Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:06:13 (245)

2001-10-08 19:06:13# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:06]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Í dag hafa farið hér fram um margt mjög efnismiklar umræður og kannski ekkert skrýtið í 1. umr. um sjávarútvegsmál á nýbyrjuðu þingi. En umræðurnar hafa hins vegar minnst fjallað um dagskrármálið, um það frv. sem lá fyrir til umræðu, enda er það kannski heldur ekkert skrýtið. Þetta er frv. sem flutt er óbreytt eða alla vega lítið breytt í þriðja skipti og hefur þar af leiðandi verið fjallað um það áður.

Umræðan hefur hins vegar í því samhengi ekki síður snúist um skýrslu hinnar svokölluðu endurskoðunarnefndar og þá ekki bara niðurstöðu meiri hlutans heldur um niðurstöðu fulltrúa Vinstri grænna, hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Það sem hins vegar hefur skinið í gegn og má eiginlega segja að komi fram í grg. með frv. og snýr að endurskoðunarnefndinni og má segja að kristallist í minnihlutaáliti hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og hvernig það er unnið og um það hef ég haft nokkur orð áður og í flutningi þessa frv. hér, er að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði ekkert umboð til að semja í þessari nefnd. Hann tók ekki mjög alvarlega það hlutverk að reyna að leita sátta í málinu því að hann átti bara að fara með flokkslínuna eins og hún birtist í frv. sem hér er flutt í þriðja skiptið, ekkert eða lítið breytt.

Ég vil þó nefna eitt atriði í sambandi við framsöguræðu hv. þm. þar sem hann nefndi auðlindanefndina og fiskvinnslukvótann. Hann vitnaði í ræðu mína frá því á föstudaginn á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem ég hefði sagt að auðlindanefndin hefði lagt til fiskvinnslukvóta. Það gerði ég ekki. Ég sagði ekki að auðlindanefndin hefði lagt til fiskvinnslukvóta. Ég sagði hins vegar, ef ég man orðalagið rétt, að tillagan ætti ákveðna samsvörun í umfjöllun auðlindanefndarinnar, þar sem hún fjallaði um handhöfnina almennt, og komst að þeirri niðurstöðu að fleiri ættu að geta verið handhafar kvótans en þeir sem ættu skip eða sú aðferð að vista kvótann á skipum. Ef hv. þm. trúir mér ekki verð ég að senda honum textann af ræðunni minni og þá mun hann sjá þetta mjög skýrt. En mér fannst reyndar eins og hv. þm. hefði verið að vitna í það sem hann hefði heyrt sagt frá ræðunni, þannig að ég vil ekki ætla honum að hann hafi farið rangt með að yfirlögðu ráði.

Aðeins hefur verið minnst á kvótasetningu og að þrjár nýjar tegundir voru settar í kvóta þann 1. september. Það er alltaf svo þegar verið er að setja tegundir í kvóta að þá kemur það niður á einhverjum sem hafa verið að byrja veiðar í þeim tegundum. En ástæður fyrir því að tegundir eru settar í kvóta eru þær að sóknin í tegundirnar er ekki í jafnvægi. Hún er orðin meiri en tegundirnar þola og það er þá væntanlega vegna þess að fleiri eru farnir að sækja í tegundirnar en áður var. Og eftir því sem færri tegundir verða fyrir utan kvóta verður meira álag á þær en áður. Þeir sem hafa lítinn kvóta í öðrum tegundum leggja sig eftir því að veiða þær tegundir sem eru utan kvóta. Það hefur verið mjög áberandi með keilu og löngu að fleiri aðilar hafa verið að fara í slíka veiði og það er ástæðan fyrir því að verið er að kvótasetja tegundina. Nefni ég til sögunnar t.d. að talað er um að þrír línubátar hafi verið að bætast í flotann til að veiða þessar utankvótategundir, bátar sem koma utan frá og hefðu fyrir dóminn í desember 1998 ekki getað komið inn í þessa veiði. En þar sem ekki er lengur hægt að stjórna með aðgangstakmörkunum samkvæmt þeim dómi er þeim fullkomlega heimilt að koma inn í veiðina. Þeir eru í eigu Íslendinga og jafnvel þó að fjármögnunin sé með ábyrgðum erlendra aðila þá er það fullkomlega löglegt. En eftir sem áður stendur það að sóknin í þessar tegundir er að aukast og tegundirnar eru farnar að bera þess merki.

