Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:35:01 (254)

2001-10-08 19:35:01# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:35]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði byggðirnar þurfa á öðru að halda en að veiðiheimildirnar væru rifnar frá þeim, ég held að ég hafi skrifað þetta rétt eftir honum. (Sjútvrh.: Lífsbjörgin.)

Nú er það svo, hæstv. sjútvrh., að það er akkúrat það sem núverandi stjórnkerfi fiskveiðanna hefur gert. Það hefur m.a. orðið til þess að á norðanverðum Vestfjörðum hafa aflaheimildirnar í almennum botnfiski minnkað úr 9,3% fiskveiðiárið 1995 í 4,8% árið 2001.

Síðan vil ég vekja athygli hæstv. ráðherrans á því að smábátasjómenn, sem eru að vinna í veiðikerfi smábátanna, biðjast undan því, hæstv. ráðherra, að þurfa að vinna í þessu brottkastskerfi sem þú varst að láta á þá. Þeir vilja fá að vinna áfram í því kerfi sem þeir hafa verið að vinna í undanfarin ár, eru tilbúnir til þess, og ég veit ekki annað en að þeir hafi tjáð sig jafnvel að þeir væru tilbúnir að taka á sig einhverjar sóknartakmarkanir ef það mætti verða til þess að þeir fengju áfram að veiða í því kerfi sem þeir vilja starfa í en þú vilt ekki leyfa þeim.