Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:00:51 (228)

2001-10-08 18:00:51# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól Alþingis til að vekja athygli á þeirri tímamótayfirlýsingu sem hefur komið fram á þessum fundi. Ég vil vekja athygli á því að hér var að tala hv. þm. Hjálmar Árnason, varaformaður þingflokks framsóknarmanna, nú starfandi formaður þingflokks framsóknarmanna, sem gaf þá yfirlýsingu um smábáta sem gerð var. Hann situr einnig í sjútvn.

Og það var varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, sem talaði áðan um smábátana og annað slíkt, þannig að ég get ekki annað en vakið athygli á því, herra forseti, að ég sé ekki betur en að kominn sé nýr meiri hluti í sjútvn. fyrir því að breyta þessum ólögum sem tóku gildi. Ég tel þá rétt að menn spóli til baka og breyti þessu smábátakerfi sem við höfum verið að tala um og ekki fékkst rætt fyrir þinglok í vor úr því að hér er kominn meiri hluti fyrir því.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason, starfandi þingflokksformann Framsfl.: Þiggur hann boð formanns Samfylkingarinnar sem kom hér fram áðan til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar?