Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:53:08 (220)

2001-10-08 17:53:08# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei heyrt önnur eins rök og þau sem fram komu hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, að vegna ónákvæmni í fiskveiðiráðgjöf sé í lagi að leyfa frjálsar veiðar og þá bara hjá ákveðnum hluta flotans. Ég ætla ekki að fara mjög mikið í þetta vegna þess að tíminn er svo stuttur en mig langar að spyrja hv. þm. vegna þess að eftir því sem ég best veit hefur hann í tvígang gefið vilyrði sitt fyrir því að styðja að krókabátar fengju viðbótaraflaheimildir í steinbít og ýsu og einnig að þeir fengju hlutdeild í löngu og keilu. Það er tilbúið frv. um að veita þeim þessar viðbætur og þar fyrir utan hlutdeild í löngu og keilu. Ætlar hv. þm. að vera á móti því að það frv. verði tekið í gegnum sjútvn.? Ætlar hann að leggjast gegn því að smábátarnir fái þær viðbætur sem um hefur verið talað?