Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:13:02 (236)

2001-10-08 18:13:02# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram athyglisverðar umræður og athyglisverðar yfirlýsingar komið fram í umræðu um það frv. sem við erum hér að ræða. Mér liggur við að óska þess að hæstv. forsrh. gerði það sem hann virðist hafa gert varðandi geðheilbrigðismálin, þ.e. kynnt sér þau mál alvarlega, og þess vegna var komið inn á það í stefnuræðu hans að á þeim málum þyrfti að taka. Ég held að hæstv. forsrh. þyrfti að kynna sér ástandið í sjávarbyggðunum þar sem verið er að binda bátana, þar sem beitningafólkið hefur ekki vinnu, þar sem fiski er kastað, þar sem ýsunni er kastað af því að ekki eru til heimildir fyrir henni, og koma því síðan að í stefnuræðu að þessu þurfi að breyta.

Mér er vel ljóst að vandasamt er að búa til fiskveiðistjórnarkerfi sem fullkomin sátt getur verið um, og ég veit að ekki er unnt að gera öllum til geðs því að þarfirnar og skoðanirnar eru ólíkar. En kerfið verður fyrst og fremst að vera hagkvæmt og réttlátt.

Í frv. Samfylkingarinnar sem við ræðum nú og Jóhann Ársælsson er 1. flm. að fer þetta saman. Að auki er stefnt að jafnræði varðandi aðgang að auðlindinni og að þjóðin fái öll að njóta arðsins. En ég er ekki að halda því fram að frv. feli í sér auðvelda lausn né einföld svör við öllum spurningum og lausnin er ekki ódýr. En hún felur í sér jafnræði og það getur meiri hluti þjóðarinnar örugglega sætt sig við.

Ég sagði að hér hefðu fallið merkilegar yfirlýsingar. Þetta frv. hefur dregið það fram að tveir stjórnarþingmenn hafa gefið ákaflega sterkar yfirlýsingar sem geta vakið þær vonir að unnt sé að breyta því sem verst er, þ.e. þeirri lagagerð sem samþykkt var gagnvart smábátunum við síðasta kvótaár þegar það hófst. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar á bolfiski, þ.e. þorski, ýsu og fleiri tegundum, hefur bókstaflega brugðist. Ég vil taka undir að kvótastýring á veiðum á uppsjávarfiski virðist hafa tekist.

[18:15]

Herra forseti. Það er ástæða til að geta þess að það eru fjölmargir Íslendingar í dag sem telja að fiskveiðistjórnarkerfið og framkvæmd þess sé þjóðarskömm. Þetta eru þung orð og alvarleg og ég bið hæstv. sjútvrh. að taka tillit til þessara orða og mark á þeim, því að það eru skoðanir fjölda manna að svona sé komið. Það er vegna þess að kerfið krefst þess að sjómenn hendi fiski, veiddum frá Raufarhöfn að Reykjanesi, eins og ástandið hefur verið undanfarið og ugglaust er ástandið víðar þannig. (GAK: Sama hvorn hringinn þú ferð.) Sama hvorn hringinn þú ferð, segir hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Síðasta gjörð, að auka hámark þess afla sem einstök útgerð má eiga, úr 10% í 12% af úthlutaðri heildarheimild í hverri tegund, er einnig ástæða fyrir þeirri skoðun að um þjóðarskömm sé að ræða.

Kvótasetning ýsu, keilu, skötu og skötusels er síðan þannig aðgerð að hún leiðir til þess að brottkast hefur stóraukist, ekki bara þessara nefndu tegunda heldur hefur brottkast á þorski einnig aukist. Kannski er rétt að velta fyrir sér hvernig það gerist. Það er vegna þess að menn eru knúnir til, með síðustu aðgerðum, að koma aðeins að landi með verðmesta fiskinn vegna þess að veiðiheimildirnar sem þeir hafa aðgang að eru orðnar svo takmarkaðar.

