Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:32:59 (217)

2001-10-08 17:32:59# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að tala tæpitungulaust. Hann er maður sem stendur við orð sín. Hann segir það sjálfur. Við þekkjum hann að því. Því vænti ég þess að innan skamms liggi fyrir hvort hv. þm. ætlar að þekkjast það boð að vera á frv. hv. þingmanna Guðjóns A. Kristjánssonar, Karls V. Matthíassonar og fleiri þingmanna stjórnarandstöðunnar um þetta mál.

Ég spyr að gefnu tilefni, herra forseti. Hv. þm. sagði í vor nákvæmlega það sama og hann er að segja núna. Það kom ekkert frv. fram þá. Hann og ýmsir félagar hans úr Sjálfstfl. sem töluðu með svipuðum hætti áttu kost á því þá að koma því frv. úr hv. sjútvn. í þessa sali. Hv. þm. átti líka kost á því að koma til fundar með þingmönnum Vestfjarða fyrr í sumar til þess einmitt að skora á ríkisstjórnina að gera nákvæmlega þetta.

En ég tek orð hv. þm. trúanleg og lýsi því yfir að stjórnarandstaðan mun ganga eftir því innan mjög fárra daga að hv. þm. standi við þessi orð.