Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:59:12 (242)

2001-10-08 18:59:12# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst sú umræða sem farið hefur fram í dag vera góð og málefnaleg, ekki síst ræða síðasta hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Umræðan hefur speglað þá þróun sem mér finnst gæta í umræðum um kvótakerfið og breytingar á stjórnkerfi fiskveiða.

Þessar breytingar eru allar, finnst mér, að færast í þá veru að rétt sé að fara fyrningarleiðina, að rétt sé að þróa með einhverjum hætti leið sem byggir á afnámi gjafakvótans. Það er það sem menn hafa í reynd verið að ræða í dag.

Fram hefur komið að fyrir utan Samfylkinguna er þessi skoðun líka uppi, t.d. hjá hv. þm. Vinstri grænna sem hér hafa talað. Það var t.d. ákaflega athyglisvert að hlýða á hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson lýsa því yfir að hann vildi í reynd afnema gjafakvótakerfið á 20 árum. Við þekkjum öll skoðanir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem hefur lýst ákaflega svipuðum skoðunum. Skoðanir hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar eru ákaflega skyldar skoðunum þeirra sem ég hef nefnt.

Í dag hefur einnig verið fróðlegt að hlusta á hv. þm. Hjálmar Árnason sem lýsti því yfir að honum þætti hugsunin á bak við þessa aðferð göfug. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli, herra forseti, að menn nái sem víðtækastri samstöðu um þessa leið.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Auðvitað skildi ég að í mörgum meginatriðum var hann sammála því frv. sem við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum og er hér til umræðu. Mig langar þess vegna, herra forseti, að heyra frá honum hvað það er helst sem hann getur ekki sætt sig við. Ég hlustaði á andsvar hans við ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar þar sem hann tiltók eitt atriði en hvað er það annað sem honum er andsnúið? Það er mikilvægt að fá það fram til þess að við getum skynjað og fundið þá snertifleti sem eru með flokkum okkar varðandi þetta mikilvæga mál.