Enn fremur er ástæða til að velta fyrir sér hvernig verðlag á fiski á mörkuðum er í dag. Kílóverð á þorski á markaði í dag er frá 120 kr. upp í 320 kr. Og á hverju byggist munurinn? Hann byggist á stærð. Stærsti fiskurinn, 8 kg og þyngri, er á 320 og upp í 340 kr., fiskur sem er 5--6 kg er seldur á 240 kr., smáfiskurinn fer niður í 120 kr. en leiguverðið á markaði í dag á þorski er 150 kr. Það eru 150 kr. sem kostar að leigja sér kíló af þorski. Hvað þýðir það? Það þýðir að sá sem leigir kílóið á þessu verði kemur ekki að landi með annan afla en þann sem er á 300--320 kr. kg. Ég tel að það sé ástæða til að kynna sér aflasamsetninguna á mörkuðum í dag, frá 1. sept., samanborið við landaðan afla á sama tíma á síðasta ári, bara að skoða aflasamsetninguna á mörkuðunum í dag. Þá er ég að tala um stærðir og tegundir miðað við á sama tíma sl. ár. Hvað skyldi löndun smábátaflotans af ýsuafla hafa minnkað mikið? Það væri fróðlegt að vita, og hvort það eitt sé ekki ástæða fyrir hæstv. sjútvrh. til þess að skoða nú málið alvarlega og gera breytingar á. Ég treysti því að fari hann í að skoða þessi mál geti hann séð hvað í rauninni er á ferðinni.

Mér virðist ekki áhugi hjá hæstv. ríkisstjórn á athugun og úttekt á þessum hlutum sem ég er að nefna. Mér finnst það vera undarlegt virðingarleysi og undarlegt skeytingarleysi og lítilsvirðing stjórnvalda á skoðun almennings á þessum málum. Það hefur margoft verið skoðað og gerðar athuganir á því að meiri hluti þjóðarinnar er á þeirri skoðun að fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er í framkvæmd sé til vansa og að það þurfi að koma á nýrri framkvæmd við nýtingu auðlindarinnar sem er fiskurinn í sjónum við Ísland. Hver er réttur sjómanna sem stundað hafa fiskveiðar í áratugi ef þeir eru ekki eigendur að útgerð? Þeirra réttur er enginn. Þeir mega ekki veiða einn einasta fisk nema rétt í soðið fyrir sjálfa sig þó að þeir hafi aðgang að bát.

Sjómenn sem hafa búið við kerfi sem er kennt við 40 daga kerfið --- þeir máttu veiða 30 tonn á þessum 40 dögum --- búa nú við það að meðaltalsúthlutunin til þessara 89 báta er 8 tonn. Ég þekki sjómenn sem sættu sig við og voru glaðir með að veiða 25--30 tonn í þessu kerfi, og hafa þannig getað framfleytt sér undanfarin ár, en sitja núna uppi með aðeins 5--8 tonna veiðiheimild samkvæmt skeyti frá hæstv. sjútvrh. Og hvað þýðir það? Það er dauðadómur yfir viðkomandi aðila og það er óviðunandi á þeim tímum þegar upplýsingarnar eiga að vera klárar.

Maður veltir fyrir sér hvaða leið er hægt að fara. Ég var að veifa hér í dag því sem heitir færeyska sóknardagakerfið. Af hverju var ég að veifa því? Af því að ég er að benda á að í því felist kannski einhver lausn. Magnús Þór Hafsteinsson fiskifræðingur og fréttamaður gerir í sjómannadagsblaðinu Víkingi grein fyrir framkvæmd þess kerfis sem færeyskur sjávarútvegur byggir á. Þar segir, og með leyfi forseta ætla ég að vitna í nokkra staði án þess að tiltaka þá sérstaklega, að færeyskur sjávarútvegur sé í mikilli sókn. Má segja slíkt hið sama um íslenskan sjávarútveg hvað varðar botnlægar tegundir? Er íslenskur sjávarútvegur í mikilli sókn? Ég skal svara því. Nei. Íslenskur sjávarútvegur er niðurlægður hvað varðar þessar tegundir vegna þess að fyrir nokkrum árum var mjög algengt að 450--460 þús. tonn væru veidd af þorski á Íslandsmiðum en veiðin er komin niður í 150--170 þús. tonn. Ekki hef ég nákvæma tölu en meira að segja átti helst að veiða minna en það.

Hins vegar er sagt að við Færeyjar gangi veiðarnar vel, afli margra tegunda fari vaxandi og fiskstofnar virðist í þokkalegu ásigkomulagi. En fyrir tæpum 10 árum gerðu stjórnvöld í Danmörku og Færeyjum samning sín á milli um að taka upp fiskveiðistjórnarkerfi. Færeyingar voru á hvínandi hausnum þá en hvaða kerfi var tekið upp? Jú, kerfið var tekið upp frá hinni gömlu nýlenduþjóð Dananna, Íslendingum. Þetta kerfi er búið að leika lausum hala í 18 ár á Íslandi, þetta sem Færeyingarnar áttu að fara eftir.