Svipaða sögu má segja af skötuselnum, þar hefur sóknin verið að aukast mjög mikið. Aflinn hefur nærri þrefaldast vegna nýrra veiðarfæra sem verið er að beita við veiðina og við höfum dæmi um það frá nágrannalöndum okkar, bæði Noregi og Frakklandi, að skötuselsstofnar hafa hrunið nánast fyrirvaralaust eftir að aukning á sókn og aukning á afla hefur verið svo mikil eins og dæmi eru um hjá okkur.

Mjög athyglisverð umræða fór fram á milli þeirra hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og Guðjóns A. Kristjánssonar um hvort við þekktum það hvernig hitastig breyttist í sjónum. Ég held að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafi rétt fyrir sér í því að við vitum ekki hvernig hitastig breytist í sjónum. Við kunnum að mæla það á hverjum einstökum stað og einstöku dýpi og einstökum tíma en við getum ekki sagt fyrir um það með nægilega mikilli nákvæmni hvernig hitastigið verður á morgun eða eftir mánuð eða eftir eitt, fimm eða tíu ár. Þetta er auðvitað eðli náttúruvísindanna og eitt af því sem við verðum að hafa í huga þegar við erum að fjalla um það, og hvort okkur hafi tekist vel upp við fiskveiðistjórnina eða ekki, að umhverfið er síbreytilegt.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson rakti í grófum dráttum sögu fiskveiðistjórnar í landhelgi okkar Íslendinga. Hann taldi að kvótakerfið gengi upp í uppsjávarveiðum, rækjuveiðum og veiðum á öðrum skelfiski en taldi að illa hefði tekist til við stýringu á botnfiskveiðum og að okkur bæri að viðurkenna að okkur hefði mistekist. Hann fjallaði einnig um vísindamennina og hvaða hlut þeir ættu að máli, ónákvæmnina sem þar væri að finna. Það er þess vegna rétt í umræðu um ónákvæmnina að gera okkur örlitla grein fyrir því að þó að um sé að ræða ónákvæmni og óvissu í mælingum á stofnstærðinni þá er það ekki ástæða til að kasta ráðgjöf fiskifræðinganna fyrir róða og sleppa veiðunum frjálsum. Frekar er ástæða til að við förum varlega. Ég hef frekar áhyggjur af því, eins og staðan er hjá okkur í dag, að við förum ekki nægjanlega varlega heldur en að við séum að fara of varlega. Breytileikinn og skekkjan virðist, eins og málin standa í dag, vera það mikil. En við munum vonandi vita meira um þetta þegar fram líður. Í gangi eru mjög umfangsmiklar athuganir á þessu kerfi og hvernig það allt saman virkar og hvernig það gengur upp og hvernig við getum best nýtt það við fiskveiðistjórnina.

Það þýðir hins vegar ekki að menn geti ekki leiðrétt sig þegar þeim skjátlast og eitthvað kemur upp sem augljóslega mætti betur fara, samanber þá umræðu sem hér spratt um skarkolann, að í ljós kom þegar búið var að ákveða að skarkolaaflinn yrði einungis 3.000 tonn að þessi afli var talsvert undir því sem er eðlilegur meðafli við aðrar veiðar og nánast óhjákvæmilegt að komi með í veiðarfæri. Þess vegna var það á þeim grundvelli, þegar farið hafði verið ofan í þessar tölur og þær reiknaðar upp á nýtt út frá þeim meðafla sem líklegt var að óhjákvæmilegt væri að veiða að ég hækkaði kvótann um 1/3 í 4.000 tonn. Það er því ekki svo að ekkert sé óumbreytanlegt í þessu.

