í vor, og fyrir misskilning var upphaflega mörkuð í janúar 1999, hvort þeir ná aftur sátt við einkaframtakið í sjávarútvegi vítt og breitt um landið því að sú langa leið sem fram undan er, að komast í gegnum þetta misheppnaða fiskveiðistjórnarkerfi, er löng leið og erfið. En á meðan verðum við að reyna að lifa í einhverri lágmarkssátt við þjóðfélagið, og það fólk sem lifir og starfar í íslenskum sjávarútvegi hringinn í kringum landið. Öðruvísi mun okkur farnast illa.