En hvað gerðist? Þegar Færeyingar voru komnir í þann vanda að kvótakerfið olli sífellt meiri og meiri óánægju og alls kyns svindl var stundað í tengslum við skráningu á afla, og afla var hent í sjóinn --- hljómar þetta eitthvað kunnuglega, er það ekki, herra forseti, nákvæmlega þetta sem er að gerast á Íslandi í dag? Er ekki ýsan orðin gul allt í einu? Er ekki alls konar svindl í framhjávigt? Er ekki verið að kasta fiski í meira mæli en nokkurn tíma áður? Samt situr hæstv. sjútvrh. sallarólegur yfir þeim tillögum sem hann ætlar að leggja fyrir þingið og láta fara í gegn, og yfir þeim lögum sem gengu í gildi núna 1. sept. En hvað gerðu Færeyingar? Þeir sneru við blaðinu og þeir stofnuðu nefnd. Það var ekki nefnd eins og hæstv. sjútvrh. skipaði, sem átti að verða sáttanefnd. Þeir stofnuðu í árslok 1995 nefnd sem var kölluð fiskveiðistjórnarnefnd. Þá áttu sæti í henni allir fulltrúar hagsmunaaðila og frá hafrannsóknastofnun og landstjórninni. Þessi nefnd þurfti bara tvo mánuði til að leggja til nýtt fiskveiðistjórnarkerfi sem umbylti fiskveiðistjórninni við Færeyjar. Og hver er árangurinn? Hver skyldi svo árangurinn vera? Ágæt aflabrögð, markaðirnir sáttir, meiri tekjur hjá sjómönnum, meiri tekjur hjá útgerðarmönnum, enginn skortur á fiski. Eina vandamálið sem eftir stendur er kannski að útgerðir í Færeyjum skortir heimildir fyrir veðum, þær skortir gild veð fyrir lánum. Viðruð hefur verið hugmynd að lausn á því vandamáli í Færeyjum, og ég efast ekki um að menn sem hafa komist að þeirri niðurstöðu sem náðist í Færeyjum munu finna lausn á þessum hlutum.

Virðulegur forseti. Ég er búinn að skrifa nokkrar greinar og hugleiðingar um sjávarútvegsmál og þær hafa allar gengið í þá átt að reyna að ná sátt, reyna að ná friði, reyna að ná einhverjum árangri og mér virðist það vera þannig að hver sú ræða sem maður flytur sé flutt fyrir nærri því daufum eyrum, a.m.k. daufum eyrum stjórnarliða. Ég tel að sú niðurstaða sem við þurfum að ná fram sé að jafnræði sé um aðgang að auðlindinni og endurnýjun geti átt sér stað í greininni. Annars verður úrkynjun. Öllum útgerðarmynstrum verði boðin sambærileg skilyrði. Það verður að virða mannréttindaákvæði í stjórnarskrá varðandi frjálst val á atvinnu og það ber að viðurkenna að það er ekki hægt að einkavæða fiskstofna. Þess vegna segi ég að það er grundvallaratriði að þeir sem nýta auðlind greiði fyrir það eðlilegt gjald sem renni í sjóði til hagsbóta fyrir almenning og til stoðgreina þeirra sem tengdar eru viðkomandi auðlind. Almennar reglur um nýtingu og umgengni við almenning eða auðlindir þurfa að vera svo einfaldar og skýrar að þær séu óumdeildar.

Ég held að það sé svo komið að menn geti aldrei aftur orðið hinn frjálsi sjálfstæði sjómaður, trillukarl eða togarajaxl, Íslandsbersi eða einfari á miðum. En það er hægt að nálgast þessa hugmyndafræði. Það er hægt að komast í námunda við ímynd hins frjálsa og óháða, þ.e. hugtökin um frelsi einstaklingsins og jafnræði þegnanna, ef menn leggjast á eitt, og það er búið að nefna hér í dag oftar en einu sinni möguleika á sáttum. Ég virði þá hv. tvo stjórnarþingmenn sem hafa gengið svo langt í berhögg við ríkisstjórnina um leið og þeir ræddu það frv. sem Samfylkingin ber fram undir forystu Jóhanns Ársælssonar.