[19:15]

Talsvert hefur verið rætt um brottkastið og það er víðar en í sambandi við skarkolann sem það hefur verið vandamál. Það hefur m.a. verið spurt hvort ráðherrann gerði sér grein fyrir sóuninni sem innifalin er í brottkastinu. Því er til að svara að ráðherrann gerir sér grein fyrir því. Hann gerir sér grein fyrir því vegna þess að hann lét gera tvær athuganir á brottkasti á sl. ári. Annars vegar var skoðanakönnun meðal sjómanna og hins vegar samanburður á eldri mælingum, annars vegar á lönduðum afla og hins vegar afla um borð í fiskiskipi.

Niðurstöður þessara kannana voru á sama veg og reyndar í sama dúr og eldri kannanir og ekki mjög langt frá sams konar athugunum í Noregi. Við höfum því nokkra hugmynd um hvernig brottkastið hefur verið á síðustu árum. Við höfum þó ekki nákvæma mynd af því og ekki það nákvæma að hægt hafi verið að sjá hvernig þetta var áður fyrr. En með breyttum vinnubrögðum við mælingar, m.a. með fjölgun eftirlitsmanna, munu innan tíðar liggja fyrir upplýsingar. Við getum þá mælt breytingar og fylgst með því hvernig þetta er að þróast. Alla vega er það ætlunin með þessu breytta fyrirkomulagi að geta fylgst með þessu. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á lögum og reglugerðum í þessu efni, m.a. að hið svokallaða undirmál, sem heimilt er að veiða og telst að hálfu til kvóta, var við upphaf þessa fiskveiðiárs fært úr 7% í 10%. Það þýðir að undirmálsfiskurinn, sem hv. þm. Gísli S. Einarsson var að tala um og lægsta verðið fæst fyrir á markaði, 120 kr., telst bara hálfur fiskur í kvótanum. Fyrir kvótakílóið, í þeim skilningi fást því ekki 120 kr. heldur hugsanlega 240 kr. En auðvitað kostar það að veiða kvótakílóið tvisvar og það á auðvitað við um alla þá sem stunda brottkast. Um leið og þeir henda einum fiski þurfa þeir að veiða annan í staðinn ef þeir ætla að ná kvótanum sínum. Þetta er ekki alveg eins einfalt og hv. þm. Gísli S. Einarsson gerði því skóna. Unnið hefur verið að því að breyta lögum og reglugerðum til að minnka þrýstinginn á brottkast. Það verður áfram og vonandi kemur eitthvað meira út úr því áður en langt um líður.

Það hefur talsvert verið rætt um færeyska sóknardagakerfið, m.a. í samhengi við brottkastsumræðuna. Færeyska sóknardagakerfið er í grundvallaratriðum ekki mjög ólíkt okkar kvótakerfi. Það byggir á því að mæla stærð fiskstofnanna og ákvarða hvert eigi að vera heildaraflamarkið í hverjum stofni fyrir sig. Í staðinn fyrir það að við útdeilum þessu sem kvóta á fiskiskipin þá útdeila Færeyingar fiskidögum í samræmi við, eða alla vega er prinsippið það, það sem hægt er að veiða á hverjum degi. Þeir stýra sókninni að því að veiða hið ákvarðaða eða ráðlagða heildaraflamark.

Munurinn á okkar kerfi og þeirra kerfi felst meira í þeim veiðarfærum sem eru notuð. Þar er línu- og handfæraveiði miklu algengari en hjá okkur. Togararnir eru í sumum tilfellum settir talsvert utar en við gerum, en þó ekki í öllum tilfellum. Það er svolítið misjafnt hvað línan er dregin langt fyrir utan við ströndina hjá okkur. Netaveiði er hins vegar miklu minni við Færeyjar en við Íslandsstrendur. Einnig eru þeir með miklu meiri og víðtækari svæðalokanir en við höfum verið með og finnst mörgum nóg um hvað svæðalokanir hafa verið tíðar að undanförnu. Þetta er held ég að sé meginmunurinn.

