Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 13:57:21 (259)

2001-10-09 13:57:21# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að þetta mál hafi verið lengi í undirbúningi í ráðuneyti hans og ég dreg það ekki í efa. Þetta mál er þannig vaxið að það er nauðsynlegt að ná um það sem bestri samstöðu og fá sem mesta málefnalega umræðu um það.

Nú hefur það hins vegar gerst, herra forseti, að um leið og þetta mál kemur fram hefur Alþýðusamband Íslands brugðist ákaflega harkalega við og kvartað undan skorti á samráði. Í yfirlýsingu sem frá því kom í gær segir að ekki bendi neitt til annars en að hækkun tryggingagjaldsins, sem hæstv. ráðherra mærði svo hérna áðan, mundi fara beint út í verðlagið, auka verðbólgu og þannig leiða til beinnar kaupmáttarskerðingar fyrir almenning í landinu. Sömuleiðis segir þar að þessar aðgerðir muni leiða til minni umsvifa og samdráttar í viðskiptum. Og í þriðja lagi, herra forseti, segir í ályktun ASÍ að það sé vandséð hvernig verkalýðshreyfingin komist hjá því að segja launalið kjarasamninga upp í byrjun næsta árs.

Ég spyr því, herra forseti: Hvað segir hæstv. fjmrh. við þessari efnislegu gagnrýni Alþýðusambands Íslands? Meira fýsir mig þó að vita, herra forseti: Er það svo að þessar viðamiklu tillögur séu lagðar fram án þess að nokkurt samráð sé haft við Alþýðusamband Íslands?