Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:57:00 (224)

2001-10-08 17:57:00# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það afar athyglisvert sem hér hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og síðan hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, þ.e. að þeir styðji ekki þá lagasetningu sem sett var á smábátana frá 1. sept. og vilji þar breytingar á.

Við stöndum frammi fyrir því að stór hluti smábátaflotans liggur bundinn við bryggju og getur ekki róið vegna þeirra ákvæða að ekki megi koma með meðafla að landi. Afleiðingin er sú að allt er stopp og fiskvinnslan sem byggir á þessum afla hefur stöðvast og sama má segja um útflutninginn á afla þessara báta. Ég leyfi mér því að spyrja, herra forseti, vegna þess hversu alvarlegt mál er hér á ferðinni, enda er ekki nóg að hv. þingmenn lýsi yfir því að þeir séu andvígir því ástandi sem nú er og krefjist úrbóta: Ætlar hv. þm. Hjálmar Árnason nú þegar að beita sér fyrir breytingum á því sem við nú stöndum frammi fyrir?