Undantekning frá þessu með netaveiðarnar eru veiðar Færeyinga á grálúðu og skötusel. Færeyingar segja: Þar getum við ekki stjórnað með fiskidögum. Það passar ekki að stjórna netaveiðum með fiskidögum. Það gengur bara ekki upp að segja þeir. Þeir segja líka, og mér skilst að sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jørgen Niclasen, hafi sagt frá því á fundi með hv. sjútvn. Alþingis að í þessum netaveiðum væri brottkast því að þar væri meðafli. Af því yrði brottkast.

En hvernig er þá ástand fiskstofnanna í Færeyjum borið saman við ástand fiskstofnanna við Ísland? Menn fóru fögrum orðum um það hve gott ástand væri í Færeyjum. Staðreynd málsins er hins vegar sú að bæði í ár og í fyrra fengu Færeyingar ráðleggingar frá fiskifræðingum sínum um að fækka fiskidögunum til að draga saman afla af því að fiskstofnarnir væru að minnka. Þetta á við um ufsa, ýsu og þorsk. Þeir hafa hins vegar ekki farið eftir þessu nema að mjög takmörkuðu leyti og það varð til þess að formaður fiskveiðiráðgjafarnefndarinnar sagði af sér. Ég held því að þegar við skoðum þetta aðeins betur þá sjáum við að meginmunurinn á þessum tveimur kerfum sé annars vegar í línu- og handfæraveiði og hins vegar í netaveiði. Við vitum að verðmætasti hluti okkar afla kemur úr vertíðarfiskinum á netunum. Það er sá fiskur sem er uppistaðan í því sem ég hef oft kallað verðmætasta fiskmarkað í heimi, þ.e. saltfiskmarkaðnum í Katalóníu á Spáni. Ég held að það yrði mjög lítið úr þessum mjög svo góða markaði okkar ef við hættum netaveiðinni og veiddum vertíðaraflann á línu og handfæri eins og þeir gera í Færeyjum.

Herra forseti. Einnig hefur talsvert verið rætt um krókaaflamarkið eða svokallaða smábáta, sem eru ekkert svo smáir og veiða ekki svo lítið, alla vega sumir hverjir. Það hefur verið rætt um minn hlut í þessu og eins það hvað ég erfði frá forvera mínum. Ég vil ekki kannast við að forveri minn hafi staðið í stríði við smábátasjómenn eða að annar hvor okkar eða báðir vilji smábátaveiðar feigar. Hins vegar hefur minn hlutur í þessu máli verið annars vegar að leggja til frestun á að krókaaflamarkið taki gildi um eitt ár og hins vegar að leggja til að aflahlutdeild krókamarksbátanna yrði aukin. Allur sá illvilji sem mér er gerður upp felst í að leggja til frestunina og leggja til aukninguna.

Ég hef ekki alveg áttað mig á þeirri liðssöfnun sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur unnið að til að gera breytingar á krókaaflamarkinu, að reyna að safna liði meðal stjórnarþingmanna með áskorunum á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson héðan úr stólnum, reyndar í samræmi við það, skilst mér, sem þeim fór á milli í útvarpsþætti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er reyndar með skemmtilegri mönnum í útvarpsþáttum. En ég fæ ekki betur séð en að í þessu frv. Samfylkingarinnar sé einmitt gert ráð fyrir því að smábátarnir, 15 tonn eða minni, verði í kvótakerfinu alveg eins og hinir. Munurinn er bara sá að þeir eiga að kaupa krókaaflamarkið, eða hvað það mun heita, á uppboði. Ég fæ því ekki almennilega séð að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson eigi svo mikið sameiginlegt með þessari stefnumörkun Samfylkingarinnar, eins og hann sagði reyndar í ræðu sinni, að hann mundi aldrei greiða atkvæði með því að lagður yrði skattur á útgerðina. Mér finnst þess vegna vera þversögn í því sem komið hefur fram hjá hv. formanni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni, í þessari liðssöfnun hans, hvað þá í því að hann reyni að draga til liðs við sig einnig hv. starfandi þingflokksformann Framsfl. sem lýsti svipuðum sjónarmiðum úr pontu.

Herra forseti. Þetta hafa verið efnismiklar umræður. Þær hafa farið um víðan völl og ég hef því miður örugglega ekki tæpt á öllu því sem fram hefur komið en ég hef reynt að gera mitt besta.